Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:46:44 (4890)

1998-03-19 10:46:44# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:46]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eitthvað var þetta kunnugleg ræða sem hér var flutt. Höfum við kannski heyrt hana einhvern tíma áður? Það er ræðan sem er svona: Þetta hefur nú oft verið svona áður. Og það er ræðan sem er svona: Hv. þm. hefur nú einhvern tíma staðið að því óska eftir því að málum væri flýtt í þinginu, og gefið í skyn að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir t.d. hafi gert það þegar hún var ráðherra.

Ég skora á hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að setja sig inn í það að störf þingsins hafa breyst í grundvallaratriðum. Þau hafa breyst. Það er geysileg breyting sem hefur orðið á störfum þingsins á þessu kjörtímabili. Meðal annars fyrir þátttöku stjórnarandstöðunnar og líka fyrir forustu núv. hæstv. forseta Alþingis. Það er gjörbreyting á störfum þingsins. Núna er unnið eftir starfsáætlunum. Á síðasta þingi tókst að halda starfsáætlun og ljúka þinginu á þeim degi sem stefnt hafði verið að og menn gátu skipulagt vinnu sína að öðru leyti í samfélaginu í samræmi við niðurstöður af skipulagi í þinginu.

Nú er þetta að breytast og við óttumst það að verið sé að setja þessa hluti úr skorðum. Ég vil segja það alveg skýrt, burt séð frá vilja stjórnar eða stjórnarandstöðu, að það er algjörlega á hreinu að taka verður út af dagskrá þingsins í vor nokkur þeirra stóru mála sem liggja fyrir ef ljúka á þinginu 22. apríl. Ég hef skilið það þannig að ríkisstjórnin hafi samþykkt að stefna að því að ljúka þinginu 22. apríl. Hafi hún komist að einhverri annarri niðurstöðu þá er það nýtt fyrir mér.

En ef ljúka á þinginu á þeim tíma verður að taka út nokkur stór mál, þannig liggur það. Ef hins vegar á að ljúka öllu þessu dóti eins og venjulega, þá verðum við bara hérna fram í júní. En það væri þá gott fyrir alþingismenn að fá að vita það og það er ekki ríkisstjórnarinnar að skipa okkur fyrir verkum í þeim efnum. Hún hefur enga stöðu til þess lengur. Ég vona að þingræðið sé það sterkt að þingið láti ríkisstjórnina ekki skipa sér fyrir, eins og mér fannst hæstv. utanrrh. vera að reyna að gera áðan í fornum stíl, ævagömlum stíl, sem er löngu úreltur í þessari stofnun sem betur fer.