Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:27:43 (4900)

1998-03-19 11:27:43# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Spurningin er ekki aðeins um það sem mér finnst heldur líka hvað því fólki finnst sem er nú að ganga inn í Atlantshafsbandalagið. Hlutföllin voru þannig að yfir 80% íbúa þessara ríkja sagði já og það hlýtur að skipta meginmáli hvað þetta fólk vill. Því er oft slegið fram að þetta muni auka vígbúnaðarkapphlaupið og verða til þess að meira verði fjárfest í vopnum. Ég fullyrði að það er öfugt.

Það er alveg ljóst að ef þessar þjóðir hefðu komið að lokuðum dyrum hjá Atlantshafsbandalaginu, þá hefðu þær gripið til allt annarra úrræða í sambandi við sín mál. Að sjálfsögðu hefðu þær keypt nútímavopn og endurskipulagt varnir sínar með allt öðrum hætti. Það að þær fá nú aðild að Atlantshafsbandalaginu verður til þess að þær geta ráðist í þessar endurbætur með mun minni kostnaði en annars hefði orðið. Jafnframt er nauðsynlegt að taka það fram að margt annað er í gangi. Milli Rússlands og Atlantshafsbandalagsins er náið samstarf, einmitt til þess að koma í veg fyrir það að vígbúnaðarkapphlaupið hefjist á nýjan leik. Ég ætla að þannig sé hægt að koma í veg fyrir það að slíkt gerist. Í reynd er samvinna eina leiðin til að koma í veg fyrir vígbúnaðarkapphlaup.

Það er nauðsynlegt að minna á hið góða samstarf sem er meðal allra þessara þjóða í Bosníu sem hefur sýnt fram á að þjóðir í Evrópu geta í sameiningu unnið að friði.