Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 18:40:49 (5134)

1998-03-24 18:40:49# 122. lþ. 93.17 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[18:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Ég held að hann hafi svarað flestum þeim spurningum sem ég beindi til hans og hann tók vel í ýmsar þær athugasemdir og ábendingar sem ég kom fram með. Sumar þeirra eru þess eðlis að ég tel að hv. landbn. ætti skilyrðislaust að fara að þeim. Aðrar eru auðvitað umdeilanlegar og helgast af þeim viðhorfum sem ég hef til þessara mála sem kunna að vera nokkuð öðruvísi en hæstv. landbrh.

Ég er að sjálfsögðu þakklátur fyrir það að hæstv. ráðherra tók ekki illa í að það væri ráð að koma upp einhvers konar sjóði til þess að bæta bændum hlunnindatap þar sem hægt er að benda á að virkjun vatnsfalla hefur orðið til þess að skerða tekjur þeirra. Ég nefndi mjög sérstakt dæmi sem eru bændur við Þingvallavatn sem fengu ekki neinar bætur þegar Sogið, sem þá var mesta bergvatnsá landsins, var virkjað með þeim afleiðingum að því er ég tel að tekjur þeirra í kjölfarið minnkuðu og féllu algerlega niður um árabil. Aldrei kom króna í bætur. Hæstv. ráðherra sagði að e.t.v. mætti hugsa sér að Bjargráðasjóður kæmi til aðstoðar í slíkum málum. Ég hugsa að eins og málum er háttað sé of langur tími liðinn til þess að svo geti gerst en ég get samt sem áður ekki látið hjá líða að nota tækifærið til þess að reifa þetta örlítið frekar.

Það er hastarlegt að bændur sem búa við Þingvallavatn höfðu að stórum hluta tekjur sínar af veiði í vatninu. Í dag er það reyndar enn svo að þeir hafa umtalsverðar tekjur af silungsveiði og má segja að stöku bóndi búi enn við vatnið sem hefur eiginlega afkomu sína af veiðunum. Landsvirkjun hefur hins vegar komið þannig fram að það er til vansæmdar. Dæmi eru um það frá öllum síðustu sumrum að vatnsborðið á vatninu er lækkað það ört að fiskurinn leggst frá. Það er alþekkt að ef vatnsborðið í vatninu lækkar ört hrekst fiskurinn út frá ströndinni og það þýðir að bændurnir veiða ekki sem áður.

Þetta þýðir það, herra forseti, að þegar Landsvirkjun notar Þingvallavatnið sem miðlunarlón kemur það niður á bændunum en Landsvirkjun græðir hins vegar peninga á því. Það væri réttlætismál að hún greiddi bændunum þegar eitthvað slíkt gerðist eða að hún sæi einfaldlega til þess að þeir hefðu með einhverjum hætti tekjur af þessari notkun fyrirtækisins á vatninu. Það er t.d. nöturlegt að hugsa til þess að bændur í Þingvallasveit voru síðastir til þess að fá rafmagn og ég held að það væri góð hugmynd að Landsvirkjun sæi til þess að bændurnir á þessu svæði hefðu ókeypis rafmagn til híbýla sinna. Mér finnst að það sé nokkuð sem menn ættu að ræða í framtíðinni. Það er hins vegar mál sem ég fellst á að sé tiltölulega fjarskylt þessu ágæta frv. sem liggur fyrir.

Ég reifaði í fyrri ræðu minni tilgang og uppbyggingu Fiskræktarsjóðs. Í greinargerðinni segir um Fiskræktarsjóðinn að hann hafi í upphafi haft það markmið að efla fiskrækt í landinu með fiskvegagerð og seiðasleppingum. Löngu seinna er frá því greint að bætt var ákvæði inn í lögin sem heimilar að styrkja annars konar verkefni sem eigi að stuðla að viðhaldi eða aukningu íslenskra laxfiska. Þetta er virðingarvert og þess vegna tel ég nauðsynlegt að stækka og efla sjóðinn. Mér sýnist á máli hæstv. ráðherra að sú breyting sem er lögð til muni ekki leiða til mikillar styrkingar á sjóðnum. En verkefnin eru hins vegar ærin. Það liggur fyrir að það þarf að kaupa upp laxakvóta á úthafinu en jafnframt tel ég líka að það skipti máli að reyna í vaxandi mæli að verja fjármagni til þess að kanna afdrif laxins þegar hann kemur til hafs, þegar hann gengur úr ánum. Ástæðan fyrir því að stofnarnir eru á niðurleið er að hluta til sú að afkoma laxaseiðanna er ekki nægilega góð þegar kemur í hafið.

Hvað veldur því? Það veit ekki nokkur maður. Hvers vegna? Vegna þess að það er ekkert fjármagn veitt til rannsókna á nákvæmlega þeim þætti sem lýtur að sjávarvist laxfiskanna. Við höfum áratugum saman verið að rannsaka þann þátt í lífskeðju fisksins sem er háður í straumvatni á landi og við höfum náð giska góðri þekkingu upp á því sviði. Við vitum næsta vel við hvaða aðstæður laxaseiðin lifa best á meðan þau eru enn í straumvatninu. Við vitum ekkert hvað bíður þeirra þegar þau koma í hafið og hvort eitthvað sé hægt að gera til þess að bæta afkomu þeirra. Þetta skiptir máli, herra forseti, ekki bara um þá stofna sem við höfum núna heldur líka og ekki síður varðandi uppbyggingu stofna annars staðar.

Ég bendi t.d. á ár eins og Rangárnar sem sakir ýmissa umhverfisþátta hafa átt undir högg að sækja sem laxár. Það hefur hins vegar tekist með þeim aðferðum sem menn á borð við Þröst Elliðason hafa þróað í samvinnu við bændur þar að ná upp verulega góðri veiði. Það sem hins vegar bjátar helst á þar eins og reyndar víða er að stundum ber það við að þó að miklu magni seiða sé sleppt eru endurheimturnar takmarkaðar. Af hverju? Vegna þess að umhverfisþættir í hafinu eru ekki nógu heppilegir. Við vitum hins vegar ekki hvaða umhverfisþættir þurfa nákvæmlega að vera til staðar til þess að afkoma sé nægilega góð þegar í sjávarvistina kemur. Þetta þarf að rannsaka og ég tel að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem Fiskræktarsjóður ætti að sinna.

Ég hef, herra forseti, lagt fyrir þingið tillögu til þingsályktunar sem varðar einmitt auknar rannsóknir á þessu sviði. Ég hefði talið æskilegt, af því að það er talsvert langt síðan hún var lögð fram, að hún hefði verið rædd í tengslum við þetta frv. og þá hefði hæstv. landbrh. e.t.v. getað verið til þess að taka þátt í umræðunni. Ég ætla að öðru leyti ekki að fjölyrða um frv., herra forseti, en ég tel að þær ábendingar sem ég hef komið fram með um ýmis ákvæði frv. séu þess eðlis að landbn. beri skylda að skoða þau til hlítar. Ég held líka að hæstv. ráðherra eigi að velta því fyrir sér sem landbrh., sem gæslumaður laxastofnanna í ánum fyrir hönd okkar sem hér störfum á hverjum degi, hvort ekki sé hægt að finna meira fjármagn en það sem hann hefur fundið hér í 27. gr. til að efla Fiskræktarsjóðinn svo að hann geti í ríkarari mæli sinnt þeim verkefnum sem ég hef verið að reifa.