Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:31:31 (4764)

1998-03-17 18:31:31# 122. lþ. 89.3 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:31]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er viðurkennt af öllum sem til þekkja, innlendum aðilum sem erlendum, að eitt meginvandamál í rekstri íslenskra fyrirtækja hefur verið léleg eiginfjárstaða fyrirtækjanna, léleg uppbygging fjármunamyndunar fyrirtækjanna. Það hefur verið stórfellt vandamál hér. Ég tel að sú skattlagningarstefna sem við fylgjum núna gefi okkur færi á því og sé að gefa okkur færi á því að byggja upp innri stöðu og styrk fyrirtækjanna. Og það ræður úrslitum um það í framtíðinni hvort fyrirtækin standi af sér kreppur sem koma, hvort fyrirtækin geti haldið fólki í vinnu og greitt sæmilega há og góð laun. Það er samhengi í öllum þessum hlutum og menn verða að sjá þá í þessu samhengi.

Þetta frv. snýst að öðru leyti ekki um þessa prósentu. Frv. snýst um allt aðra hluti. Frv. snýst um að jafna hlutina í það far sem við þekkjum annars staðar frá og jafnframt að haga skattlagningu skynsamlegar og síðan laga menn prósentuna í lokin að þeirri niðurstöðu þannig að ríkissjóður komi nánast út á sléttu.