1998-03-18 00:02:11# 122. lþ. 89.95 fundur 261#B afgreiðsla stjórnarfrumvarpa# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[24:02]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér telst til að á síðustu mínútum hafi verið vísað til nefnda einum 13 stjórnarfrv. og nú eigi að fara að vísa því 14. til nefndar. Stjórnarliðið er ekki betur mætt hér en það að það er stjórnarandstöðunni að þakka að málin komast til nefndar. Annars hefðu þau ekki komist til nefndar nema vegna þess að stjórnarandstæðingar eru mættir. (ÖS: Hvað margir?) Það segir út af fyrir sig sína sögu um hvaða virðingu stjórnarliðið ber fyrir stjórnarandstöðunni. Og hún má svo sem mín vegna, stjórnarþyrpingin, bera litla virðingu fyrir stjórnarandstöðunni en það er umhugsunarvert fyrir okkur sem erum hér í verkum hversdags frá morgni til kvölds.

Það er líka umhugsunarvert, herra forseti, í tengslum við þetta mál að talað hefur verið um að ljúka þinginu seint í apríl. Og ég spyr: Er það rétt að ríkisstjórnin ætlist til þess að öll þau 14 mál sem talað hefur verið fyrir í dag verði að lögum í vor? Ef það er rétt lýkur þinginu ekki í lok apríl. Það hlýtur að taka miklu lengri tíma.

Þetta gamaldags tillitsleysi við Alþingi sem kemur fram, í dag og í kvöld, er með þeim hætti að ég hélt að þetta væri liðin tíð. Ég hélt að ríkisstjórnir reyndu ekki lengur að sýna Alþingi mér liggur við að segja dónaskap af því tagi sem sýndur hefur verið í dag. Ég hlýt að óska eftir því við hæstv. forseta að tafarlaust, strax á morgun, kveði forsn. Alþingis og forseti Alþingis upp úr með það hvort ætlunin er að standa við starfsáætlun Alþingis og þá hvenær. Því að þessi framkoma við þingið, stjórn og stjórnarandstöðu, þingmenn hér sem hafa verið að vinna vinnuna sína, er fyrir neðan allar hellur.

Það getur vel verið að ýmsir þingmenn telji það eðlilegt að haga sér á þennan hátt gagnvart þinginu og gera það þannig í raun og veru að leikbrúðu framkvæmdarvaldsins. Ég tel það ekki eðlileg vinnubrögð.