Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:04:19 (4950)

1998-03-19 16:04:19# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Í þeirri leit að verkefnum sem nú er hafin í sambandi við væntanlega aukningu okkar að því er varðar framlag til þróunarmála, þá verður þetta sérstaklega haft í huga. Þetta hefur komið fram í því samstarfi sem við höfum átt, bæði á Grænhöfðaeyjum og í Namibíu og nú erum við að hefja starf í Mósambík. Einnig höfum við starfað með frjálsum félagasamtökum innan lands, m.a. að því að styðja sérstaklega við bakið á konum. Það liggur alveg ljóst fyrir eins og hv. þm. sagði að ólæsi og lítil menntun kvenna víða í heiminum stendur í vegi fyrir framförum, ekki bara þeirra heldur þjóðanna. Ég er alveg sammála því að sérstaklega verði litið til þessa og stjórn ÞSSÍ hefur lagt mikla áherslu á að hafa það í huga.

Það er rétt að geta þess að Þróunarsamvinnustofnunin er undir stjórn utanrrn. En þar starfar sérstök stjórn sem hefur mjög mikil áhrif á starfsemi hennar. Þar eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka þannig að í því felst mikil sérstaða að því er varðar starfsemi utanrrn. að þar hafa fulltrúar flokkanna veruleg áhrif og allan aðgang að öllu því sem er að gerast.

Ýmsir hafa haft uppi þær skoðanir að þessu beri að breyta. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel heppilegt að við reynum að vinna að þessu sérstæða verkefni á þennan hátt þannig að áhugi stjórnmálaflokkanna hvort sem þeir standa að ríkisstjórn eða utan hennar fái notið sín á þessum vettvangi.