Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:05:38 (4730)

1998-03-17 16:05:38# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ólíkt svo glöggum þingmanni eins og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að misskilja þetta svona. Þegar menn hækka ný lán úr þessum sjóði sem eru lægri en þau lán sem ríkissjóður verður að borga af sínum skuldbindingum, þá myndast tap á ári hverju og þá verður ríkissjóður í hverju falli að áætlað kostnað fyrir því. Þegar slík lánveiting hættir, þá þarf ríkissjóður ekki lengur að áætla fyrir þeim kostnaði. Þær tekjur eða þeir peningar sem þar verða til mæta þá öðrum kostnaði ríkisins. Þetta liggur alveg í augum uppi ef þingmaðurinn fer að skoða það.

Varðandi aftur fortíðina, aðra sjóði og þær skuldbindingar og þá fjármuni sem við leggjum til á fjárlögum hverju sinni, þá breytir þetta frv. ekki því. Þess vegna þarf ekki í athugasemd við þetta frv. að taka fram að þar vanti einhverja peninga. Fyrir liggur að þau útgjöld verði í samræmi við þau útgjöld sem við þegar höfum haft. Við erum ekki að losa okkur við þær skuldbindingar sem við höfum gengist við gagnvart fólki sem er í þessum sjóðum. Þetta liggur alveg í augum uppi. Þetta er því einhver reginmisskilningur sem hefur farið fram í þessu ágæta höfði hins góða þingmanns.