Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:23:47 (4898)

1998-03-19 11:23:47# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. sem ég vildi gera að umræðuefni. Það er hin stóra spurning um það hvort hér sé verið að draga úr spennu eða auka spennu í Evrópu. Ég fullyrði að það er verið að draga mjög mikið úr spennu. Það er rétt hjá hv. þm. Fólk var að fagna frelsinu þegar það hljóp í gegnum Brandenborgarhliðið á sínum tíma. Fólkið í Austur-Evrópu gekk jafnframt í Atlantshafsbandalagið. Það sameinaðist Atlantshafsbandalaginu jafnframt því að sameinast Þýskalandi. Það fagnaði því líka. Eigum við þá að neita öðrum ríkjum í Evrópu um aðgang að Atlantshafsbandalaginu ef þau uppfylla ákveðin skilyrði? Mikill meiri hluti fólksins telur það eitt aðalatriðið í sambandi við efnahagslegar framfarir og lýðræðislega þróun að vera í samtökum þessara ríkja, bæði Atlantshafsbandalaginu og einnig Evrópusambandinu?

Það er líka ljóst að ýmis minnihlutavandamál í Evrópu hafa verið leyst, ekki síst vegna þess að ríkin ætla sér að ganga inn í Atlantshafsbandalagið. Ég minni á Ungverjaland í því sambandi. Ég minni á Rúmeníu. Einnig væri hægt að nefna dæmi í Eystrasaltsríkjunum. Víða um Evrópu hefur dregið úr spennu vegna þess ferlis sem farið er í gang. Þar með eru lýðræðisöflin að styrkjast í Evrópu. Ef við værum andsnúnir stækkun Atlantshafsbandalagsins, þá værum við að veikja lýðræðisöflin í Evrópu og neita því fólki sem vill taka þátt í lýðræðisþróuninni að vera með okkur í þeirri baráttu.