Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 19:24:21 (4773)

1998-03-17 19:24:21# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[19:24]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því hvernig hæstv. forsrh. hagar orðum sínum í sambandi við skattkerfið og það er nokkuð umhugsunarvert. Margt af því sem hann segir er alveg hægt að taka undir. Það er hins vegar umhugsunarvert hvort það er kannski rétt uppsetning mála að hæstv. forsrh. skipi sér fremstum í flokk þeirra manna sem gagnrýna skattkerfið jafnharkalega og hann hefur gert vegna þess að hann á líka að vera verndari þess að mínu mati.

Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs í andsvari var hins vegar það sem hann sagði um möguleikana á því að fella niður framtöl hjá tilteknum hópi skattgreiðenda, þ.e. þessi skriflegu framtöl sem fólk liggur yfir langtímum saman, ungir og aldnir, örfáar tölur sem þarf að færa inn á þá pappíra, fjöldi manns upptekinn af þessu í stórum stíl, skapar vinnu hjá endurskoðendum og fleirum og ég segi alveg eins og er að það er engin ástæða til að bíða stundinni lengur með að breyta þessu. Ég tek sem dæmi aldraða sem eingöngu eru með tekjur frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins. Því í ósköpunum er verið að leggja á fólk að fá alltaf þessi skattframtöl sem eru stöðugt umfangsmeiri eftir því sem tímar líða hvað sem öllu einföldunartalinu líður? Þess vegna skora ég á hæstv. forsrh. og fjmrh. og hv. þingnefnd og þá sem hér eru úr henni að breyta þessu frv. þannig að þetta verði gert og það verði sagt sem svo: Þeir sem eru með tekjur sínar frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins eða öðrum slíkum opinberum aðilum þurfa ekki að taka þátt í þessum skattframtalaæfingum á þann hátt sem verið hefur. Þetta er fornöld, vitleysa og öllum til leiðinda.