Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:53:54 (4908)

1998-03-19 11:53:54# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:53]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir hlý orð í minn garð og þeirrar ræðu sem ég flutti áðan þó að hann hefði ýmislegt við hana að athuga, og í máli hans komu fram mörg atriði sem er enginn kostur á að svara í andsvari. Ég vil bara segja alveg eins og er að mér fannst að rökstuðningur hans væri ógildur vegna þess að hann byggðist á því að hann hefði trú á því að þetta og hitt ætti að vera á þennan veginn og hinn. Ég hef satt að segja ekki í hendi nein áþreifanleg rök sem stuðningsmenn tillögunnar flytja fram með þeim hætti að ástæða sé til að mótmæla alveg sérstaklega. Þó ætla ég að nefna eitt.

Það er stórmál að sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé virtur og alheimssamtök geri það. En það þýðir ekki að alheimssamtök verði sjálfkrafa afgreiðslumaskínur á pöntunum sem koma frá sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Um hvað er tillagan? Hún er ekki bara um það að taka inn þrjú ríki í NATO. Hún er um að hafna þremur ríkjum.