Búfjárhald

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:39:01 (5121)

1998-03-24 16:39:01# 122. lþ. 93.15 fundur 543. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, með síðari breytingum. Mál þetta er flutt á þskj. 928 og er 543. mál þessa þings.

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi en var þá ekki útrætt og er nú endurflutt óbreytt að öðru leyti en því að lagt er til að heiti laganna verði breytt og verði: Lög um búfjárhald, forðagæslu og fleira, sbr. 5. gr. frv.

Tilgangur laganna um búfjárhald er að tryggja svo sem kostur er góða meðferð búfjár og að við framleiðslu búfjárafurða sé eingöngu notað hraust og heilbrigt búfé. Frv. sem hér er flutt varðar ákvæði III. kafla laganna um vörslu búfjár og ákvæði V. kafla sem fjallar um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár. Tilgangur forðagæslunnar er að tryggja að ætíð sé til nægilegt fóður fyrir þann búfénað sem settur er á vetur og að unnt sé að grípa til ráðstafana ef út af ber.

Starfi forðagæslumanna er þannig háttað að skráð er allt búfé sem sett er á vetur, birgðir gróffóðurs mældar og metnar að magni og gæðum og skráð uppskera korns og garðávaxta. Athugaður er húsakostur og aðbúnaður fénaðar, þar með talinn aðbúnaður útigangshrossa. Ef fram kemur að fóður skorti snemma vetrar er gripið til viðeigandi ráðstafana. Þá er búfjáreftirlitsmönnum ætlað það hlutverk að fylgjast með ástandi beitilanda í byggð á starfssvæði sínu.

Markmið laganna um búfjárhald er að koma í veg fyrir að vandamál skapist vegna fóðurskorts og vanhirðu. Veigamikill munur er á þessum lögum og lögum um dýravernd nr. 15/1994, en samkvæmt þeim eru að jafnaði ekki tök á að grípa inn í fyrr en talið er að í óefni sé komið. Til þess að eftirlitskerfi eins og að framan er lýst geti þjónað tilgangi sínum þurfa eftirlitsmenn að eiga aðgang að öllum lögbýlum og ákvæði laga þurfa að vera skýr um málsmeðferð sé þeim synjað um aðgang eða þeir hindraðir á annan hátt við störf sín.

Nokkuð hefur borið á því á undanförnum árum að bændur hafi synjað eftirlitsmönnum um upplýsingar og aðgang að býlum sínum. Verði framhald á slíku skerðir það áreiðanleika og gildi þeirra upplýsinga sem hér um ræðir og getur hindrað eðlilega framkvæmd ýmissa ákvæða svo sem að því er varðar beingreiðslur í sauðfjárframleiðslunni.

Einn megintilgangur laganna um búfjárhald er sem fyrr segir að tryggja að við framleiðslu sé eingöngu notað hraust og heilbrigt búfé. Vaxandi kröfur neytenda um skilgreindar og rekjanlegar upplýsingar um uppruna búfjárafurða gera það að verkum að taka þarf reglur um merkingu gripa til gaumgæfilegrar skoðunar og aðlaga þær nútímakröfum og breyttum aðstæðum.

Í löndum Evrópubandalagsins er nú þegar skylda að merkja alla gripi samkvæmt viðurkenndu merkingarkerfi sem samræmt er fyrir aðildarlöndin öll. Umræða um búfjármerkingar hér á landi hefur verið í samræmi við þróun þessara mála víða erlendis. Í lögum nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu og reglugerð við þau, er kveðið svo á að við slíka framleiðslu skuli allt búfé vera einstaklingsmerkt með öruggum hætti. Hliðstæð ákvæði um einstaklingsmerkingu sláturgripa er í reglugerð nr. 89/1996, um sértækt gæðastýrða íslenska landbúnaðarframleiðslu. Þá er áhugi fyrir því innan Félags hrossabænda að taka upp merkingar hrossa með svipuðum hætti til þess m.a. að kaupendur hrossa geti betur treyst því að ætterni þeirra sé rétt tilgreint í upprunavottorðum en slíkt er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir hrossamarkaðinn.

Í lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, eru ákvæði um búfjármörk. Ákvæði þeirra laga fjalla fyrst og fremst um sönnun eignarréttar en lagaheimild skortir til að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að merkja allt búfé sitt til sönnunar á uppruna, m.a. í sambandi við gæðastýringu.

Hæstv. forseti. Með hliðsjón af framansögðu er talin ástæða til að styrkja nokkur ákvæði laganna til að tryggja framkvæmd þeirra og er frv. þetta flutt í því skyni. Breytingarnar miða í fyrsta lagi að því að tryggja hindrunarlausa framkvæmd ákvæðanna um forðagæslueftirlit og talningu búfjár. Í öðru lagi að styrkja hlutverk búfjáreftirlitsmanna sem eftirlitsmanna með nýtingu lands. Í þriðja lagi að renna traustari stoðum undir þau ákvæði laganna er varða heilbrigði búfjár og mun ég gera nánari grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til með frv.

Til þess að tryggja lagagrundvöll fyrir ákvæðum um skyldumerkingu búfjár í samanburði við það sem ég hef rakið að framan er lagt til að bætt verði við 5. gr. laganna nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um heimild til að koma á skyldumerkingu búfjár eftir viðurkenndu merkingar- og skráningarkerfi. Eitt af hlutverkum búfjáreftirlitsmanna er að fylgjast með beitilandi í byggð á starfssvæði sínu. Til að gera þá framkvæmd markvissari en verið hefur er bætt inn í ákvæði um að búfjáreftirlitsmaður skuli gera sveitarstjórn og landgræðslustjóra aðvart telji hann um illa meðferð lands að ræða. Með vaxandi hrossaeign þéttbýlisbúa færist í vöxt að bændur taki hross í hagagöngu. Vill þá brenna við að ekki séu fyrir hendi upplýsingar um eigendur og ábyrgðarmenn hrossanna. Því þykir rétt að skylda landeigendur til að hafa jafnan tiltækar upplýsingar um eigendur og fjölda gripa í hagagöngu í landi þeirra.

Nokkuð er jafnan um að ábúendur lögbýla og aðrir umráðamenn búfjár meini búfjáreftirlitsmönnum að ganga að gripahúsum og/eða beitilöndum. Slíkt dregur úr gildi upplýsinganna og veldur sem fyrr segir erfiðleikum við ýmsa framkvæmd. Rétt er að hafa í huga að oftar en ekki er ástæðan fyrir slíkri tregðu sú að ekki er allt með felldu hvað varðar meðferð lands, fóðurbirgðir og velferð dýranna. Með tilliti til þessa er talið nauðsynlegt að treysta ákvæði laganna svo grípa megi til aðgerða í slíkum tilvikum. Því er lagt til að við niðurlag 10. gr. bætist nýtt ákvæði sem heimilar landbrh. með aðstoð lögregluyfirvalda að grípa til nauðsynlegra ráðstafana takist sveitarstjórn ekki að leiða málið til lykta.

[16:45]

Umtalsverður kostnaður getur fylgt því fyrir viðkomandi sveitarstjórn ef grípa þarf til aðgerða vegna fóðurskorts og vanhirðu búfjár. Í sumum tilfellum getur verið um að ræða umtalsverðar fjárhæðir sem sveitarstjórn er ábyrg fyrir. Því er lagt til að sett verði í lög skýr ákvæði sem tryggi sveitarstjórn rétt til að krefjast veðs í fénaði viðkomandi bónda vegna greiðslu kostnaðar sem af slíkum aðgerðum hlýst.

Til þess að tryggja tafarlausar aðgerðir ef upp koma alvarleg brot vegna fóðurskorts, hirðuleysis eða harðýðgi gagnvart dýrum er lagt til að við 11. gr. verði bætt ákvæði sem heimilar lögreglustjóra að svipta búfjáreiganda fyrirvaralaust og til bráðabirgða leyfi til búfjárhalds í samræmi við dýraverndarlög. Skal þá búfénu ráðstafað eins og búfjáreftirlitsmaður, trúnaðarmaður búnaðarsambands og héraðsdýralæknir telja að best tryggi velferð þess.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef rakið í framsögu þessari er með frv. fyrst og fremst verið að treysta ákvæði laganna að því er varðar framkvæmd nokkurra ákvæða og lögfesta heimild til að ákveða skyldumerkingu búfjár. Í umræðum sem urðu á Alþingi þegar frv. þetta var til meðferðar á síðasta þingi komu fram þau sjónarmið að taka þyrfti fleiri ákvæði laganna um búfjárhald til endurskoðunar en þau sem tekið er á í frv. þessu. Raunar þyrfti að fara fram heildarendurskoðun á lögunum. Ég hef ákveðið að láta hefja slíka heildarendurskoðun en tel afar brýnt að þær breytingar sem nú er lagt til að gerðar verði bíði ekki slíkrar heildarendurskoðunar heldur hljóti lögfestingu á þessu þingi.

Einnig vil ég geta þess að í umræðum á þinginu í fyrra bentu nokkrir hv. þm. á nauðsyn þess að styrkja lagaákvæði sem lúta að því að taka á vandamálum sem upp koma vegna ágangs búfjár og ofbeitarvandamála. Í því frv. sem hér er flutt eru ákvæðin um hlutverk forðagæslumanna og eftirlitsmanna lands styrkt til muna og geri ég mér vonir um að það auðveldi sveitarstjórnarmönnum og Landgræðslu ríkisins að taka á slíkum málum. Varðandi ofbeitarvandamál og vandamál vegna ágangs búfjár að öðru leyti þá eru þau nú til athugunar í landbrn. og hjá Landgræðslu ríkisins. Reynist ekki gerlegt að taka skipulega á þeim málum samkvæmt ákvæðum gildandi laga mun ég beita mér fyrir endurskoðun laganna um Landgræðslu ríkisins, eða eftir atvikum lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., til að tryggja eðlilega og nauðsynlega framkvæmd þeirra mála. Þessi atriði munu að sjálfsögðu einnig koma til skoðunar við væntanlega heildarendurskoðun á lögunum um búfjárhald.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.