Íslenskt sendiráð í Japan

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:43:26 (4968)

1998-03-19 17:43:26# 122. lþ. 91.4 fundur 94. mál: #A íslenskt sendiráð í Japan# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þann áhuga og stuðning sem hann sýnir eflingu utanríkisþjónustunnar. Þrátt fyrir ólík sjónarmið í utanríkismálum er mjög mikilvægt að samstaða ríki á Alþingi um að standa bærilega myndarlega að utanríkisþjónustunni og þar liggja mörg verkefni fyrir. Alþjóðasamstarfið fer stöðugt vaxandi og ekki verður hjá því komist að við Íslendingar tökum þátt í því á einn eða annan hátt. Það liggur því alveg fyrir að það kallar á fleira fólk, bæði á vegum utanrrn. og ýmissa annarra ráðuneyta og stofnana, m.a. Alþingis.

Við reynum að sinna þessu af bestu getu. En þegar stofnaðir eru fleiri og fleiri samstarfsvettvangar eins og Eystrasaltsráðið, Barentsráðið, Norðurskautsráðið og svo mætti lengi telja, stofnanir sem tengjast Atlantshafsbandalaginu, þá kallar þetta allt á meiri vinnu og fleira fólk. Það er jafnframt alveg ljóst að mínu mati að ekki verður komist hjá því að stofna fastanefnd eða sendiráð í Vínarborg vegna ÖSE.

[17:45]

Við verðum eins og aðrar Evrópuþjóðir að taka ríkari þátt í öryggismálaumræðu Evrópu og ÖSE er þar mjög mikilvægur vettvangur eins og þingmenn Alþb. hafa m.a. lagt áherslu á í umræðum í dag en þar höfum við enga viðveru einir Evrópuþjóða. Það er nokkuð sem gengur ekki til lengdar. Hins vegar má gera það á margan hátt og ekki þar með sagt að þar þurfi að vera fullmannað sendiráð.

Það hefur verið og er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að opna sendiráð í Tókíó. Í þeim drögum að fjárlagatillögum sem utanrrn. hefur verið með í smíðum fyrir árið 1999 hefur verið gert ráð fyrir því. Hins vegar verður að segjast alveg eins og er að það er kostnaðarsamt. Við gerum ráð fyrir því að rekstrarkostnaður verði u.þ.b. 95 millj. á ári miðað við að við slíkt sendiráð starfi sendiherra, sendiráðsritari, útsendur íslenskur ritari, staðarráðinn ritari og bílstjóri. Þessi áætlun er byggð á reynslu Norðmanna af rekstri sendiráðs í Tókíó. Auk þess mundi falla á ráðuneytið 8 millj. kr. vegna búferlaflutninga og embættisferða og því um líks. Við stofnun slíks sendiráðs yrði stofnkostnaður að lágmarki 24 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir því að húsnæði yrði leigt undir bæði sendiráð og sendiherra.

Þetta yrði langdýrasta sendiráð okkar. Ég geri mér ekki enn þá grein fyrir því hvort slíkur kostnaður rúmast innan fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Það liggur alveg fyrir að fjárlagagerðin verður erfið og það þarf að standa gegn ýmsum áformum um aukningu útgjalda og utanrrn. hlýtur að standa frammi fyrir því eins og öll önnur ráðuneyti. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að það ríki skilningur á Alþingi að þetta er mikilvægt.

Í október sl. fóru tveir af embættismönnum ráðuneytisins, Helgi Ágústsson ráðuneytisstjóri og Jón Egill Egilsson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu, til Japans til að ræða við þarlend stjórnvöld um hugsanlega opnun sendiráðs þar. Við leggjum á það áherslu að ef þetta gerist opni Japanar samhliða sendiráð hér á landi. Þeir hafa ekki verið tilbúnir til að gefa slíka yfirlýsingu og sagt að fjármálaerfiðleikar þar í landi geri það að verkum að þeir geti ekki gefið bindandi yfirlýsingu að þeir gerðu slíkt hið sama. Hins vegar gera þeir ráð fyrir því að það kæmi til með að ýta undir stofnun sendiráðs hér en lýst því yfir að það sé ætlun þeirra að stofna upplýsingaskrifstofu hér eða Information Center. En ekki verður gert ráð fyrir því að þar yrðu japanskir starfsmenn, a.m.k. ekki til að byrja með.

Því var hins vegar lýst yfir í þessari ferð eftir að hafa hlustað á sjónarmið embættismanna okkar að málið yrði athugað alvarlega en það ítrekað að japanskir efnahagserfiðleikar kæmu í veg fyrir að hægt væri að ábyrgjast að japanskt sendiráð yrði stofnað í Reykjavík. Það væri jafnvel ekki hægt að gefa út yfirlýsingu um að slíkt yrði gert innan fárra ára.

Við teljum mikið grundvallaratriði að gagnkvæmni sé í sambandi við sendiráð. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að opna sendiráð í Finnlandi var m.a. sú að við vildum standa við gagnkvæmnisyfirlýsingar en sendiráð hafði starfað hér á landi í fimmtán ár. Ég er ekki að segja með þessu að ekki komi til greina að stofna til sendiráðs í Japan jafnvel þótt sendiráð þeirra yrði ekki opnað hér samtímis eða fljótlega upp úr því. Auðvitað þurfum við að leggja á það sjálfstætt mat. Ég bendi jafnframt á að mikil þörf er fyrir að stofna til sendiráða í öðrum heimshlutum og vil ég þá sérstaklega nefna Suður-Ameríku og Kanada vegna mikilla tengsla okkar við Kanada og Íslendingasamfélagsins þar. Það er ekkert sendiráð í löndum Mið- og Austur-Evrópu, svo ekki sé talað um Afríku. Ýmis lönd sem eru ekki miklu stærri en Ísland hafa verið að opna sendiráð víða um heim og ég nefni t.d. Lúxemborg í því sambandi þannig að það er alveg ljóst að þörfin fyrir þessa starfsemi er fyrir hendi.

Enda þótt ég sé að líta á útgjöldin á sendiráði í Japan er mér fullkomlega ljóst að það koma margvíslegar tekjur á móti. Við eigum svo mikilvæg samskipti við Japan að ég er í engum vafa um það að sendiráð þar mundi t.d. stuðla að auknum ferðamannastraum þaðan til Íslands og mundi örugglega örva viðskipti og samskipti milli landanna. Þjóðfélagslega er ég ekki í nokkrum vafa um að það hefði í för með sér tekjur fyrir landið en ekki kostnað.