Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 14:45:00 (5151)

1998-03-25 14:45:00# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[14:45]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Athugasemdir hv. þm. styðjast ekki við nein rök. Auðvitað eru mjög miklir efnahagslegir hagsmunir í húfi en hér verður að horfa á stöðu málsins í heild sinni, hversu langan tíma það hefur tekið og líka hins að langsamlega veigamesti þáttur deilunnar lýtur að breytingum á lagaumhverfi sem sjómenn og útvegsmenn þurfa að búa við og sjómenn lýstu yfir stuðningi við þær tillögur sem sérstök nefnd sem ég setti á fót skilaði fyrir skömmu.

Við verðum líka að hafa í huga í þessu sambandi, sem er grundvallaratriði, að verið er að lögfesta sáttatillögu sem sjómenn höfðu samþykkt en útvegsmenn fellt og verið er að lögfesta tvö atriði þar til viðbótar sem forustumenn sjómanna eru nú sáttir við eins og þeim hefur verið breytt og því er ekki verið að ganga gegn vilja sjómanna í þessu efni. Sáttatillagan sem sjómenn höfðu samþykkt fól í sér að framlengja kjarasamninga og friðarskyldu til 15. febrúar árið 2000. Með nokkrum rökum má segja að verið sé að ganga gegn viðhorfum hins aðilans sem felldi sáttatillöguna en það verður ekki sagt að hér sé verið að ganga gegn þeim viðhorfum sem sjómenn hafa lýst og m.a. staðfest í atkvæðagreiðslu um sáttatillöguna og til þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á frv. eins og það verður þegar hv. sjútvn. hefur tekið tillit til þeirra óska sem hafa verið settar fram.