Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 12:10:53 (4917)

1998-03-19 12:10:53# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[12:10]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Lengi hefur verið deilt um aðild okkar að NATO en þær raddir hafa nú að mestu leyti þagnað. NATO hefur breyst í áranna rás. Hlutverk og tilgangur Atlantshafsbandalagsins hefur verið í róttækri endurskoðun frá því járntjaldið féll fyrir hálfu áttunda ári. Breytt hlutverk NATO lýsir sér best í starfi SFOR- og IFOR-friðargæslusveitanna í Bosníu-Hersegóvínu þar sem NATO er að framkvæma ákveðið verkefni fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við Rússa og fleiri þjóðir sem standa utan bandalagsins. Við Íslendingar höfum tekið þátt í þessu breytta hlutverki NATO. Við tökum þátt í friðargæslunni í Bosníu, bæði með hjúkrunarfólki, lögreglumönnum og fleirum. Innan NATO hefur verið stofnað til Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins og Friðarsamstarfsins svokallaða, þ.e. Partnership for Peace, en Friðarsamstarfið var einmitt með æfingu á Íslandi fyrir skömmu og fjölmargar Evrópuþjóðir tóku þátt í þeirri æfingu. Ef við lítum til Bosníu og þeirra hörmunga sem hafa átt sér stað þar er alveg ljóst að Evrópa sjálf gat ekki tekið á þeim málum þótt þessar hörmungar ættu sér stað í hjarta Evrópu. NATO þurfti að koma til og það sýnir hvað ,,Transatlantic Link``, eða hlekkur milli Evrópu og Bandaríkjanna, er mikilvægur en við Íslendingar höfum einmitt alltaf lagt ofurkapp á að þessi hlekkur yrði ekki veiktur. Sum Evrópuríki hafa verið talsmenn þess að leggja ofurkapp á að Vestur-Evrópusambandið, VES, yrði fellt undir Evrópusambandið og yrði varnarstoð Evrópusambandsins. Við Íslendingar höfum ekki verið talsmenn þess eins og hefur komið fram í morgun. Við viljum halda sjálfstæði VES áfram og það er ekki í okkar þágu að VES verði varnarstoð Evrópusambandsins heldur áfram svokölluð Evrópustoð NATO. Þegar litið er til baka má sjá ótrúlegar breytingar sem átt hafa sér stað í öryggisskipulagi Evrópu á allra síðustu árum. Það sem stendur upp úr í þessu sambandi er fall kommúnismans og þar af leiðandi upplausn Varsjárbandalagsins og svo sameining Þýskalands sem var lýst með mikilli stemmningu í morgun. Við þessar breytingar hafa ríki sem fyrr voru á áhrifasvæði Sovétríkjanna reynt að nýta sér öll tækifæri til að bindast vestrænum ríkjum sterkari böndum. Þau hafa talið öryggismálum sínum best fyrir komið með því að sækjast eftir aðild í NATO. Þar er fyrst og fremst verið að sækjast eftir þeirri vernd sem 5. gr. stofnsáttmála bandalagsins veitir en hún gengur út á að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll og þannig njóti hvert einasta ríki í bandalaginu fælingarmáttar kjarnorkuvopnabúrs Bandaríkjanna. Eitt aðaláherslumálið gagnvart stækkun NATO hefur verið það að með stækkuninni mundi stöðugleiki og öryggi Evrópu aukast sem og að stækkunin kæmi til með að styrkja enn frekar þá lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í þessum ríkjum, þar á meðal í Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi sem við ræðum nú um.

Fyrr í morgun kom hv. þm. Svavar Gestsson inn á það að stækkun NATO gæti hægt á lýðræðisþróuninni en mér er gjörsamlega ómögulegt að skilja hvernig hægt er að telja að svo sé. Breytingarnar eru ótrúlegar í fyrrum Sovétríkjunum og Mið-Evrópu. Fyrir stuttu gafst okkur hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur einmitt tækifæri til að fara í fræðsluferð með miðjumönnum í Norðurlandaráði til Sankti Pétursborgar til að kynna okkur lýðræðisþróunina þar. Mig langar í stuttu máli að lýsa aðeins þeirri heimsókn. Ég held að það væri fróðlegt fyrir þingheim að heyra frá henni.

[12:15]

Í viðtölum okkar við fulltrúa flokka í Sankti Pétursborg kom fram að þeir vilja alls ekki kalla sig flokka. Þeir vilja kalla sig hreyfingar. Það er vegna þess að þeir vilja ekki minna á kommúnistaflokkinn og þann tíma. Einnig var athyglisvert að þeir vilja ekki að margir séu skráðir í hreyfinguna, það sé ekki mikið atriði. Meira atriði sé að þeir sem skráðir eru séu virkir. Þetta hljómaði svolítið annkannalega. Því er ekki eins háttað hér.

Það er einkennandi bæði fyrir lýðræðisþróunina í Rússlandi og í miðausturríkjunum að stjórnmálaflokkarnir eru gífurlega margir. Í Sankti Pétursborg eru stjórnmálaflokkarnir 43 en einungis 6 þessara flokka náðu 5% lágmarkinu í síðustu kosningum. Því lágmarki þarf að ná til að koma mönnum inn á staðarþingið. Við heyrðum einnig, þegar við hittum tékknesku þingmennina sem komu hér í heimsókn í fyrradag, að í Tékklandi eru 16 flokkar. Þar náðu einungis sex 5% lágmarkinu. Það er því mjög einkennandi að flokkarnir eru gífurlega margir. Þeir eru myndaðir í kringum einstaklinga, í kringum ákveðna karlmenn en minna í kringum hugmyndafræði. Eins virðast konur þarna eiga frekar erfitt uppdráttar í stjórnmálum.

Sumir þeirra flokka sem við ræddum við höfðu allan vara á sér gagnvart NATO og stækkun þess. Að mínu viti er innibyggð togstreita gagnvart Bandaríkjunum sem veldur því að þeir hafa allan vara á sér. Hins vegar kom fram mikill vilji flokkanna til þess að ná tengslum við Vestur-Evrópu, þ.e. við NATO-löndin. Þeir lögðu sérstaka áherslu á það að ná tengslum við Norðurlandaráð og þeir líta til okkar hér á Norðurlöndunum með ákveðna fyrirmynd í huga.

Breytingarnar eru sem sagt ótrúlegar. Austantjaldsríkin eru að fikra sig frá alræði kommúnismans yfir í fjölflokkakerfi. Þeir vilja tengjast öðrum löndum með opnum huga og afar mörg þeirra vilja í NATO eins og hér hefur komið fram.

Varðandi þær umræður sem hér hafa spunnist um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, þá lít ég ekki svo á, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á áðan, að ef eitthvert ríki vilji komast inn í NATO þá sé beinn og breiður vegur þar inn. Það er alls ekki þannig. Ég vil frekar taka undir sjónarmið hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem lýsti öryggismálunum í miklu víðara samhengi. Það er alveg ljóst að fleiri ríki vildu ganga í bandalagið. Frakkar, Ítalir og fleiri þjóðir vildu hleypa Rúmenum og Slóvenum inn. Þar var sjálfsákvörðunarréttur ríkja ekki virtur, má segja. Málin eru miklu flóknari en það. Pólland, Ungverjaland og Tékkland fengu inngöngu en aðrir þurfa að bíða.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á að við hefðum fengið heimsókn frá tékkneska þinginu í fyrradag. Þeir eru einmitt eitt þeirra ríkja sem sækja nú um aðild. Og þeir ræddu við okkur í utanrmn. um þessa stækkun og væntingarnar sem þeir hafa. Þeir sögðu að fyrir fimm árum hefðu menn fyrst farið að ræða þar opinberlega um aðild Tékklands að NATO og þá hefði engan grunað að þeir yrðu komnir þar inn árið 1999. Þeir sögðu að þróunin gengi ótrúlega hratt fyrir sig. Þeir bjuggust jafnframt við því að komast í Evrópusambandið árið 2002 eða 2003 og jafnvel fyrr. Ef þeir ganga þar inn þá verða þeir líka hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, okkar svæði, þannig að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að tengjast þeim jákvæðum böndum á allan hátt.

Aðspurðir um afstöðu þeirra til frekari stækkunar eftir að þeir sjálfir væru komnir inn í NATO, töldu þeir mjög mikilvægt að Rúmenía, Slóvenía, Eystrasaltsríkin og Slóvakía, sem þeir eru í miklum tengslum við, gengju einnig í bandalagið strax og efnahagslegur og stjórnmálalegur stöðugleiki kæmist á í þessum ríkjum.

Varðandi kostnað af stækkun NATO, sem hér hefur einnig verið komið inn á, þá töldu Tékkarnir, og ég vil staðfesta það sem kom fram hér fyrr í morgun, að það yrði ekki mikið vandamál. Þeir hefðu þurft að fjárfesta í nýjum tæknibúnaði hvort sem er og nýr kostnaður væri ekki umtalsverður. Fram kom að þeir eru að þjálfa sína hermenn vegna þessara breytinga og leggja m.a. áherslu á tungumálakennslu.

Varðandi kostnað þá hef ég verið að skoða dönsk plögg en Danir reikna með að þurfa að borga um 3,9% af svokölluðu NATO Security Investment Program, þ.e. áætlun um kostnað við að taka hin nýju ríki inn og reiknað er með því að Danmörk þurfi að borga 3,9% í mesta lagi af þessu prógrammi en það gerir um 60 millj. Bandaríkjadollara á tíu árum. Til samanburðar mætti nefna að árlegur kostnaður Dana vegna varnarmála er upp á eitthvað um 2,3 milljarða Bandaríkjadollara. Sá kostnaður sem nú á að fella á Danina er ekki umtalsverður þegar grannt er skoðað.

Nýlega greindi varnarmálaráðherra Danmerkur frá því að þeir væru í samstarfi við Pólverja og Þjóðverja um að setja upp sameiginlegan herflokk sem þeir kalla ,,fælles hærkorps`` á dönsku eða Multinational Corps North East. Þetta eru þeir að gera í sambandi við inngöngu Póllands í NATO. Þessi herflokkur mun verða í tengslum við NATO en ekki hluti af skipunarferli NATO eða Common Structure í NATO. Aðalstöðvar þessa herflokks eiga að vera í Póllandi en þar munu bæði Pólverjar, Þjóðverjar og Danir vinna. Talið er að í þessum höfuðstöðvum verði um 450 starfsmenn og þar af 45 Danir. Hér sjáum við því ýmsar breytingar í tengslum við stækkun NATO.

Öryggismál voru rædd sérstaklega á ráðstefnu Norðurlandaráðs fyrir stuttu síðan en menn ræddu nýlega um öryggismál þar. Þar komu að sjálfsögðu fram mjög mismunandi viðhorf og dregið var fram hve mismunandi tengsl norrænna ríkja væru við NATO. Á það var réttilega bent af formanni utanrmn., hv. þm. Geir Haarde, að Rússland hefði á grundvelli samstarfssamnings síns við NATO náð formlegri tengslum við NATO en Svíþjóð og Finnland. Þetta finnst manni fremur undarlegt.

Á ráðstefnunni kom einnig fram að ef Svíþjóð og Finnland gengju í NATO, þá yrði trúlega auðveldara að verja landamæri Eystrasaltsríkjanna. Þessi rök yrðu væntanlega mikilvæg þegar aðild Eystrasaltsríkjanna að NATO verður rædd á bandaríska þinginu.

Ég vil taka undir þessar hugleiðingar og býst frekar við því að Finnar og hugsanlega Svíar muni huga að fullri aðild að NATO á allra næstu árum. Nú þegar er farið að bera á því í Finnlandi að þessi möguleiki er ræddur mun opinskár en verið hefur á opinberum vettvangi.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja að ég er hlynnt inngöngu Póllands, Ungverjalands og Tékklands í NATO en út á það gengur sú þáltill. sem hér var mælt fyrir af hæstv. utanrrh., Halldóri Ásgrímssyni. Þessi lönd, af menningarlegum og efnahagslegum ástæðum og jafnframt á grundvelli þess jákvæða árangurs sem þau hafa náð á því umbyltingarskeiði sem við höfum fylgst með, eiga að fá fulla aðild að öryggis- og efnahagssamstarfi Vesturlanda.