Búfjárhald

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 19:12:59 (5137)

1998-03-24 19:12:59# 122. lþ. 93.18 fundur 415. mál: #A búfjárhald# (varsla stórgripa) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[19:12]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þessi svör og þessar upplýsingar. Ég fagna því að það er skilningur á því á öllum vígstöðvum að á þessu máli þurfi að taka. Það er að sjálfsögðu rétt hjá hæstv. ráðherra að það er í breiðu samhengi og kemur inn á verksvið annarra ráðuneyta, samgrn., dómsmrn. og jafnvel fleiri. Ég hafði ekki séð þessa endanlegu samþykkt búnaðarþings en það kemur mér ekki á óvart að menn þar viðurkenni tilvist vandans og séu að reifa mögulegar aðgerðir til að bæta þar úr.

Það er að sjálfsögðu fullkomlega eðlilegt að bændur bendi á Vegagerðina og það hversu seint gengur að girða meðfram vegunum og vilji sjá vandamálið fyrst og fremst leysast í gegnum það að væntanlega verði stórauknu fé varið til girðinga þannig að vegirnir verði þannig girtir af og friðaðir. En við þingmenn vitum hversu hægt það gengur og þekkjum mætavel hvað er til skiptanna í þeim efnum. Það er alveg ljóst að það munu líða ár ef ekki áratugir þangað til búið verður að girða af öll þau svæði þar sem slík vandamál eru af og til að skjóta upp kollinum.

Ég er, eins og ég sagði áður, herra forseti, mjög opinn fyrir því að tekið verði á þessu máli einhvern veginn öðruvísi en nákvæmlega svona. Það er mér ekki hjartans mál heldur hitt að ná þarna árangri. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að heildarendurskoðun þessara laga er á dagskrá og þá verður farið yfir þennan þátt eins og aðra. Ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra komi þá afstöðu sinni og síns ráðuneytis á framfæri við hv. landbn. sem fær þetta mál til umfjöllunar og vonandi einhverrar fyrirgreiðslu. Ég gæti þess vegna prýðilega sætt mig við það, að þeirri umfjöllun aflokinni og eftir að ákveðið hefði verið í samráði ráðuneytis og landbn. hvernig yrði farið í málið, að málinu yrði vísað til ríkisstjórnar eða eitthvað í þeim dúr. Ég er ekki að gera neina kröfu um afgreiðslu þess og get það svo sem auðvitað ekki en mun hins vegar halda því vakandi að málinu sé fylgt eftir.