Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 18:11:30 (5132)

1998-03-24 18:11:30# 122. lþ. 93.17 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[18:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans áðan þegar hann mælti fyrir þessu frv. og enn fremur þau svör sem hann veitti mér. Að vísu sýndist mér hæstv. ráðherra væri farið eins og mér að hann skildi ekki að öllu leyti það frv. sem hann er að flytja en ég geri engar athugasemdir við það.

Þetta frv. er flutt í þrennum tilgangi. Ég ætla ekki að ræða þann tilgang sem er fyrst reifaður, þ.e. að færa stjórnsýsluverkefni frá landbrh. til veiðimálastjóra heldur ætla ég aðeins að koma að nokkrum athugasemdum sem varða hina tvo. Annars vegar að treysta lagaákvæði sem eiga að stuðla að viðhaldi náttúrulegra stofna og hins vegar þriðja atriðið sem ég reifaði áðan í andsvari mínu að efla Fiskræktarsjóð og það eru nokkrir punktar sem ég vildi ræða.

Í 4. gr., herra forseti, er tekið svo til orða að veiðimálastjóra eigi að vera heimilt að friða tiltekin svæði í sjó í nágrenni mikilvægra veiðivatna til þess að vernda villta laxastofna. Nú er það svo að víða er um að ræða afskaplega merkilega stofna laxfiska sem þarf svo sannarlega að vernda ekki síður en laxa en eru þó ekki laxar. Hér á ég við hina gríðarsterku stofna sjóbirtinga á Suðurlandi. Þeir eru einstakir í heiminum. Það er sennilega hvergi hægt að finnan nokkurt svæði þar sem eru jafnmargir stofnar sem eru jafnsterkir og hafa á meðal sín jafnstóra sjóbirtinga og einmitt þar. Þar er hins vegar laxinn tiltölulega torgæfur og ég held þess vegna, herra forseti, að nauðsynlegt sé að hv. landbn. taki til umhugsunar þegar hún fjallar um þetta hvort ekki ætti að breyta þessu orðalagi þannig að í staðinn fyrir villta laxastofna komi þarna villta stofna laxfiska. Það tekur þá yfir bæði lax, sjóbirting og sjóbleikju. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrst menn á annað borð eru að gera þessa breytingu.

Ég hegg líka eftir því, herra forseti, að í 6. gr. a er verið að gefa veiðimálastjóra rétt til að ákveða að veiðitíma ljúki fyrr í vatni þar sem sannað telst að fiskur hrygni í september. Ég er sannfærður um að þarna vaki ekki nema gott eitt fyrir höfundum frv. Ég vek hins vegar athygli á því að þetta skarast á vissan hátt við 12. gr. c þar sem segir í tölul. 4., með leyfi forseta:

,,Veiðimálastjóri getur sett reglur um friðun vatnasilungs þar sem hann hrygnir að sumarlagi.``

Ef þetta ákvæði gefur veiðimálastjóra þennan rétt held ég því fram, herra forseti, að 6. gr. a-liðar sé óþörf.

Stór hluti þessa frv. og sá sem mestur er að umfangi varðar regluverk sem snertir flutning á stofnum úr upprunalegu veiðivatni yfir í annað veiðivatn. 11. gr. er langumfangsmest í frv. og þar er að finna marga liði sem snerta einmitt þetta. Þar segir í 11. gr. c, tölul. 5, með leyfi forseta:

,,Við fiskrækt í ám og vötnum skal einungis nota stofn úr viðkomandi veiðivatni.``

Þetta er afar gott.

[18:15]

Mér skildist á máli hæstv. landbrh. áðan að ástæðan fyrir því að þessar reglur væru settar væri sú að reglugerð sem hann vísaði til hefði ekki gefist nógu vel og það má vel vera að ekki hafi verið til nægilega styrk lagastoð fyrir henni. Þess vegna er verið að gera þetta. Ég er mjög hlynntur þessu. Ég tel að farsælt sé að setja lög um þetta. En þegar maður les síðan 11. gr. áfram og alla þá liði sem koma á eftir þá snúast þeir bara um eitt. Þeir snúast um undanþágur frá þessari meginreglu sem þarna er verið að setja. Þarna er sem sagt í fimm liðum sett upp afskaplega flókið kerfi sem menn þurfa til að fá undanþágu frá því sem hæstv. ráðherra segir hér næsta hróðugur að sé eitt af meginatriðunum. Mér finnst þess vegna að hér sé vel farið af stað en menn endi í heldur lakari áfangastað en lagt var upp til.

Ég velti því reyndar fyrir mér hvort málsgreinarnar frá og með a.m.k. 7 og til 12 sem bæta á við 23. gr. laganna með 11. gr. frv. séu óþarfar og hvort ekki megi allt eins segja: ,,Við fiskrækt í ám og vötnum skal einungis nota stofn úr viðkomandi veiðivatni nema Veiðimálastofnun telji annað ráðlegt.`` Undir engum kringumstæðum tel ég að hæstv. landbrh. eða nokkur annar, sérfræðingur eða yfirvald, treysti sér til að leggja til að það megi flytja stofna milli veiðivatna ef Veiðimálastofnun er því andvíg. Ég held að enginn mundi gera það. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort það sé ekki einnar messu virði hjá landbn. að kanna hvort ekki sé hægt að fella burt þessa liði þar sem gert er ráð fyrir mjög flóknu ferli. Það er hægt að fá þessa undanþágu en til þess þá þarf veiðifélag eða eigandi veiðivatnsins sem áformar fiskrækt í viðkomandi vatni með framandi stofni, að sækja um undanþágu. Hún er send til veiðimálastjóra. Hann auglýsir hana. Hann óskar eftir umsögnum veiðifélaga á svæðinu. Hann þarf umsögn dýralæknis fisksjúkdóma. Hann þarf líka umsögn Veiðimálastofnunar. Þetta ferli tekur --- ég hef ekki talið það saman --- einhverjar vikur og jafnvel mánuði. Mér finnst þetta vera allt of flókið. Ég held einfaldlega að ef Veiðimálastofnun og þess vegna fisksjúkdómanefnd, telur að það sé ráðlegt að heimila flutning á framandi stofni yfir í veiðivatn þá sé það í lagi. En ég held ekki að það þurfi að fara í gegnum allt þetta undarlega ferli. Ég sé reyndar hvaðan hæstv. ráðherra hefur þetta því þetta er mjög keimlíkt því ferli sem menn hafa um mat á umhverfisáhrifum og ég ímynda mér að höfundarrétturinn liggi þar.

Ég hnýt líka um það, herra forseti, að eitt af því sem veiðimálastjóri á að kanna þegar framandi stofnar eru fluttir á milli veiðivatna, er m.a. hætta á erfðamengun. Mér finnst þarna kátlega til orða tekið vegna þess að það hlýtur jafnan að vofa yfir hætta á einhvers konar erfðamengun ef menn eru að gera þetta. Ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra er að leggja lagastoð undir það að menn geti stemmt stigu við þessu er fyrst og fremst hættan á erfðamengun og síðan auðvitað smit á sjúkdómum líka.

Herra forseti. Ég var áður búinn að nefna að ég tel að ef 4. mgr. 24. gr. laganna sem kveðið er á um í staflið c í 12. gr. frv. standi þá sé í rauninni óþarfi að hafa inni staflið a í 6. gr.

Ég hnýt líka um það, herra forseti, að í 13. gr. er gefin heimild til þess að uppræta fisk úr veiðivatni, t.d. vegna sjúkdóma. Ég tel að fullkomlega gild rök séu fyrir því að menn velti fyrir sér hvort það eigi að grípa til svo afdrifaríkra ráða. En jafnframt segir: ,,... eða til þess að rækta aðrar fisktegundir ...`` Það finnst mér vera mjög hæpið og ég spyr hæstv. ráðherra: Undir hvaða kringumstæðum telur hann að það kæmi til greina t.d. að uppræta sjóbirting til þess að setja lax í ár? Ég spyr að gefnu tilefni.

Margir hafa í gegnum tíðina af gáleysi reynt að gera nákvæmlega þetta. Þeir hafa freistað þess að drepa niður sjóbirting til þess að koma laxi í ána. Nú er það svo að af þessum þremur fiskum, laxi, bleikju og sjóbirtingi þá er það yfirleitt urriðinn --- sjóbirtingur er ekkert annað en sjógengur urriði --- sem lætur undan síga ef fiskar af hinum tegundunum koma í vatnið til hans. Hann er sem sagt viðkvæmur og ég held að það sé mjög hættulegt að gefa því undir fótinn að menn hafi lagaheimild til þess að drepa hann niður með þessum hætti. Ég bendi sérstaklega á margar smáár á Suðurlandi þar sem er að finna frábæra stofna af sjóbirtingum sem hafa í sínu náttúrulega umhverfi, sem er afskaplega kalt, þróast í gegnum áranna rás. En menn hafa gert tilraunir til þess að eyða þeim og setja lax í staðinn og stundum hefur þeim tekist að eyða sjóbirtingsstofnunum án þess að laxinn nái nokkru sinni fótfestu vegna þess að umhverfið er ekki náttúrulegt fyrir hann. Mér finnst þess vegna að það sé hæpið að hafa þetta þarna inni og það fer hrollur um mig þegar ég les að það kynni að vera mögulegt að leyfa notkun sérstakra efna til þess að eyða fiskstofnum. Það er skelfilegt, herra forseti.

Síðan kem ég að Fiskræktarsjóði. Í 27. gr. segir að það eigi að verja 3 prómillum af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu vegna sölu á raforku samkvæmt samningum til nýrra stórnotenda til þess að efla Fiskræktarsjóð. Eins og hæstv. landbrh. sagði áðan felur þetta í sér skattlagningu á nýrri stóriðju í landinu og mér er algjörlega ósárt um þó að hún sé skattlögð í þessum tilgangi. En mér finnst samkvæmt þeim upplýsingum sem hæstv. ráðherra gaf áðan að það sé næsta lítið sem úr þessu komi. Ég held að virkjanir í tengslum við stóriðju í landinu hafi valdið það miklum skaða, kannski ætti ég að segja ,,skaða`` innan gæsalappa af því að það er auðvitað umdeilanlegt, ég held alla vega að hún hafi valdið svo mikilli röskun á náttúrulegu umhverfi vatnafiska að það sé allt í lagi að þessi grein atvinnulífsins sé látin greiða talsvert meira en sem nemur 1--2 millj. Ég held þess vegna að þetta sé allt of lítið.

Ég spyr líka hæstv. landbrh. hvort það sé ætlunin að nota þetta aukna fjármagn til þess að stuðla að uppkaupum á laxakvóta í úthafinu. Ég tek eftir því að í greinargerðinni er talsvert mikið rætt um það að laxastofnar víðs vegar við Atlantshafið séu nú á hröðu undanhaldi og það hygg ég að sé að mörgu leyti rétt. Það er að nokkru rakið til veiða á úthafinu. En ég held að mönnum yfirsjáist eigi að síður að oftar en ekki þá er það löglegur veiðistuldur sem veldur því. Í Skotlandi t.d. og á Bretlandseyjunum öllum, sér í lagi á Írlandi er veiðiþjófnaður nánast lögleg tómstundagrein og menn fara í mótmælagöngur ef ríkisstjórnir viðkomandi landa reyna einhvern veginn að hrófla við því með lagasetningu. Ég held að það skipti verulegu máli varðandi dvínun þessara stofna. Ég set mig alls ekki upp á móti því að Fiskræktarsjóði verði varið í ríkari mæli þess að kaupa upp veiðikvóta á Atlantshafslaxi í úthafinu. En ég spyr hæstv. landbrh. hvort það sé tilgangurinn.

Herra forseti. Ég hegg líka eftir því að í greinargerðinni er talað um að þetta sé í samræmi við umhverfisstefnu Landsvirkjunar og sérstök málsgrein sem fjallar um það. Því spyr ég hæstv. landbrh. Gengur hann þá ekki út frá því að það verði Landsvirkjun sem í öllum tilvikum greiði þessar auknu fjárhæðir sem eiga að fara til Fiskræktarsjóðs?

Þá kem ég að öðru máli sem mér er hugleikið líka, herra forseti. Ég tel að Landsvirkjun hafi oft farið afar gáleysislega að veiðivötnum og hún hafi sums staðar valdið ómældum skaða þar sem hún hefur ekki fallist á að greiða neinar skaðabætur fyrir. Það er að vísu ekki sama hvar á landinu það er. Það er merkilegt að skoða hvar Landsvirkjun hefur drepið niður fæti og hvar hún hefur greitt bændum skaðabætur. Það er fyrir norðan. Það er í tengslum við Blönduvirkjun og svo auðvitað ýmsar aðrar virkjanir. En þar sem hún hefur valdið einna mestum skaða á vatnakerfi, þ.e. við Þingvallavatn og í Soginu, hefur hún ekkert borgað. Ég fullyrði það, herra forseti, að Landsvirkjun er völd að því að stórlaxastofninn í Soginu hefur nánast gereyðst og hann nær sér ekki upp vegna þess hvernig Landsvirkjun heldur á vatnsstreymi niður Sogið. Það er ekki lengra síðan en röskir tveir mánuðir að vatnsborðið t.d. í Úlfljótsvatni lækkaði um hátt í einn metra og voru aurar langt út eftir öllu vatninu. Menn geta þá velt tvennu fyrir sér: Hvað verður þá um fiskstofnana og sérstaklega ungviðið í Úlfljótsvatni meðan á þessu stendur? Það heldur sig yfirleitt á grynningum í skjóli þar. Og hvað verður um ungviðið neðar í ánni þar sem allt þetta vatnsmagn streymir með fossandi afli? Landsvirkjun hefur líka átt nokkra sök á því með gáleysislegri meðferð á vatnsborði Þingvallavatns, sérstaklega fyrr á árum, upp úr 1980, að urriðinn sem þar heldur til hefur átt mjög erfitt uppdráttar og sérstakur stofn bleikjunnar, svokölluð kuðungableikja, hefur ekki náð sér á strik fyrr en núna á allra síðustu árum.

Þegar Efra-Sogið var virkjað leiddi það til þess að urriðastofninn nánast gereyddist, þ.e. sá stofn sem hrygndi úti fyrir Efra-Soginu. Ég tel og reyndar ekki bara ég heldur ýmsir fræðimenn, íslenskir og erlendir, að brottnám urriðans úr vistkerfinu hafi leitt til mjög óreglulegra sveiflna á murtustofninum sem leiddi til þess að veiði hrundi í vatninu um árabil. Það hafði aftur í för með sér að bændur töpuðu mjög miklum hlunnindum, hlunnindum sem skiptu þá verulega miklu máli og þeir hafa aldrei fengið neinar bætur fyrir þetta.

Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að á lýðveldisdaginn árið 1959 brast bráðabirgðastíflan sem hafði verið reist úti fyrir jarðgöngum þar sem Sogið var síðan fellt eftir niður í Úlfljótsvatn um Steingrímsstöð. Þetta leiddi til þess að vatnsborð Þingvallavatns lækkaði um á annan metra með þeim afleiðingum að bæði bleikjugerðirnar fjórar og urriðinn sköðuðust talsvert. Seiði lágu dauð í hrönnum út um allt vatn og vatnið er kannski fyrst núna að ná sér upp áratugum síðar. Aldrei voru neinar bætur greiddar. Landsvirkjun greiddi aldrei neitt.

Ég spurði hæstv. iðnrh. um það fyrr á þessu kjörtímabili hvort einhverjar bætur hefðu verið greiddar fyrir það og hæstv. ráðherra svaraði mér og alveg örugglega samkvæmt bestu vitund að engar bætur hefðu verið greiddar vegna þess að engra bóta hefði verið óskað. En nú er það samt sem áður þannig að í bók sem Guðmundur Daníelsson rithöfundur skrifaði og heitir Dunar á eyrum, er viðtal við Steingrím Jónsson rafveitustjóra þar sem hann er að lýsa því að þá, sennilega einhvern tíma upp úr 1960, hafi verið í gangi miðlunarnefnd sem átti að reyna að ná málamiðlun um bætur til bændanna. Það hefur aldrei komið neitt út úr þessari nefnd og því tel ég að Landsvirkjun standi í nokkurri skuld við a.m.k. bændur þarna.

Ég segi þess vegna, herra forseti, og spyr hæstv. landbrh.: Er þá ekki allt eins tímabært að setja inn í þessi lög einhvers konar ákvæði um það að tiltekið hlutfall af tekjum af sölu raforku sem Landsvirkjun stendur að, eigi að fara í sérstakan sjóð til að bæta bændum hlunnindatap sem beinlínis má rekja til aðgerða fyrirtækisins í komandi framtíð en líka í fortíðinni? Mig svíður það, herra forseti, að sjá þá ágætu bændur í kringum Þingvallavatn sem hafa sannanlega beðið skaða af starfsemi fyrirtækisins, liggja óbætta hjá garði kannski af því að þeir eru of kurteisir og hófsamir, kannski líka vegna þess að þá óar að leggja í þetta stórfyrirtæki og ógnar auðvitað framkoman gagnvart þeim.

Ég spyr, herra forseti: Er ekki mögulegt að hæstv. landbrh. velti því fyrir sér að beina því til landbn. að kanna hvort ekki sé rétt að setja inn einhvers konar sjóð af þessu tagi sem mundi þá e.t.v. vera sæmilegur plástur á þau sár sem starfsemi stofnunarinnar hefur veitt sumum í fortíðinni?