Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:53:15 (4879)

1998-03-18 15:53:15# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:53]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Svo að ummæli mín misskiljist ekki út af ummælum hv. 4. þm. Austurl. tek ég fram að Vegagerðin vill vinna mjög vel með skipulagsstjóra og mönnum hans. Vandamálið er hversu skammt skipulagið er á veg komið. Auðvitað hefði ekki komið til þeirra árekstra sem ég er að tala um ef skipulagsvinnan hefði gengið betur fyrir sig. Það er kjarni málsins. Við viljum auðvitað vinna vel að því að vernda t.d. fornmenjar og gamlar tóftir. Þess vegna hefur verið ákveðið að Vegagerðin leggi fram fé til þess að skrá fornmenjar á heiðum og þar sem líkleg vegarstæði eru og við munum með öðrum hætti hraða því að leiðir geti farið í umhverfismat þannig að til dráttar á framkvæmdum eins og nú hefur orðið þurfi ekki að koma öðru sinni. Viðbrögð okkar eru auðvitað þau að reyna að koma í veg fyrir árekstra af þessu tagi og reyna að ná saman við skipulagsstjóra um vinnubrögð sem báðum hentar, skipulagsstjóra og Vegagerðinni, til að hægt sé að ráðast í framkvæmdir og annað þegar fé er fyrir hendi og þörf krefur.