Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:23:35 (4735)

1998-03-17 16:23:35# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:23]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það eru fáein atriði sem ég vil koma inn á og reyndar var ég búinn að svara því öllu í löngum umræðum um húsnæðismál fyrir fáeinum dögum.

Fyrst vil ég segja frá því að það standa yfir samtöl milli okkar í félmrn. og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Þeir hafa bent á atriði sem þeir vilja sjá skýrari í húsnæðismálunum og bent á atriði sem þeir telja að betur færi á að orða öðruvísi. Við munum fara saman yfir útreikninga og erum að þessu öllu í hinu mesta bróðerni.

Það er rétt sem hefur komið fram að mikill munur er á vaxtabótum og niðurgreiddum vöxtum. Þá þegar af þeirri ástæðu að til þess að breyta vaxtabótum þarf lagasetningu en vaxtaákvarðanir eða niðurgreiðsla á vöxtum er fyrst og fremst geðþóttaákvörðun hjá félmrh. Hv. 13. þm. Reykv. hækkaði vextina á félagslegu lánunum úr 1% í 2,4% og síðan vexti úr 2,4% upp í 4,9% og þurfti enga lagasetningu til.

Sú löggjöf sem við erum að smíða miðar að því að tryggja tekjulágu fólki eigið húsnæði sem það á að geta búið í til frambúðar og þarf ekki að reisa sér hurðarás um öxl og tapa svo íbúðunum og standa uppi með stórskuldir eins og því miður eru allt of mörg dæmi um.

Ég vil benda á 37. gr. á bls. 9 í frv. um húsnæðismál þar sem tekið er skýrt fram að Íbúðalánasjóður muni ekki lána út á lélegar íbúðir og ég held að sá ótti sé óraunhæfur. Eins og ég hef margoft tekið fram er endanlegt greiðslumat ekki frágengið og menn geta ekki gefið sér að reikna með því að farið verði eftir greiðslumatinu eins og það er á húsbréfum og hækka það upp í 90%. Það geta menn ekki gert.

Nefnd sem hefur verið að skoða greiðslumatið og er búin að skila áliti, kemur með ákveðnar tillögur um nýtt greiðslumat sem taki mið af tekjum, eignum, skuldum og framfærsluþörf viðkomandi fjölskyldu. Það verður þá þegar af þeirri ástæðu sá mismunur á þessu greiðslumati og núverandi greiðslumati húsbréfa að húsbréfagreiðslumatið eins og það hefur verið á almenna markaðnum er miðað við 25 ára endurgreiðslutíma. Greiðslumatið í félagslega kerfinu verður miðað við 40 ára endurgreiðslutíma og þá þegar er árleg greiðslubyrði léttari á 40 ára láni en á 25 ára láni. Samkvæmt frv. er stjórn Íbúðalánasjóðs ætlað að semja nýjar reglur um greiðslumat.

Ég get ekki neitað því að mér brá við að heyra hv. 13. þm. Reykv. lýsa því yfir hve félagslegar íbúðir í Grafarvogi væru dýrar. Hún hefur hingað til haldið því fram að þær væru 10% ódýrari en íbúðir á almennum markaði. Ég skal ekki leggja dóm á reikningsdæmi eða útreikninga hv. 13. þm. Reykv. en þeim ber greinilega ekki saman við þá útreikninga sem ég hef séð. Auðvitað er hægt að búa til absúrd dæmi um mjög tekjulágt fólk sem kaupir mjög dýra íbúð og fullnýtir vaxtabætur sínar og fari upp fyrir þakið en hvort það eru raunhæf dæmi þarf að skoða betur. Það er einmitt ástæða til fyrir hv. efh.- og viðskn. að fara yfir dæmasafnið og skoða það þegar dagskrármálið verður til meðferðar.

Hér kom fram spurning um hvort ætti að hækka vexti til leiguíbúða. Ég vil benda á bráðabirgðaákvæði VIII á bls. 17. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt bráðabirgðaákvæði VIII er Íbúðalánasjóði heimilt að veita lán til leiguíbúða með niðurgreiddum vöxtum á árunum 1999--2000. Fjöldi og upphæð lána skal taka mið af framlagi ríkissjóðs á fjárlögum og áætluðum kostnaði vegna niðurgreiðslu vaxta.``

Þetta er alveg skýrt að fjöldi og upphæð lána ákvarðast af því hvað Alþingi kemur til með að verja í niðurgreiðslu vaxta á næstu tvennum fjárlögum. Það er náttúrlega alger fásinna að gefa sér að Alþingi komi ekki til með að leggja til að það verði niðurgreidd lán nema fyrir 25 leiguíbúðir á ári.

[16:30]

Ég vil einnig biðja hv. þm. að skoða skýringar á bls. 75 um ákvæði VIII til bráðabirgða. Þar segir svo, herra forseti:

,,Svo sem rakið er í athugasemdum við VIII. kafla hér að framan er gert ráð fyrir að viðræður fari fram á milli ríkis og sveitarfélaga um hver verði þáttur sveitarfélaga við fjármögnun lána til leiguíbúða og meðferð núverandi kaupleiguíbúða. Gert er ráð fyrir því að slíkar viðræður leiði til samkomulags. Á meðan niðurstaða í þessu efni liggur ekki fyrir er gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi í lánveitingum til sveitarfélaga vegna leiguíbúða, þ.e. með niðurgreiddum vöxtum og lánum til allt að 50 ára. Heimild sjóðsins í þessu efni er takmörkuð við árin 1999 og 2000, samkvæmt fjárlögum ríkissjóðs, enda gert ráð fyrir því að samkomulag ríkis og sveitarfélaga verði komið til framkvæmda eigi síðar en í lok þess tíma.``

Framtíðarskipulagi á þessum leiguíbúðarlánum er sem sagt ætlað að koma í gagnið í árslok árið 2000.

Hér hefur því verið haldið fram að kostnaður við að komast yfir íbúð í nýja kerfinu verði miklu meiri en í gamla kerfinu. Milli félmrh. og fjmrh. er samkomulag um að þessi kostnaður verði hliðstæður og sambærilegur. Einn þátturinn í því er sá að breyta grein í framlögðu frv., um stimpilgjöld, sem er til meðferðar í hv. efh.- og viðskn. Ég veit að fjmrn. mun koma með brtt. þar um. Ætlunin hefur aldrei verið að búa til þröskuld sem fólk kæmist ekki yfir og þar af leiðandi ekki inn í þetta nýja kerfi. Um það voru engar áætlanir.

Hv. 13. þm. Reykv. rifjaði upp að hún hefði gert samkomulag við fjmrh. einhvern tímann og taldi að það hefði verið brotið af hálfu hæstv. fjmrh. Ég veit ekki hvort hún las hverja grein samkomulagsins, ég hef ekki lesið þann pappír. Hitt veit ég að milljarður kom ekki í Byggingarsjóð verkamanna út ráðherratíma hv. 13. þm. Reykv. Ég man að hann var skertur um 400 milljónir til húsaleigubóta og það var enginn milljarður á fjárlögum til Byggingarsjóðs verkamanna þegar ég kom í félmrn.

Hv. 5. þm. Reykn. taldi að menn tækju lánin með sér þegar þeir skiptu um íbúð í félagslega kerfinu. Hún orðaði það svo að menn ,,tækju lánin með sér``. Það er misskilningur. Ég vil biðja hana að fletta upp á 33. gr. á bls. 8, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Eiganda íbúðar sem á hvílir viðbótarlán er heimilt að selja íbúð sína, enda greiði hann annaðhvort upp viðbótarlánið eða afli samþykkis Íbúðalánasjóðs um yfirtöku kaupanda á láninu. Að höfðu samráði við húsnæðisnefnd sveitarfélags skal Íbúðalánasjóður við þær aðstæður gæta þess að nýr kaupandi sem ætlað er að yfirtaka viðbótarlánið uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til þeirra sem ætluð eru slík lán.``

Þarna verður því ekki um veðflutning að ræða, sem reyndar hefur nú verið nokkuð til umræðu í þjóðfélaginu. Fasteignin stendur sem veð fyrir húsbréfinu. Viðbótarlánið verður að gera upp. Ef viðkomandi ætlar að skipta um íbúð eða fara úr kerfinu getur hann það með því að greiða viðbótarlánið eða gera samkomulag um að kaupandinn taki við því.

Það undarlegt hvernig þessi umræða hefur þróast. Í umræðunni um daginn, um frv. um húsnæðismál, var mottóið það að farið væri illa með einstaklingana. Nú heyrist mér mottóið vera það að illa sé farið með sveitarfélögin. Ég held að það halli hvorki á sveitarfélög né einstaklinga. Ég tel að báðir aðilar verði betur settir með nýju skipulagi en núverandi skipulagi.

Menn hafa tortryggt það að sveitarfélögin mundu standa við þær skyldur sínar að sjá fyrir leiguhúsnæði. Mér er kunnugt um stórfelldar áætlanir um fjölgun leiguíbúða hjá sveitarfélögum og frjálsum félagasamtökum, bæði í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum.

Hv. 5. þm. Vestf. hafði áhyggjur af því hvernig Íbúðalánasjóður ætti að bera sig. Það er sjálfsagt að fara yfir það í hv. efh.- og viðskn. en svo ég lýsi því í örfáum orðum: Íbúðalánasjóður verður mjög sterkur. Hann hefur eigið fé upp á 26 milljarða. Hann á kost á bestu lánakjörum. Lánasamsetning sjóðanna er þannig að mögulegt er að hagræða mjög með skuldbreytingum, fá lán á lægri vöxtum og borga upp lánin sem hafa verið á háu vöxtunum. Íbúðalánasjóði verður síðan veitt fé, eins og hér hefur margoft komið fram, úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum vegna niðurgreiðslu vaxta til leiguíbúða á árunum 1999 og 2000. Einnig ber að hafa í huga hve það léttir verulega á rekstrinum við að Húsnæðisstofnun verður lögð niður og Íbúðalánasjóður tekur við. Rekstrarkostnaðurinn af þessu kerfi minnkar verulega.

Eins og ég sagði áðan er sjálfsagt að ítarlega verði farið yfir þetta í nefndinni. Þeir útreikningar eða þær áætlanir sem ég hef séð um þetta mál benda til þess að Íbúðalánasjóður geti orðið sjálfbær.

Rétt er að það komi hér alveg skýrt fram, hv. 5. þm. Vestf., að ríkisstjórnin hefur ekki tekið neina ákvörðun um að afnema ríkisábyrgð á húsbréfum. Það verður ekki gert meðan ég er í félmrn. enda segir í frv.:

,,Með því að hækka vaxtaniðurgreiðslu úr innlausn íbúða og styrkja þannig fjárhagsstöðu sjóðsins ...`` --- Ég er ekki viss um að þetta sé allt saman rétt orðað, en í framhaldinu segir: --- ,,... verður í náinni framtíð hægt að afnema ríkisábyrgð á lántökum sjóðsins og bæta þjónustu hans með aukinni þátttöku bankakerfisins.``

Þetta eru vangaveltur þeirra í fjmrn. um að hægt sé að afnema ríkisábyrgðina. Niðurstaða nefndar sem ég fékk til þess að skoða þetta atriði með aðild fjmrn. var sú að ekki væri æskilegt að afnema ríkisábyrgðina fyrr en annað kæmi í staðinn. Það þyrfti jafnframt að tryggja að ekki yrði um aukin afföll að ræða og setti ekki kerfið í uppnám. Ég óttast að kerfið kæmist í uppnám ef ríkisábyrgð á húsbréfum væri afnumin núna. Hins vegar getur vel verið að við komumst út úr ríkisábyrgðinni í framtíðinni þegar Íbúðalánasjóður er tekinn við og búinn að ,,stabílisera`` sig en það er ekki hægt að gera nema því aðeins að hann sé jafntryggur og ríkissjóður.

Það er alls ekki ætlunin, hv. 5. þm. Vestf., að sverfa að landsbyggðinni með þessu nýja kerfi, síður en svo. Það kann að vera að þar sem offramboð er á húsnæði leiði það af sjálfu sér að fasteignaverð lækki. Þá lækka væntanlega lánin líka og skuldirnar hjá viðkomandi kaupendum. Húsbréf verða lánuð út fyrir 65 eða 70% af kaupverði og það verður miðað við það sem húsnæðið kostar á viðkomandi svæði.

Ég vil svo bæta því við þessa umræðu að þessa dagana eru nú í fyrsta skipti engin afföll af húsbréfum. Vextir fara hríðlækkandi. Ég tel það mjög jákvætt og við ættum ekki að gera neitt sem truflað gæti þá þróun.