Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:51:42 (4906)

1998-03-19 11:51:42# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:51]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem kemur fram hjá hv. þm. er afar athyglisvert. Það er þessi samþætta stefna inn í Evrópusambandið og að styrkja þá sókn með því að taka upp umræðu um að Ísland verði fullgildur aðili að Vestur-Evrópusambandinu, væntanlegum hernaðararmi Evrópsambandsins. Ég tel að þetta sé fráleit stefna. Við áttum náttúrlega aldrei neitt erindi inn í þetta Vestur-Evrópusamband sem slíkt en það hefur verið að taka miklum breytingum og það færðist í áttina að því sem hv. þm. tók einnig undir í Amsterdam á ríkjaráðstefnunni þar.

Hv. þm. lofaði og prísaði gjaldmiðilsupptöku flestra Evrópusambandsríkjanna á sameiginlegum gjaldmiðli og taldi að það væri trygging fyrir friði. Ég vara við því sjónarmiði. Ég held að allt önnur þróun geti þar gerst eftir að reynt verður að setja þessi ríki inn í fjötra evrunnar, sameiginlegrar myntar, að þá geti reynt á hina félagslegu spennu í kjölfarið eftir að búið er að afvopna einstök ríki að hafa uppi nokkra sjálfstæða stefnu í efnahagsmálum.