Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:35:03 (4873)

1998-03-18 15:35:03# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns tek ég það fram að ég er sammála því sem kom fram hjá hv. málshefjanda um að auðvitað er slæmt ef mál dragast úr hömlu og framkvæmdir tefjast af óeðlilegum ástæðum. Mér fannst í ræðu hv. þm. ákveðinn tónn þar sem hann gaf í skyn að allar tafirnar væru vegna þess hvernig stjórnsýslan hefur staðið að málunum. Ég held að hann hafi orðað það svo að stjórnsýsluaðfarirnar væru með hreinum ólíkindum.

Ég tel að tafirnar stafi fyrst og fremst af ágreiningi um málið heima fyrir. Það hefur auðvitað valdið mestu um þetta þó auðvitað hafi málsmeðferð dregist vegna þess að ítrekað hefur málið komið til kasta umhverfis- og skipulagsyfirvalda. En það hefur ekki tafist af þeirri ástæðu. Tafirnar verða af því að það er ágreiningur um málið.

Ég tel að málið hafi notið málsmeðferðar samkvæmt lögum sem umhverfisyfirvöldum hefur borið að fara eftir. Varðandi málsmeðferðina, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, vil ég fyrst segja að við fáum tillögu til skoðunar. Hún er eins og hv. þm. benti á tillaga Vegagerðarinnar. Vegagerðin leggur til að fara þá leið sem kölluð hefur verið leið 1, tillaga 1 eða neðri leið. Umhverfisyfirvöld féllust á að sú leið væri ásættanleg. Um það er ágreiningur heima fyrir og þess vegna heldur málið áfram.

Þá er lögð fram ný tillaga sem kölluð hefur verið sáttatillaga um það að fara aðra leið að málinu. Sú fer, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, einnig fyrir skipulagsyfirvöld, umhverfisyfirvöld, umhvrn. og umhvrh. Við föllumst einnig á að sú leið sé ásættanleg. Málið hefur því ekki verið stöðvað eða komið í veg fyrir það af okkar hálfu. Tafirnar eru vegna áframhaldandi ágreinings heima í héraði.

Síðan kemur til umhvrh. beiðni um að staðfesta svæðisskipulag. Ég fer eftir því sem Skipulagsstofnunin leggur til og bað jafnframt um greinargott svar frá Skipulagsstofnun um það hvernig hún teldi að afgreiða ætti málið. Vegna þessa mikla ágreinings sem verið hafði um málið heima fyrir taldi ég nauðsynlegt að skýrt kæmi fram með hvaða lögformlega hætti bæri að taka á því.

Hv. málshefjandi talaði réttilega um að ég hefði afgreitt málið samkvæmt ráði Skipulagsstofnunarinnar. Hann hafði hins vegar athugasemdir við þá ráðgjöf. Það sem ég hef fyrir framan mig í því er að Skipulagsstofnun leggur til að skipulagið verði staðfest samkvæmt nýjum lögum og farið að þeim vilja samvinnunefndarinnar að fresta skipulagi veglínunnar. Ég minni á að það er verið að fjalla um svæðisskipulag. Hér er ekki um aðalskipulag fyrir þennan hrepp að ræða, heldur svæðisskipulag. Að svæðisskipulaginu stóðu eins og hv. málshefjanda er mjög vel kunnugt fimm sveitarstjórnir. Skipulagsstjóri segir mér að aðkoma hans að því máli og ráðgjöf við sveitarfélagið hafi fyrst og fremst verið sú að hann hefði ítrekað það við formann samvinnunefndarinnar að nauðsynlegt væri að samvinnunefndin legði mikla áherslu á að komast að niðurstöðu um lagningu leiðarinnar. Síðan féllust allir samvinnunefndarmennirnir á að fresta svæðisskipulaginu út af ágreiningi um þetta svæði, þ.e. þær veglínur sem ekki hefur náðst samkomulag um, þar á meðal fulltrúar Reykholtsdalshrepps.

Skipulagsstjóri tjáði mér að hann hefði ekki ráðlagt hreppsnefndinni annað en taka þátt í skipulagsvinnunni en sömuleiðis bent á að eðlilegt og nauðsynlegt væri --- hann hefur gert það fyrir um það bil ári síðan --- að láta vinnu við aðalskipulag fara fram. Þannig lægi fyrir aðalskipulag fyrir þennan hrepp þegar farið yrði í svæðisskipulagsvinnuna eða samhliða þeirri vinnu.

Ég ítreka og tel að það sé grundvallaratriðið í þessu að við erum þarna að samþykkja og fara að tillögum sem svæðisskipulagsnefnd hefur komist að niðurstöðu um. Í bréfi mínu hef ég síðan bent á að ákveðnar leiðir séu færar. Það gerir reyndar Skipulagsstofnun einnig þegar hún beinir málinu til mín. T.d. væri eðlilegt að Reykholtsdalshreppur láti vinna aðalskipulagið fyrir sveitarfélagið en geti óskað eftir því, með meðmælum Skipulagsstofnunar, að veita heimild til framkvæmda án þess að fyrir liggi aðal- eða deiliskipulag, samkvæmt 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þá lægi og fyrir ósk Vegagerðarinnar um heimild til slíkra framkvæmda. Þá leið er enn hægt að fara. Eðlilegast hefði verið að fjalla þarna um aðalskipulag fyrir hreppinn en mín niðurstaða varð þó að byggjast á því að við værum að afgreiða svæðisskipulagið. Ég tel að það hafi verið gert á eðlilegan og formlegan hátt.