Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:22:42 (4954)

1998-03-19 16:22:42# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég geri mér að sjálfsögðu alveg grein fyrir því að mjög víða er hrópandi þörf fyrir fjármagn í sambandi við þróunarhjálp. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við Íslendingar þurfum fyrst og fremst að efla okkar tvíhliða samstarf og aðstoð og það þurfi mikinn og vandaðan undirbúning. Ég tel sem sagt mikilvægt að Íslendingar séu sýnilegir í þessu samstarfi en ég geri mér jafnframt grein fyrir því að við þurfum að vinna að því í samvinnu við aðrar stofnanir og lönd. Við höfum lagt áherslu á samvinnu við hin Norðurlöndin og stofnanir Norðurlandaráðs. Ég nefni þar Norræna þróunarsjóðinn sem hefur reynst afar mikilvægur í þessu sambandi. Við erum t.d. að takast á hendur verkefni í Mósambik með miklum stuðningi þess sjóðs, sem við hefðum ekki getað tekist á hendur nema í gegnum Norðurlandasamstarfið. Ég tel að þróunaraðstoðin sé dæmi um mikilvægi Norðurlandasamstarfsins og að við eigum að halda áfram að leggja áherslu á það. Það er oft sagt að Norðurlandasamstarfið sé lítils virði en þetta er a.m.k. eitt dæmi um hvað hægt er að gera.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að við þurfum að auka þátttöku okkar í friðarsamstarfi og friðarframkvæmd og gott dæmi um það er friðarframkvæmdin í Bosníu þar sem við Íslendingar höfum tekið ríkan þátt í uppbyggingarstarfinu og friðarferlinu. Ekki með því að senda þangað stóran hóp af fólki en það er nú einu sinni svo að þegar við sendum þangað þrjá lögreglumenn þá er það sambærilegt við það að Bandaríkjamenn sendi þangað þrjú þúsund lögreglumenn. Og þegar við sendum fjóra hjúkrunarfræðinga og lækna þá er það sambærilegt við að Bandaríkjamenn séu þar með fjögur þúsund manns. Ísland er því að leggja heilmikið af mörkum í samvinnu við aðrar þjóðir í því hrjáða landi og við erum að öðlast þar mikilvæga reynslu. Við höfum byggt upp náið samstarf við Alþjóðabankann í þessum verkefnum sem er jafnframt í fyrsta skipti sem við vinnum svo náið með Alþjóðabankanum. Það er mikilvægt verkefni þegar Íslendingar eru í samvinnu við Alþjóðabankann að útvega 600 einstaklingum nýja gervifætur. Það er skemmtilegt verkefni að geta gefið öllu þessu fólki nýja von í lífinu. Það vill nú svo til að Íslendingar og þeir sem vinna á þeirra vegum í Bosníu hafa verið að fá erfiðustu verkefnin á þessu sviði. Það er ekki hver sem er sem getur tekið á móti tíu ára barni að morgni til sem vantar á báðar fætur og sent það gangandi út seinni hluta dags. Það geta allir sett sig í þau spor hvílíkur hamingjugjafi það er fyrir viðkomandi fjölskyldu. Þannig að þrátt fyrir allt erum við Íslendingar að gera góða hluti á þessu sviði.

Jafnframt eru önnur verkefni að fara í gang í Bosníu á sviði heilsugæslu, sérstaklega mæðravernd og ungbarnaeftirliti. Í apríl koma hingað einstaklingar frá sjúkrahúsum í Bosníu til þjálfunar því það verður að segjast alveg eins og er að aðstæður á þessum sjúkrahúsum, t.d. að því er varðar fæðingar, eru hörmulegar. Þar er mikið verk að vinna. Það er mikil lífsreynsla að sjá þessa staði og bera saman við þær aðstæður sem við búum við. Að minnsta kosti var sá sem hér stendur ekki meiri maður en svo að hann hrökklaðist hálfpartinn til baka og hljóp niður stigann í hóp þeirra manna sem þar stóð við útidyrnar og biðu eftir fréttum af konum sínum en fengu ekki að koma nærri. Þetta fólk þarf því á mikilli aðstoð að halda. Þarna eru mjög hæfir sérfræðingar og mjög góðir læknar en þá vantar tækin og aðstæðurnar til þess að starfa betur og við höfum mjög mikið að gefa á þessu sviði. Ég held líka að Íslendingar hafi gott af því að taka þátt í þessu vegna þess að þetta minnir menn líka á það að við búum kannski við betra ástand á alþjóðamælikvarða en við viljum viðurkenna dags daglega, bæði hér á Alþingi og annars staðar í samfélaginu og ég held að allir hafi gott af því að rifja það upp.