Búfjárhald

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 19:15:13 (5138)

1998-03-24 19:15:13# 122. lþ. 93.18 fundur 415. mál: #A búfjárhald# (varsla stórgripa) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[19:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka aðeins samstöðu mína með efni frv. eins og ég hafði áður gert og tel nauðsynlegt að taka á þessum málum og trúlega væri ekki óskynsamlegt að gera það með heildarendurskoðun. Ókosturinn við það er auðvitað sá eins og hv. þm. vita, a.m.k. allir þeir sem hér eru saman komnir núna í augnablikinu og væntanlega þingheimur allur, að slík heildarendurskoðun vill oft taka meiri tíma en þegar reynt er að taka á einstökum málum sem brýnt er að leysa. En aðeins til að árétta það sem fram kemur í áliti búnaðarþingsins, að þingið tekur undir þá meginskoðun í ályktun sinni sem fram kemur í frv. að útiloka skuli lausagöngu stórgripa en bendir á vegalögin og þá kröfu sem bændastéttin gerir til þess að tekið sé á málunum með þeim hætti að þetta þýði ekki fyrst og fremst kostnað fyrir landbúnaðinn þar sem gert sé ráð fyrir þessu í öðrum lögum að lausaganga skuli bönnuð. Með leyfi hæstv. forseta, segir m.a. í álitinu:

,,Það er skoðun þingsins að veggirðingar séu hluti af uppbyggingu vegakerfisins og líta beri á viðhald þeirra eins og annað viðhald á vegakerfinu og þingið leggur áherslu á nauðsyn þess að markvisst verði unnið að því að allir þjóðvegir landsins verði girtir tryggilega af.`` Að lokum segir svo þingið, með leyfi forseta: ,,Telur þingið því ótímabært að algert bann við lausagöngu stórgripa verði sett í lög eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.`` Það er auðvitað á þeim forsendum en ekki vegna þess að þeir séu á móti efni frv. að þeir hafa nokkrar áhyggjur af þeim kostnaði sem af því hlýtur að leiða og hverjum beri að greiða fyrir það. Þess vegna er það skoðun mín eins og ég gat um áðan að það þurfi kannski að skoða málið í örlítið víðara samhengi en frv. sem slíkt gerir ráð fyrir.