Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:56:00 (4881)

1998-03-18 15:56:00# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:56]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég hef hlustað með athygli á bæði athugasemdir og þau svör sem komu fram við spurningum mínum. Ég vil minna á grein sem aðstoðarmaður hæstv. ráðherra skrifaði undir fyrirsögninni ,,Að henga bakara fyrir smið`` í Morgunblaðinu 26. júní 1997. Þar er sagt að málið sé ekki í höndum umhvrh. heldur samgrh. Síðan ritaði hæstv. ráðherra Guðmundur Bjarnason grein þar sem hann sagði að málið væri í höndum Vegagerðar og samgrh. 28. des. 1997 er undir fyrirsögninni ,,Ráðherra staðfestir mat á efri leið`` þá er sagt: ,,Niðurstaða ráðuneytisins er sú að fyrirhuguð lagning brautarinnar samkvæmt tillögu 3 a sé viðunandi frá öllum umhverfissjónarmiðum sem beri að taka tillit til og hugmyndin hefur ekki neikvæð áhrif á umhverfi, á náttúruauðlindir og samfélag.``

Hvað er þá að? Það segir enn þá í sömu grein hæstv. ráðherra: ,,Þannig er ég ekki að gera upp á milli leiða enda annarra að velja en umhvrn.`` Og í framhaldi af því: ,,Það er ákvörðun framkvæmdaaðila og skipulagsyfirvalda á svæðinu að gera það.`` Málið er enn þá í sömu stöðu með þeim úrskurðum sem það fékk.

Ég minni á að yfirvald skipulagsmála á svæðinu er hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps. Ekki oddvitar nágrannasveitarfélaga. Samvinnunefnd sem saman stendur af fulltrúum úr fjórum hreppum í nágrenninu fjallar um ráðgjöf en ekki um framkvæmdir. Á þeirri forsendu að úrskurður hæstv. ráðherra er byggður á röngum forsendum fer ég enn fram á að hann verði dreginn til baka og ákvörðun skipulagsstjórnar frá 30. desember verði staðfest og vegagerð verði hafin með brúargerð á Flóku. Annars verði fjármunirnir fluttir í aðrar nauðsynlegar framkvæmdir í kjördæminu.

Ég álít að ef þetta verður svona eins og staðan er þá getum við ekki afgreitt vegáætlun í ár. Herra forseti. Ég bið hæstv. ráðherra, sem er í salnum, að finna nú þegar lausn á málinu.