1998-03-18 00:05:01# 122. lþ. 89.95 fundur 261#B afgreiðsla stjórnarfrumvarpa# (um fundarstjórn), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[24:05]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta er alveg einstaklega ósanngjarn málflutningur af hálfu hv. þm. Guðna Ágústssonar því að hann ber okkur stjórnarandstæðingum á brýn að við höfum ekki verið að sinna okkar störfum. Við höfum tekið þátt í málefnalegri umræðu um ein 13 stjfrv., eins og bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. geta borið vitni um. Farið var efnislega í öll þessi frumvörp, sum voru mikið rædd, önnur lítið. Og það hefur ekkert staðið á okkur stjórnarandstæðingum að sinna skyldum okkar í þingstörfum. Síðasta hálftímann koma hins vegar, væntanlega vegna úthringingar, stjórnarsinnar í hús til að greiða atkvæði og það er góður réttur meiri hlutans að viðhafa þau vinnubrögð en þau eru ekki til fyrirmyndar.

Í umræðunni fyrr í dag tóku einungis þátt hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. og einn eða tveir aðrir stjórnarliðar sem stóðu sig ágætlega í þeirri umræðu. En að tala hér eins og hv. þm. Guðni Ágústsson gerði áðan að bera stjórnarandstæðingum á brýn slæm vinnubrögð þegar svo til enginn af stjórnarliðunum, sem hér eru mættir, hafa verið í dag og í kvöld í þeirri umræðu sem átti sér stað. Við skulum gæta hófs í málflutningi og sýna hver öðrum þá virðingu. Ég tek fyllilega undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar að hér er illa að verki staði með öll þau mörgu stjórnarfrv. sem verið er að knýja á um afgreiðslu. Hv. stjórnarliðar þekkja alveg þessa stöðu, þeir hafa verið oft í stjórnarandstöðu. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar. Við í stjórnarandstöðunni höfum gætt þess nokkuð lengi að viðhafa eðlilega umræðu í svo til hverju einasta máli, eðlilega og málefnalega umræðu. En það kemur örugglega að því að okkur verði nóg boðið með þá framkomu sem stjórnarliðar sýna okkur.