Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 11:59:13 (4913)

1998-03-19 11:59:13# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[11:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé þess eðlis að menn eigi ekki að vera að flækja sig í einhverjar stríðar skilgreiningar á hugtökum. Málið liggur svona fyrir: Í þeim þremur Eystrasaltslöndum sem hér hafa verið til umræðu eru á milli 95 og 100% þjóðarinnar sem vill ganga í NATO. Ég tel að það eigi að lúta vilja þessara þjóða. Ég tel reyndar líka, þó ég geti ekki rökstutt það í örstuttu máli, að það sé þegar til framtíðar horfir mjög farsælt fyrir öryggi í Evrópu. Mig minnir að hæstv. utanrrh. hafi sagt að í ýmsum þeim löndum sem við erum að ræða sé u.þ.b. 80% eða jafnvel meira sem vilji ganga í Atlantshafsbandalagið. Hvers vegna í ósköpunum skyldum við ekki verða við vilja þessa fólks? Erum við ekki lýðræðissinnar? (SvG: Hvaða lýðræði?)