Íslenskt sendiráð í Japan

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:51:49 (4969)

1998-03-19 17:51:49# 122. lþ. 91.4 fundur 94. mál: #A íslenskt sendiráð í Japan# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:51]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir innlegg hans í umræðuna og þær upplýsingar sem hann hefur veitt um ráðagerðir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Ég tek undir margt af því sem hæstv. ráðherra sagði og ítreka að ég tel að skipuleg uppbygging utanríkisþjónustu okkar sé meðal brýnustu verkefna af okkar hálfu og að reyna að víkka sjóndeildarhringinn og samböndin í þeim efnum. Það er alveg sérstaklega mikilvægt að við komum okkur skipulega á landabréfið, ef svo má segja, í heimshlutum sem hafa verið vanræktir en góðar líkur eru á að árangur geti orðið af opnun sendiráða eða diplómatískrar nærveru á slíkum svæðum. Með tilliti til mikilla viðskipta og vafalaust mjög mikilla möguleika á að auka samskiptin við Japana sem eru líklega í fremstu röð sem efnahagsveldi í heiminum og hvers borgarar eru mikið í förum eins og hæstv. ráðherra gat um, þá tel ég það þurfi að athuga vandlega hvort ekki sé rétt að stíga það skref þrátt fyrir að mér sé ljóst að kostnaður sé umtalsverður við að koma upp sendiráði í Japan og brjóta ísinn, auðvitað í von um að það verði um gagnkvæmni að ræða. Ég tek undir orð hæstv. utanrrh. að slík gagnkvæmni er þýðingarmikil í samskiptum ríkja og hef ég lagt áherslu á það með ýmsum hætti þegar um sendiráð er að ræða. Ég ætla ekki að fara að rekja það en nefni þó að fyrir allnokkru flutti ég tillögu um að varðandi fjölda starfsmanna í sendiráðum yrði m.a. litið til ákvæða Vínarsamningsins þar að lútandi einnig þannig að ekki yrði gengið fram hjá slíkum alþjóðareglum.

Ég átta mig fyllilega á því að nærvera okkar með sendiráði eða ígildi sendiráðs í heimshlutum eins og Suður-Ameríku og Afríku gæti haft verulegt gildi og Kanada hlýtur einnig að vera á þessu blaði. Þetta þarf að sjálfsögðu að vega og meta og ég heiti hæstv. utanrrh. og hverjum sem vinnur að þessu máli stuðningi mínum til þess að þarna séu stigin ákveðin skref og þarna sé um skipuleg vinnubrögð að ræða vegna þess að ég er sannfærður um það að við njótum þess ef við komum okkur á kortið í þessum efnum öflugar en verið hefur. Það hefur verið allt of þröngur sjónhringurinn í utanríkisþjónustu okkar miðað við staðsetningu og því vænti ég þess að þarna verði stigin ákveðin skref hið fyrsta og geri mér vonir um að svo verði miðað við þær upplýsingar sem fram komu hjá hæstv. ráðherra.

Jafnframt tek ég undir sjónarmið sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. varðandi sendiráð í Vínarborg hjá ÖSE. Að mínu mati var ekki skynsamleg ráðstöfun að draga þar til baka sendimann okkar sem á sínum tíma hafði þar viðveru, að vísu við afskaplega frumstæð skilyrði, þannig að tæplega var til setunnar boðið, ef svo má segja, að hírast á hótelherbergi eins og ég held að hafi verið raunin með það sendiráð okkar en ég fagna því ef þar verður breyting á og tek undir það.

Ég legg til að að lokinni umræðunni verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.