Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 12:01:23 (4915)

1998-03-19 12:01:23# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[12:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og það hafi farið fram hjá hv. þm. að árið 1989 hrundi Berlínarmúrinn. Um leið hrundi það alræðisskipulag sem kommúnisminn í Austur-Evrópu hafði byggt upp. Um leið öðluðust þessar þjóðir frelsi og það hefur komið í ljós að allar þessar þjóðir, 12 talsins, vilja ganga í Atlantshafsbandalagið, hver og ein einasta. Meira að segja Úkraína, sem hefur ekki verið frjálst og fullvalda ríki nema tvö ár síðan 1654, hefur lýst því yfir að innan 10 ára vilji ríkið sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Eigum við þá uppi á Íslandi að fara að flækja okkur í einhverjar þröngar skilgreiningar sem hv. þm. finnast hníga að því að það sé út í hött að taka undir þessar óskir? Að sjálfsögðu ekki. Annaðhvort erum við lýðræðissinnar eða ekki. Ef við erum lýðræðissinnar tökum við að sjálfsögðu undir óskir allra þessara ríkja og hleypum þeim í Atlantshafsbandalagið. (SJS: Það er verst að þingmaðurinn er orðinn of gamall til að ganga í Heimdall.)