Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 18:29:38 (5133)

1998-03-24 18:29:38# 122. lþ. 93.17 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[18:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir umfjöllun hans um þetta frv. og athugasemdir hans sem geta verið góð leiðbeining fyrir hv. landbn. sem getur þá skoðað ýmsa þætti sem hv. þm. hefur bent á varðandi frv.

[18:30]

Ég vil fyrst segja út af skilningsleysi á frv. að ,,óskírar`` tekjur er eitthvert tæknimál um tekjustofn Fiskræktarsjóðsins. Það er skilgreining á tekjuhugtakinu sem ég hætti mér ekki nánar út í að útskýra og var búinn að gera þá játningu áður að ég væri ekki alveg viss um hvernig væri hugsað en ég er fullviss um að þeir sem annast þessi mál kunna lagið á því og hefur ekki orðið til trafala við innheimtuna hingað til vænti ég.

Hv. þm. gerir athugasemdir um það að e.t.v. megi skilgreina ákveðna þætti í frv. á annan hátt eins og laxastofna annars vegar og laxfiska hins vegar. Ég hlýði á þessar athugasemdir hans og beini þeim til landbn. til frekari skoðunar og tel að það sé gert með fullum rökum enda veit ég að hv. þm. hefur góða þekkingu á þeim málum sem verið er að fjalla um í þessu frv., og er full ástæða til þess að hlýða á athugasemdir hans hvað þetta varðar. Ég hef út af fyrir sig ekki frekari athugasemdir við það heldur finnst sjálfsagt að landbn. líti á þessa þætti.

Hins vegar velti hv. þm. fyrir sér tilgangi 11. gr. sem má vissulega segja að standi undir einum af þremur þáttum sem frv. er ætlað að taka utan um og fjallar um flutninga á laxfiskstofnum milli vatnasvæða. Ég hef út af fyrir sig ekki við það að athuga heldur að hv. landbn. taki þessa þætti líka til nánari skoðunar því að hér eru settar í nokkuð ítarlegu máli ýmsar leiðir til undanþágu og til málsmeðferðar en stundum er það svo að það er bæði gott og nauðsynlegt að hafa málsmeðferð nokkuð skýra og að hennar sé að nokkru getið í lögum þannig að menn sitji þá ekki uppi með það, t.d. ráðherrar, að setja síðan reglugerðir sem hafi óskýran bakgrunn eða menn lendi síðar í því að þurfa að taka á úrskurðarmálum í viðkvæmum efnum þar sem menn hafi ekki leiðbeiningu löggjafans til að fara eftir. Ég hygg að það sé m.a. það sem er á bak við ítarlega útfærslu á málsmeðferð í 11. gr. þar sem leiðir eru opnaðar til undanþágu en það kann að vera að þær séu of flóknar eða með þeim hætti að það megi taka á þessu öðruvísi. Um eitt er ég þó alveg sammála hv. þm., að Veiðimálastofnun eða sérfræðingar verða að leggja línuna og afar erfitt er fyrir ráðherra að ætla eða eiga að vera dómari í því hvað má og hvað má ekki eða hvað er ásættanlegt í þessu efni. Ég hef m.a. þegar lent í því að þurfa að takast á við það og fjalla um það sem afar viðkvæmt deilumál hvort á að leyfa slíka flutninga eins og hér er verið að ræða um og því var talið nauðsynlegt að setja í frv. skýrari reglur en eru í gildandi lögum. Þegar ég tala um ráðherra á það a.m.k. við um þann sem hér stendur en það kann að vera að til ráðherradóms veljist menn sem hafa mikla og víðtæka þekkingu á þessum málum, séu e.t.v. doktorar í einhverjum fiskifræðum og hafi þekkingu á við þá sérfræðinga sem þeir eiga annars að vinna með og leita leiðbeininga hjá. Ég vísa þessu einnig til nefndarinnar að skoða þessa þætti nánar og að sjálfsögðu að kalla þá til sem hafa unnið að undirbúningi og gerð frv.

Varðandi athugasemdir eða fyrirspurn hv. þm. við 13. gr. þá hygg ég, ég get þó ekki vísað til annars en þess sem stendur í athugasemdum við einstakar greinar frv., að ekki sé verið að setja inn í frv. ný atriði heldur sé þetta í gildandi lögum en hef þó ekki lögin fyrir framan mig til þess að fullyrða þetta en í athugasemdum við frv. segir að um 12.--20. gr. sé aðeins gert ráð fyrir breytingum á stjórnsýsluverkefnum sem verið sé að færa frá ráðherra til veiðimálastjóra en ekki sé efnisatriðabreyting. Sé þetta rétt hygg ég að það sem verið er að breyta þarna sé fyrst og fremst það að verið er að fela veiðimálastjóra hlutverk sem í gildandi lögum sé í höndum ráðherra en efnisatriði í greininni séu samkvæmt gildandi lögum. Sé svo ekki verð ég einnig að vísa til nefndarstarfsins með það að fá nánari skýringu og hvort heldur er er auðvitað sjálfsagt að nefndin afli sér frekari skýringa á því hvað sé átt við eða hvað menn hafi haft í huga þegar þeir tala um að hægt sé að gera upptækar úr veiðivatni aðrar fisktegundir en þær sem fyrir eru í vatninu og með hvaða aðferðum það er gert eins og bent er á.

Allra seinast, hæstv. forseti, aðeins frekari hugleiðingar um Fiskræktarsjóðinn, tekjustofna hans og hlutverk. Það er útilokað að segja nákvæmlega fyrir um það hvað kunni að felast mikill tekjuauki í þeirri breytingu sem er lögð til í 27. gr. frv. heldur aðeins það hvað ætla má miðað við það sem vitað er um eða talið er að sé í farvatninu af hugsanlegum nýjum samningum til stórra orkunotenda og þá sé verið að tala um þetta kannski 1--2 millj. sem er auðvitað sáralítil aukning á tekjum sjóðsins. Litið til lengri framtíðar gæti verið um stærri upphæðir að ræða sem ég ætla þó ekkert að velta fyrir mér frekar á þessu stigi. Auðvitað hefði ég ekki heldur grátið það ef menn hefðu talið sér fært að auka tekjur sjóðsins á annan hátt, t.d. með því að greitt yrði af sölu til allra stórra orkunotenda þ.e. þeirra sem kaupa þegar í dag orku af virkjunaraðilum. En það var ekki talið mögulegt eða tiltækt af hálfu þeirra sem gengu endanlega frá frv. að hafa það með þeim hætti af því að það gæti leitt til þess að taka þyrfti upp þegar gerða samninga. Það var meginástæðan fyrir því.

Þess vegna sé ég ekki að við bætum stórum böggum á Fiskræktarsjóðinn miðað við þennan tekjuauka sem hér er þó gefin von um en vissulega ætti fjárhagur hans að rýmkast örlítið. Þá veit ég að tekjur hans hafa verið notaðar, m.a. til þess að taka þátt í kaupum á laxalögnum í sjó en ég er ekki viss um og veit reyndar ekki hvort tekjur hans hafi verið notaðar til þess að taka þátt í kaupum á laxakvóta á úthafinu. Reyndar á ég vart von á því að tekjur sjóðsins séu þær að hann hafi getað tekið mikinn þátt í því þó að það sé hugsanlegt en hitt veit ég að hann hefur verið notaður til að taka þátt í kaupum á laxalögnum í sjó sem við höfum verið að semja um að undanförnu og eru nú að nást samningar um að bæta fyrir það þannig að öllum slíkum veiðum sé hætt og það tel ég að sé afar mikilvægt skref sem við erum um það bil að ná núna. Ég óttast því að ekki verði auðvelt að bæta við nýjum bótaþáttum á sjóðinn miðað við þennan litla tekjuauka sem hann fær hér en sjálfsagt er að nefndin skoði það nánar og t.d. það að gera upp eða bæta landeigendum fyrir hlunnindatap. Það kann að vera að það sé jafnvel ekki síður verkefni Bjargráðasjóðs en þó er það svo að Bjargráðasjóður tekur fyrst og fremst þátt í verkefnum sem eru skilgreind þannig að viðkomandi atvinnugrein hafi greitt til sjóðsins þannig að bótaréttur skapist þar.

Síðan spurði hv. þm. hvort það mætti skilja það svo af því að í greinargerðinni er vísað til umhverfisstefnu Landsvirkjunar að ráðherra gerði ráð fyrir því að það væri fyrst og fremst Landsvirkjun sem yrði orkusali í framtíðinni. Ég nefndi það reyndar í andsvari mínu til hv. þm. áðan, hann hefur þá ekki tekið eftir því, að ég teldi að þó að það væri einkum Landsvirkjun sem væri þessi orkusali í dag væri ekkert sem segði til um að það yrði svo í framtíðinni. Ýmsar breytingar geta gerst hvað það varðar og þess vegna er í lögunum kveðið á um að það skuli vera þeir sem selja orku frá vatnsaflsstöðvum í landinu sem greiða í sjóðinn en ekki merkt neinu einu fyrirtæki. Ég hygg að það að vitna til umhverfisstefnu Landsvirkjunar hafi fyrst og fremst verið notað sem rökstuðningur fyrir því að þeim aðilum sem nýta þá auðlind sem felst í fallvötnunum okkar beri að taka þátt í hvers konar rannsóknum sem þeir gera auðvitað en einnig í gegnum Fiskræktarsjóðinn eins og hér er lagt til, og hafa gert hingað til af raforkusölu til almennings en hér er gert ráð fyrir því að þeir greiði einnig af nýjum samningum til stórnotenda.