Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 17:22:07 (4750)

1998-03-17 17:22:07# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[17:22]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt og það er þá bara sameiginlegur skilningur okkar sem er þar með niðurstaða af þessum orðaskiptum, að út af fyrir sig er þetta frv. ekki að leggja á byggingarsjóðina nýjar skuldbindingar vegna fortíðarinnar. Það er alveg ljóst. Þær skuldbindingar eru eins og þær hafa verið en það kostar náttúrlega peninga að standa undir þeim. Samkvæmt þessu frv. og áætlun fjárlaga- og hagsýsludeildar fjmrn. er gert ráð fyrir því að kostnaðurinn vegna þessa frv., m.a. vegna breytinganna á því, vegna þess að það er verið að flýta þessum greiðslum, sé þegar allt er komið saman um 1.200 millj. kr á ári. Frá því dragist síðan --- eða hvað? --- þær greiðslur sem hafa verið til Byggingarsjóðs verkamanna upp á u.þ.b. 270 milljónir. En eftir standa þá þær greiðslur sem eftir eru vegna vaxtamunar af gömlum lánum sem hafa verið eða eru á þessu ári, ef ég man rétt, eitthvað um 850 millj. kr. Ég sé því ekki betur en að staðan sé þannig að menn séu, ef þetta verður samþykkt, að ákveða að taka á ríkissjóð u.þ.b. tvo milljarða á ári á næstu árum, hvort sem það gerist með því að hækka vexti, ganga á eigið fé eða á annan hátt. Menn eru að taka þetta á ríkissjóð á komandi árum og því spyr ég: Til hvers er leikurinn gerður? Af hverju eru menn þá, úr því að menn ætla að kosta þessu til, að henda hinu félagslega kerfi? Er það þá þannig sem mig grunar, herra forseti, að menn séu fyrst og fremst að því vegna þess að verið er að koma til móts við vanda sveitarfélaganna? Og þá segi ég: Það er mál sem við eigum eftir að ræða. Það er mál sem við eigum eftir að reikna út vegna þess að ég held að þau séu ekki heldur skorin niður úr snörunni. Ég held það eigi t.d. við sveitarfélögin hér á þéttbýlissvæðinu að ekki sé verið að leysa vanda þeirra nema síður sé.