Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:37:24 (4724)

1998-03-17 15:37:24# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:37]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer hefur það komið í ljós, með nýlegri skýrslu Húsnæðisstofnunar ríkisins, að vanskil hafa minnkað mjög hjá íbúðalánasjóðunum. Það gildir þá báða og því ber að fagna. Eins var bent á að líkt og annars staðar hefðu vanskil aukist þegar hið mikla samdráttarskeið sem við þekkjum ósköp vel reið yfir. Auðvitað hlýtur það að hafa bitnað á fólki í félagslegu kerfi eins og öðrum og ég ætla ekkert að leggja mat á þær tölur sem þingmaðurinn nefndi. Þetta snýst ekki um það hvort mikil vanskil séu í félagslega kerfinu eða annað. Þar þarf að bæta ýmislegt. Ekkert okkar hefur varið algerlega óbreytt kerfi. Við höfum bara sagt: Það á ekki að kasta því fyrir róða eins og ætlunin er að gera.

Hið mikilvægasta við orð þingmannsins er að ekkert á að gera fyrir þennan hóp. Það á að tryggja að láglaunamaðurinn fari nú ekki að kaupa sér íbúð í óþarfa sem hann lendir kannski í vanskilum út af. Hann má fara á leigumarkað. Við höfum spurt: Hvaða leigumarkað? Og það er ekki þannig að fyrst séu teknar ákvarðanir um að leggja í svo og svo stórt átak um byggingu leiguíbúða sveitarfélaga, einkaaðila eða hvað það nú væri sem þessi ríkisstjórn myndi kjósa. Nei. Aðeins hefur verið rætt um 50 íbúðir í viðmiðunarumsögn fjmrn. Þess vegna er hópnum sem þingmaðurinn talaði um vísað á kaldan klaka.