Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:38:05 (4947)

1998-03-19 15:38:05# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:38]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aukið framlag til þróunarsamvinnu, og þó fyrr hefði verið leyfi ég mér að segja. Þetta er 7. mál þingsins og var lagt fram í byrjun októbermánaðar og hefur því miður ekki komist til 1. umr. fyrr en nú. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir.

Tillögugreinin gerir ráð fyrir því að Alþingi samþykki að auka framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu á næstu árum og til tengdra verkefna með tilteknum aðgerðum og í áföngum þannig að í fyrsta lagi verði strax á þessu ári varið nokkru aukaframlagi til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og 15 millj. kr. til þess að standa straum af kostnaði við áætlanagerð og undirbúning undir aukin verkefni á komandi árum. Nái sá langþráði draumur að rætast að framlög okkar Íslendinga fari vaxandi þannig að einhverju muni á næstu árum þarf að sjálfsögðu að undirbúa vel að sá aukni stuðningur okkar við þróunarríki nýtist sem best.

Í öðru lagi verði á árunum 1999 og 2000, þ.e. á tveimur næstu árum, hækkað grunnframlag til Þróunarsamvinnustofnunar samkvæmt fjárlögum úr þeim um það bil 180--190 millj. kr. sem það er í dag í 250 millj. Auk þess verði lagt sérstakt álag á hátekjuskatt einstaklinga og á tekjuskatt af hagnaði fyrirtækja þannig að á sérstakan tekjuskatt manna leggist 1% álag hvort ár og á tekjuskatt af hagnaði fyrirtækja eða lögaðila 1,5% álag. Frá og með árinu 2001 hækki grunnframlag til Þróunarsamvinnustofnunar í 350 millj. kr. auk 2% álags á hátekjuskatt og 3% álags á tekjuskatt fyrirtækja.

Síðan felur tillagan í sér í fjórða lagi að á árinu 1998, þ.e. á yfirstandandi ári, skuli Þróunarsamvinnustofnun vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu, m.a. gera áætlun um verkefni sem talin eru brýn á sviði þróunarsamvinnu þar sem Íslendingar geta einir sér eða í samvinnu við aðra orðið að liði í krafti sérþekkingar, t.d. á sviði sjávarútvegs eða tengdra greina og að utanrrh. leggi áætlun Þróunarsamvinnustofnunar að þessu leyti fyrir Alþingi í formi skýrslu haustið 1998.

Ég vek aftur athygli á því, herra forseti, að tillaga þessi var lögð fram í októbermánuði sl., þannig að þá var enn nokkur tími til stefnu áður en fjárlög yrðu afgreidd og ber að skoða tillögur um fjárframlög á yfirstandandi ári að sjálfsögðu í því samhengi.

Þessi tillaga er endurflutt frá síðasta þingi nánast óbreytt utan þess að ártöl og upphæðir eru aðlagaðar að þeim breytingum sem síðan hafa orðið.

Í greinargerð, herra forseti, er farið yfir sögu þróunaraðstoðar Íslands allt frá því að slík þróunaraðstoð kom til sögunnar og Íslendingar hófu fyrst, á áttunda áratugnum að segja má, að leggja eitthvað af mörkum í þessum efnum. Staðreyndin er sú að það er út af fyrir sig ekkert óskaplega langt síðan Ísland hlaut þann sess í skilgreiningu að vera orðið þróað ríki efnahagslega og jafnvel í öðru tilliti en hvað a.m.k. efnahagslega velmegun og lífskjör hér snertir þá er óumdeilt að a.m.k. síðustu 20--30 ár höfum við tilheyrt þeim hluta þjóða heimsins sem á að vera samkvæmt því sem alþjóðasamfélagið hefur einsett sér, veitendur en ekki þiggjendur í þessum efnum.

Árið 1991 tók Þróunarsamvinnustofnun til starfa og þá voru bundnar vonir við að framlögin mundu aukast eða hlutfall af landsframleiðslu eða þjóðarframleiðslu sem varið yrði til þróunaraðstoðar mundi fara hækkandi. Því miður rættist þetta ekki. Vissulega komu í kjölfarið til sögunnar fyrstu tvíhliða verkefnin þar sem Íslendingar reyndu að aðstoða fátækar þjóðir við uppbyggingu, oftast á sviði sjávarútvegs. Framlögin jukust nokkuð á árunum 1982 og 1983 en tóku síðan að lækka á nýjan leik.

Árið 1985 samþykkti Alþingi till. til þál. um að auka skyldi reglubundið á næstu sjö árum framlög til þróunarsamvinnu að því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjunum yrðu 0,7% af þjóðarframleiðslu að því tímabili loknu. Þá var verið að ganga út frá þeim viðmiðunarmörkum sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu samþykkt fyrir velmegunarríkin, að varið skyldi a.m.k. að jafnvirði 1% þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar og þar af væru 0,7% opinber aðstoð eða a.m.k. hið opinbera í löndunum tryggði að slíku hlutfalli yrði að lágmarki veitt í þetta verkefni.

Skemmst er frá því að segja, herra forseti, að afdrif þessarar samþykktar Alþingis frá 1985 hafa orðið harla dapurleg. Næstu ár á eftir samþykkt Alþingis, einróma samþykkt Alþingis ef ég man rétt, um þetta efni, lækkuðu en hækkuðu ekki framlög Íslands til þróunarsamvinnu og voru það þó ágætisár í þjóðarbúskapnum og afkomu ríkissjóðs. Framlögin lækkuðu og fóru sem hlutfall af þjóðartekjum niður í eða niður fyrir 0,05%. Árin 1989--1991 hækkuðu þau hins vegar verulega á nýjan leik og náðu hæsta hlutfalli sem þau hafa náð hingað til eða um 0,13%. Síðan hafa þessi framlög því miður farið aftur lækkandi nema ef vera skyldi að segja megi að þau hafi staðið um það bil í stað núna aftur á nýjan leik í 2--3 ár.

Tillaga þessi, herra forseti, felur í sér eins og ég gerði grein fyrir að tekin verði stefnumótandi ákvörðun um tvennt: Að auka þessi framlög á næstu árum og að afla fjár til þeirrar aukningar með tilgreindum hætti, sem sagt með því að leggja nokkurt álag á tekjuskatt hátekjufólks í landinu og á tekjuskatt af hagnaði fyrirtækja með þeim rökum að þetta séu þó a.m.k., herra forseti, aðilar sem ættu að vera sæmilega aflögufærir í samfélaginu um nokkra fjármuni í þessu sambandi.

[15:45]

Tillagan er mjög hógvær. Hún gerir ekki ráð fyrir að við setjum okkur á þessu árabili hærri mörk en þau að koma þessu hlutfalli upp undir 0,3% af þjóðarframleiðslu. Miðað við þá útreikninga sem ég gerði og liggja til grundvallar töflu á bls. 2 í greinargerð með tillögunni mundi þetta hlutfall á árinu 2001 komast í u.þ.b. 0,28% af þjóðarframleiðslu eða vera rétt um 1/3 af því sem ríkið á að leggja af mörkum samkvæmt viðmiðun Sameinuðu þjóðanna.

Þetta mundi samt þýða, herra forseti, þótt okkur tækist að hækka hlutfallið sem þessu nemur, að við værum enn í hópi þeirra ríkja innan OECD sem lægstu hlutfalli af þjóðartekjum verja í þessu sambandi og langt á eftir þeim þjóðum sem búa við sambærilega velmegun og við. Ég er, herra forseti, með nýjasta talnahefti Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD í tölum á árinu 1997. Þar er tafla sem hefur lengi verið mér mikið minnkunarefni. Það er taflan yfir framlög aðildarríkja OECD til þróunarsamvinnu. Það er að vísu svo að hin skammarlega staða Íslands kemur ekki fram í töflunni nema í þeim skilningi að Ísland er þar ekki með. Hefur það verið svo um langt árabil að Ísland hefur aldrei verið með þegar kemur að töflunum um framlög aðildarríkja OECD til þróunarsamvinnu. Ætli það geti ekki verið vegna þess, herra forseti, að menn hafa skammast sín og það með réttu, fyrir frammistöðu Íslands á þessu sviði? En þar eru hins vegar þjóðir eins og Grikkland, Kórea og Ítalía og margar slíkar sem eru miðað við t.d. þjóðartekjur á mann eða aðra slíka mælikvarða langt að baki Íslendingum hvað almenna velmegun snertir.

Ef við lítum aðeins á hvernig þetta stendur, herra forseti, þá er meðaltalið af opinberri þróunaraðstoð eða ODA, eins og það birtist í þessari töflu á árinu 1997 0,27% af þjóðarframleiðslu. Og það er ljóst að þau lönd sem draga þetta meðaltal lengst niður eru ríki eins og Grikkland, Ítalía, Kórea, og reyndar Bandaríkin miðað við þá mælikvarða sem þarna eru lagðir. Ísland er sem sagt langt að baki þessu meðaltali og ekki bara því --- Ísland hefur undanfarin ár varið lægra hlutfalli af þjóðarframleiðslu sinni til þróunaraðstoðar en Grikkland, fátækasta ríkið innan OECD.

Ef við lítum til þess hvað hin Norðurlöndin gera í þessum efnum, þá er opinber þróunaraðstoð Dana, þ.e. það sem danska ríkið leggur af mörkum í þessum efnum og fyrst og fremst í gegnum Danida, 0,96% af þjóðarframleiðslu. Þegar því er bætt við sem hjálparsamtök og ýmsir aðrir aðilar í Danmörku leggja af mörkum er þetta hlutfall komið upp í 1,07% í Danmörku, yfir þeim mörkum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér.

Í Finnlandi leggur ríkið af mörkum 0,32% og 0,53% samtals þegar allt er talið.

Norska ríkið leggur 0,87% og þegar allt er talið er það hlutfall komið í 1,06% eða vel yfir þeim mörkum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa miðað við.

Svíar leggja 0,77% frá hinu opinbera, vel yfir viðmiðunarmörkum, og samtals 0,98% eða nánast akkúrat það sem viðmiðunarmörkin gera ráð fyrir.

Ísland, herra forseti, leggur ekki 0,5%, 0,3% eða 0,2%. Það er ekki með í töflunni, en samkvæmt þeim útreikningum sem liggja fyrir í tillögunni er þetta hlutfall nú rétt um 0,1% og hefur í raun og veru farið heldur lækkandi sem hlutfall vegna þess að þjóðarframleiðslan hefur vaxið nokkuð ört sl. þrjú ár.

Herra forseti. Þetta er auðvitað frammistaða sem er ekki nokkur leið að sætta sig við. Það er og hefur lengi verið samfellt skammarefni hversu velmegunarþjóðin Ísland, sem býr við einhver bestu lífskjör í heimi, þrátt fyrir allt, og hefur lengi verið í hópi tíu hæstu ríkja í þjóðartekjum á mann, stendur sig í þessum efnum. Okkur er þar ekkert til afsökunar, nema metnaðarleysi eða sérgæska að standa ekki okkar plikt með þeim hætti sem sjálfsagt þykir að gera á hinum Norðurlöndunum. Þess þá heldur nú, herra forseti, þegar mikið góðæri hefur verið í landinu og það er sem betur fer að skila sér, m.a. í bættum lífskjörum almennings og skárra væri það nú, að við skulum þá ekki a.m.k. láta bágstaddar þjóðir sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi, að vísu ekki með þjóðréttarlega bindandi hætti í þeim skilningi að við séum að skapa okkur skaðabótaskyldu eða refsiábyrgð, en höfum samt tekið þátt í að samþykkja sem viðmiðunarmörk í þessum efnum, ekki a.m.k. láta þetta verkefni, þennan málaflokk njóta vaxandi þjóðartekna til jafns við það sem við erum að njóta sjálf. Það er með öðrum orðum, herra forseti, kjörið tækifæri til að gera eitthvað í þessum efnum.

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ríkisstjórn hefur verið með það á dagskrá og mun hafa gert um það einhverja samþykkt að stefna beri að því að þessi framlög aukist. En ég tel, m.a. í ljósi reynslunnar, að valda þurfi þau áform betur en gert hefur verið eigi að vera einhver von til að þau verði efnd nú frekar en áður þegar menn hafa haft slíkt á prjónunum. Ég vil því eindregið mælast til þess, herra forseti, að athugað verði að Alþingi fyrir sitt leyti taki a.m.k. undir og samþykki að vinna skuli að þeim markmiðum með þessu móti og ekki verði látið sitja við einfalda ríkisstjórnarsamþykkt, sem ég geri ráð fyrir að hæstv. utanrrh. geti gert okkur betur grein fyrir. Ef menn vilja ekki treysta enn betur efndir slíkra markmiða með sjálfstæðri tekjuöflun sem ég hallast orðið að, að sé eina færa leiðin til að það verði ekki fyrir niðurskurðarhnífnum jafnóðum á hverju ári þegar að efndunum kemur, þá held ég að samþykkt Alþingis á þessu þingi væri til bóta ef eitthvað er.

Ég vil að lokum, herra forseti, nota tækifærið og spyrja hæstv. utanrrh., fyrir utan það að ég vonast til að hann lýsi afstöðu sinni til þessarar tillögu, hvort hæstv. utanrrh. sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að a.m.k. almenn stefnumörkun í anda þeirrar tillögu sem hér er flutt nái fram að ganga og þá í samræmi við þann vilja hæstv. ríkisstjórnar, sem mér þykir vissulega betri en enginn, að stefnt skuli að því að auka þessi framlög á komandi árum.