Aldurssamsetning þjóðarinnar

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:41:00 (5012)

1998-03-23 15:41:00# 122. lþ. 92.1 fundur 271#B aldurssamsetning þjóðarinnar# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa fyrirspurn um mál sem ég held að full ástæða sé til að ræða á hinu háa Alþingi. Það er rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að á umgetnum fundi kom fram að nauðsynlegt væri fyrir okkur eins og alla aðra að kanna aldurssamsetningu þjóðarinnar fram í tímann og eins hitt að kynslóðareikningar sem hefðu farið sigurför, a.m.k. um Evrópu og Bandaríkin á undanförnum árum, væru kannski ekki eins nákvæmir og menn vildu vera láta. Ég held að við stöndum nokkuð vel hvað þetta áhrærir því við höfum nokkuð góðar upplýsingar um hvernig aldurssamsetning þjóðarinnar muni breytast á komandi árum og áratugum. Stjórnvöld hafa satt að segja, nú þegar verðbólgan er nánast horfin hér á landi, haft miklu betra tækifæri en nokkurn tíma fyrr til að áætla fram í tímann. Það höfum við gert og brugðist við, m.a. með breytingum á lífeyrissjóðalöggjöfinni, en lífeyriskerfið sem byggir á þremur stoðum, í fyrsta lagi á framlagi úr ríkissjóði til að tryggja lágmark, eins konar öryggisnet, í öðru lagi á skyldutryggingu uppsöfnunar lífeyrissjóða og loks í þriðja lagi á valfrjálsu framlagi til lífeyrissjóða eða sambærilegra stofnana. Við höfum gert meira því iðgjöld einstaklinga til þessara lífeyrissjóða er hægt að draga frá tekjum áður en þær eru skattlagðar. Við höfum því í raun gert það sem margar þjóðir hafa enn ekki gert, þ.e. að takast á við þetta framtíðarvandamál þannig að hingað hafa komið erlendar sendinefndir, nú síðast frá Noregi, til að kynna sér hvað Íslendingar hafa gert til að undirbúa breytta aldurssamsetningu en forsendan fyrir þessu öllu var samkomulag sem gert var af hálfu ríkisvaldsins og opinberra starfsmanna með þeim breytingum sem gerðar voru á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á sínum tíma.