Búfjárhald

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 18:48:46 (5135)

1998-03-24 18:48:46# 122. lþ. 93.18 fundur 415. mál: #A búfjárhald# (varsla stórgripa) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[18:48]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Árni M. Mathiesen, Kristín Halldórsdóttir og Magnús Stefánsson, sem sagt einn þingmaður frá hverjum þingflokki á Alþingi.

Frv. gerir ráð fyrir að við 5. gr. laganna um búfjárhald bætist ný málsgrein og orðist eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Eigendum stórgripa, þ.e. nautgripa og hrossa, er skylt að hafa gripi sína í vörslu allt árið og sjá til þess að þeir gangi ekki lausir á eða við þjóðvegi. Ákvæði þetta skal þó ekki hindra hagagöngu stórgripa utan girðinga þar sem tryggt þykir að af því hljótist engin hætta fyrir umferð, svo sem í heimalöndum eða afréttum sem liggja hvergi að alfaraleiðum. Viðkomandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnir skulu setja í samþykktir sínar um búfjárhald, sbr. 3.--4. gr., [og það á við lög þessi] nauðsynleg ákvæði í þessu sambandi að höfðu samráði við lögreglustjóra. Engin slík ákvæði, sem heimila hagagöngu stórgripa utan girðinga, sbr. 2. málsl. þessarar málsgreinar, öðlast þó gildi nema landbúnaðarráðherra staðfesti þau.``

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 1999. Ber að taka fram að það er nokkuð síðan þetta frv. var lagt fram þannig að gildistökuákvæðið er að sjálfsögðu eitt af þeim atriðum sem athuga þarf í hv. nefnd með hliðsjón af því hversu langan aðlögunartíma er talið eðlilegt að hafa að þessu frv.

Þetta frv., herra forseti, hefur tvívegis áður verið flutt á Alþingi. Það var á síðasta kjörtímabili en þá varð frv. í hvorugt skiptið útrætt. En það er því miður svo að sá vandi sem þessu frv. er ætlað að taka á, þ.e. tíð umferðaróhöpp og slys sem tengjast lausagöngu stórgripa hefur síst minnkað. Til marks um það er nýleg samantekt á umferðaróhöppum sem tengjast búfé, úr ritgerð sem ungur námsmaður, Hugi Hreiðarsson, hefur unnið. Er þessi samantekt birt sem fylgiskjal I með frv. á bls. 4. Þar sjá menn að því miður er það enn svo að árekstrar umferðarinnar og búfjár eru alltíðir og hefur ekki dregið úr þessu vandamáli að neinu marki miðað við samanburð við eldri fylgiskjöl með frv., en þar eru ýmsar upplýsingar sem 1. flm. tók saman á árunum 1992--1994 og ná allt aftur til ársins 1987 og jafnvel aftar. Við því var kannski tæplega að búast hvað sauðfé varðar en hitt er öllu alvarlegra að á einstaka svæðum eru árekstrar hrossa og umferðarinnar jafnmargir og fyrr eða jafnvel heldur fleiri. Það á t.d. við því miður um umdæmi lögreglunnar á Sauðárkróki.

Því er þetta frv. flutt, herra forseti, að gildandi úrræði að þessu leyti virðast ekki hafa dugað til að taka á þessu vandamáli eins og vonir stóðu til, t.d. þegar lögum um búfjárhald var breytt og þau reyndar endurskoðuð í heild og sett á árinu 1991. Þá varð sú niðurstaða að setja í lög ótvíræðar afdráttarlausar heimildir til handa sveitarstjórnum að fyrirskipa vörsluskyldu á sínu svæði og menn bundu vonir við að í framhaldinu mundi það gerast að á vandamálinu yrði tekið og það hyrfi smátt og smátt úr sögunni í gegnum það að einstakar sveitarstjórnir settu reglugerðir eða samykktir um búfjárhald og þá yfirleitt vörsluskyldu hvað stórgripi snertir sem a.m.k. þýddi að sá hluti vandamálsins hyrfi.

En því miður hefur það ekki gengið eftir að öllu leyti því þó fjölmargar sveitarstjórnir hafi tekið vel á þessu vandamáli, þá hefur annars staðar að því er virðist ekki náðst samstaða í héraði um að taka á málinu og fyrirskipa nauðsynlega vörslu þar sem árekstrar eru milli stórgripa og umferðar. Jafnvel hefur borið á því allra síðustu árin eða frá því að dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem eigandi stórgrips var talinn bera nokkra ábyrgð þar sem um vörsluskyldu var að ræða í viðkomandi sveitarfélagi, að menn hafi fellt úr gildi samþykktir um vörsluskyldu þar sem þær voru komnar á, og það fært fram sem rök að ella kynnu eigendurnir, bændur, að verða bótaskyldir í slíkum tilvikum og það vildu menn ekki að gerðist. Það er því alveg ljóst, herra forseti, að málið hefur ekki þróast með þeim hætti sem vonir voru bundnar við þegar lögin voru sett á árinu 1991. Reyndar á þetta mál sér enn þá eldri aðdraganda í starfi nefndar sem starfaði á árunum 1989--1990 til að taka á þessum vanda og í henni sátu fulltrúar Vegagerðar, Búnaðarfélags, sem þá hét svo, Umferðarráðs og fleiri aðilar. Niðurstaða þeirrar nefndar varð einmitt þessi, að leggja til að lausaganga stórgripa yrði endanlega aflögð þó reyndar hefði einn nefndarmanna fyrirvara á um það atriði.

Eftir sem áður varð niðurstaðan sú við setningu búfjárhaldslaganna 1991 eins og áður sagði að láta á það reyna hvort þetta vandamál leystist í gegnum aðgerðir einstakra sveitarstjórna en það hefur ekki gengið eftir eins og dæmin sýna, og töflur um slys og óhöpp sem sjá má í fylgiskjölum bera með sér.

Þá held ég, herra forseti, að ekki sé um annað að ræða en að horfast í augu við það að vilji menn uppræta þetta vandamál, þá verður að grípa til einhverra frekari aðgerða en gert hefur verið hingað til. Ég held að það geti tæplega verið rök í þessu máli að núverandi ástand sé ásættanlegt. Það er alveg ómögulegt, held ég, að telja að ástandið sé þolandi þegar svo er að árekstrar milli umferðar og búfjár og þá t.d. umferðar og stórgripa eru á bilinu 30--50 á hverju ári undanfarin þrjú ár. Í einhverjum tilvikum öll þessi árin er því miður um mjög alvarlega árekstra að ræða þar sem verður meiri háttar eignatjón og slys ef ekki dauðsföll. Það er ástand sem ekki er ásættanlegt, herra forseti, eins og mjög er í tísku að segja í dag.

Það er líka skoðun mín og væntanlega okkar allra flutningsmanna, herra forseti, að þetta mál sé einmitt af þeim toga sem landbúnaðurinn sjálfur þurfi að reyna að hafa forgöngu um að leysa. Það er ekki í þágu landbúnaðarins að reyna að réttlæta eða verja óbreytt ástand í þessum efnum. Það eru einmitt hnökrar í samskiptum landbúnaðarins og sveitanna og annarra aðila í þjóðfélaginu af þessu tagi sem ekki eru heppilegir og eru ekki til góðs né landbúnaðinum eða búskap til framdráttar í landinu að hlutir af þessu tagi viðgangist.

Það er rétt, herra forseti, að fara örfáum orðum um það af hverju aðgerðirnar eru einskorðaðar við stórgripi en ekki sauðfé eða kindur. Fyrir því eru kannski aðallega tvær ástæður eða tvennt sem mestu skiptir þar. Það fyrra er að árekstrarnir eru miklum mun alvarlegri þegar stórgripir eiga í hlut og yfirleitt eru slys eða meiri háttar tjón bundin við það að um stórgripi er að ræða. Vissulega eru óhöppin þar sem kindur koma við sögu alltíð og hlutfallslega auðvitað fleiri, en í langflestum tilvikum er þar um mjög óverulegt tjón að ræða og ekki alvarlega atburði í þeim skilningi að mikil hætta sé á slysum á fólki eða meiri háttar áföllum af því tagi. Þetta er annað.

Hitt er, herra forseti, að það er allt önnur og miklu stærri aðgerð að fyrirskipa vörsluskyldu eða girða af alla vegi alls staðar í landinu þannig að sauðfé ætti hvergi aðgang að vegum. Þar er um allt aðrar forsendur í raun að ræða og það eru ekki í hugum okkar tillögumanna nein áform uppi, a.m.k. ekki 1. flm., að leggja slíkt til. Ég held einmitt að það að taka á vandanum sem snýr að stórgripunum eigi að geta orðið til þess að frekar viðhaldist sátt um hitt, að menn búi áfram í landinu við þær aðstæður að upprekstur sauðfjár sé stundaður og þá verði að sjálfsögðu ekki undan því vikist að einstöku sinnum geti leiðir umferðarinnar eða bíla og sauðfjár á heiðum uppi legið saman. Það að óbreytt ástand ríki veldur hins vegar þeim núningi, sem ég kom áður inn á í ræðu minni, og er held ég ekki vel til þess fallið að sú sambúð verði farsæl.

[19:00]

Auk þess má nefna, herra forseti, í þriðja lagi og það skiptir miklu máli, að í langfæstum tilvikum er nein umtalsverð röskun á þeim búskaparháttum sem þegar eru tíðkaðir að fyrirskipa vörslu á stórgripum. Lausaganga stórgripa er sárasjaldgæf og upprekstur stórgripa eða hrossa eins og yfirleitt er, er ekki stunduð nema á fáeinum stöðum á landinu og reyndar er vel hægt að hugsa sér að sá upprekstur geti haldið áfram með tilteknum takmörkunum þó að svona vörsluskylda í byggð og vörsluskylda gagnvart vegum eða meiri háttar umferðaræðum væri fyrirskipuð. Eftir sem áður ætti að mega að skilgreina þau upprekstrarsvæði sem væru þannig afmörkuð að ekki hlytist nein teljandi hætta fyrir umferð þó að áfram væri stundaður slíkur upprekstur. Stórgripir eru í vörslu í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella allt árið og það kostar því ekki nema óverulegar breytingar á högum tiltölulega fárra bænda í landinu þó að slík vörsluskylda væri fyrirskipuð.

Þá er enn rétt að nefna að í fjölmörgum sveitarfélögum er nú þegar slík vörsluskylda á grundvelli samþykkta eða reglugerða viðkomandi sveitarstjórna og um það er birt nýlegt yfirlit sem unnið var upp á nýtt og tekið saman af landbrn. þegar endurflutningur þessa frv. var í undirbúningi í janúarmánuði sl. Þetta er vandað yfirlit yfir samþykktir sveitarstjórna um búfjárhald og hvað í þeim samþykktum felst í aðalatriðum og menn geta flett upp þessu í fylgiskjölum á bls. 12 og áfram í frv.

Aðeins einn þátt til viðbótar, herra forseti, vil ég gera lítillega að umtalsefni og það er spurningin um tjón eða bætur og hvernig ábyrgð aðila kann að breytast í þeim tilvikum að vörsluskylda sé við lýði eða hún fyrirskipuð.

Í fyrsta lagi er ljóst að slík vörsluskylda er mjög víða í landinu þannig að að því leyti til verður ekki breyting á bótastöðunni, ábyrgðarstöðunni, þó að þessi lagabreyting yrði gerð. Það ætti eingöngu við um þau svæði þar sem slík vörsluskylda er ekki fyrir hendi nú.

Í öðru lagi er rétt að vekja athygli á því að í vegalögum er núna nýtt ákvæði um það að slík vörsluskylda eða bann við lausagöngu búfjár er fyrir hendi alls staðar þar sem girt hefur verið beggja vegna vega. Þá gildir það nýmæli vegalaganna að lausaganga alls búfjár á þeim vegasvæðum er bönnuð og sömuleiðis í þeim tilvikum verður væntanlega ekki um breytingu á ábyrgðarstöðunni að ræða. Aðeins í þeim tilvikum að í kjölfar lagabreytinga af þessu tagi yrði sú breyting á að eigendum gripa væri fyrirskipuð vörsluskylda, þá kæmu til skoðunar þau tilvik þegar vörsluskyldan væri þannig framkvæmd af ásetningi eða gáleysi að til greina kæmi að skipta ábyrgð á tjóninu. Almenna regla umferðarlaganna, þ.e. 88. gr. umferðarlaga, helst að sjálfsögðu áfram. Sú meginregla er að sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skal bæta tjón sem hlýst af notkun þess. Þessi regla helst að sjálfsögðu áfram. En eins og ég sagði, aðeins í þeim tilvikum að vörsluskylda væri vanrækt eða hún gáleysislega framkvæmd er líklegt að heimild 3. mgr. sömu greinar umferðarlaga, þ.e. 3. mgr. 88. gr., yrði virt. Sú heimild felur í sér þann möguleika að skipta tjóni, þ.e. lækka eða fella niður jafnvel að öllu bætur sem eigandi eða ábyrgðarmaður ökutækisins greiðir samkvæmt venju. Með öðrum orðum, svo fremi sem bændur stæðu eðlilega að því fyrir sitt leyti að framkvæma vörsluskylduna yrðu þeir að sjálfsögðu ekki dregnir til ábyrgðar fyrir tjón sem stórgripir yllu ef um slys eða hreinan óvilja væri að ræða eða að tjónið yrði við aðstæður þar sem með engu móti mætti rekja það til gáleysis eða vanrækslu eiganda gripanna.

Þá er eingöngu eftir þessi spurning: Telja menn ástæðu til að hafa svo mikla samúð með mönnum í þeim tilvikum að ekki megi láta óbreytt ákvæði umferðarlaga um ábyrgð í tjónum gilda? Ég er ekki við fljóta athugun á þessu máli þeirrar skoðunar að nein ástæða sé til að gera breytingar á umferðarlögum í tengslum við lagabreytingu af þessu tagi en segi hins vegar: Telji menn ástæðu til þess er að sjálfsögðu rétt og skylt að fara yfir þann þátt málsins og ég teldi eðlilegt að aðlögunartími að gildistöku vörsluskylduákvæðanna yrði þá nýttur til að endurskoða þessi ákvæði umferðarlaga.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að eftir að frv. þetta kom fram starfaði búnaðarþing í Reykjavík og þar lögðu menn vinnu í að fara yfir frv. og ég átti þess kost að mæta hjá þeirri þingnefnd á búnaðarþingi sem fjallaði um þetta mál. Þar kom fram, án þess að ég ætli að taka að mér að endursegja það eða gefa skýrslu um það, að menn höfðu að sjálfsögðu áhyggjur af stöðu þessa máls en jafnframt voru efasemdir um hvort lögfesting ákvæða af þessu tagi væri rétt eða óumflýjanleg aðgerð eða hvort hugsanlega mætti beita sér gegn þessu vandamáli einhvern veginn öðruvísi. Ég vil því láta það koma hér fram að að sjálfsögðu er ég og við flutningsmenn opin fyrir öðrum hugmyndum sem að sama gagni mættu koma til þess að taka á þessu vandamáli jafnvel þó menn vildu setjast yfir málið á nýjan leik og skoða til hvaða aðgerða væri hægt að grípa, hugsanlega annarra en þessara að taka af skarið með ótvíræðum ákvæðum um vörsluskyldu. En ég verð að segja, herra forseti, alveg eins og er að hitt sætti ég mig heldur illa við að ekki náist einhver árangur í þessu máli og það verði með einhverjum hætti á því tekið.

Ég vil því ljúka með því að segja að ég bind vonir við að Alþingi fyrir sitt leyti taki einhven veginn á þessu máli og komi því í farveg. Það ber vel í veiði að hæstv. landbrh. er viðstaddur umræðuna. Ég vona einnig að þetta mál njóti velvilja og verði skoðað af hálfu landbrn. sem að sjálfsögðu fer með yfirstjórn þessara mála. Þó er þetta í reynd ekki bara vandamál sem snýr að landbúnaðinum. Þetta er samskiptavandamál þessara aðila í landinu og þau eru nú mjög á dagskrá og hafa birst m.a. á hinu háa Alþingi á þessum vetri í ýmsum myndum. Þetta er akkúrat eitt dæmigert mál af þeim toga sem ég held að sé mikilvægt að finna farsæla lausn á þannig að sambúð og samskipti þessara aðila, almennings og umferðarinnar annars vegar, bænda, búfjáreigenda, landbúnaðarins og sveitanna hins vegar séu sem hnökralausust.

Þar sem þessi lög, herra forseti, heyra undir hv. landbn. þá legg ég að sjálfsögðu til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað þangað og vona að það fái þar víðsýna og vandaða skoðun.