Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:57:57 (4912)

1998-03-19 11:57:57# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er engin deila um það að sjálfsákvörðunarréttur þjóða er mjög helgur réttur og situr síst á okkur Íslendingum annað en að viðurkenna það. Hins vegar er alveg ljóst af því hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson útlistar það hugtak hér, að hann hefur misskilið hugtakið, eða a.m.k. eru þar á ferðinni einhver hugtakabrengl hjá hv. þm. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða, t.d. hvað varðar rétt þeirra til að ákveða sjálfstæði sitt eða ákvarðanir um innri mál, eigin mál, er ekki hægt að leggja að jöfnu við rétt þeirra til að skipa öryggismálum sínum út á við og gagnvart öðrum ríkjum. Það er einfaldlega ekki hægt. Þá er komið að samskiptum ríkja og þá eru slíkar ákvarðanir komnar í heildarsamhengi.

Hversu langt telur hv. þm. að slíkur ákvörðunarréttur eigi að ná? Ef Írak vill ganga í NATO er það þá sjálfs\-ákvörðunarréttur Íraka að gera það? Ef Líbía ætlar að ganga í Norðurlandaráð er það þá sjálfsákvörðunarréttur Líbíu að ganga í Norðurlandaráð? Nei, auðvitað er þetta ekki svona. Ég held að hv. þm. verði aðeins að gæta að sér og fara ekki með hugtök með þeim hætti sem hann gerði hérna áðan.