Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 16:46:44 (5166)

1998-03-25 16:46:44# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[16:46]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég spyrja: Hvar er hæstv. sjútvrh.? Og hvar er hv. formaður sjútvn., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon? Mér finnst lágmark að þessir aðilar séu við umræðuna. Ég fer þess á leit að þeir verði kallaðir hér til.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að þeir eru báðir í húsi og skal gera ráðstafanir til þess að þeir fái óskir hv. þm.)

Ég þakka forseta fyrir. Ég ætla að beina spurningum til hæstv. sjútvrh. --- sem nú gengur í salinn --- og einnig beina ákveðnum tilmælum til formanns sjútvn., en hann hlýðir kannski á umræðuna annars staðar.

Það vill þannig til, hæstv. forseti, að ég á lítinn bróðurson sem er að verða þriggja ára gamall. Og það er mikið gert af því í minni fjölskyldu að kenna honum að þekkja sinn arf frá Vestmannaeyjum og hann syngur alla daga: Skipstjórar kalla, skipanir gjalla, vélarnar emja, æpa og lemja, á haf skal nú haldið til veiða.

Það er einmitt það sem er að gerast í þessu máli að nú á að skipa mönnum til veiða, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Ég hef hugsað mér í máli mínu að beina einkum sjónum að þeim þætti sem snýr að þessari vinnudeilu og því sem er verið að gera í málinu en læt hin frumvörpin þrjú, sem menn ætla að láta sigla hér í gegn í nokkuð góðum friði, liggja milli hluta að sinni, og ég mun ekki hafa mjög langt mál um þetta.

Hæstv. forseti. Mér finnst eins og stjórnvöld hafi ekki fullkomlega áttað sig á því að við lifum í nokkuð breyttu lagalegu umhverfi. Gerðar voru breytingar á stjórnarskránni árið 1995 þar sem m.a. stéttarfélög eru nefnd sérstaklega sem dæmi um frjáls félagasamtök og í 75. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

,,Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.``

Það á að kveða á um það í lögum hvernig að þessu skuli staðið.

Síðan bætast við alþjóðasamþykktir og sáttmálar sem við erum aðilar að og ég ætla að koma síðar að þeim í máli mínu, sem takmarka rétt stjórnvalda til að grípa inn í vinnudeilur og ganga út á það að tryggja rétt stéttarfélaga til að starfa án afskipta og til að semja um kaup og kjör með eðlilegum og frjálsum hætti. Og ég spyr: Hafa íslensk stjórnvöld gert sér grein fyrir því hvað þessar breytingar þýða? Hvernig stendur á því að við erum að upplifa ár eftir ár endalaus afskipti stjórnvalda af kjarasamningum og af umhverfi á vinnumarkaði? Við hljótum að þurfa að spyrja okkur hvernig á þessu standi. Ég vil beina spurningu til hæstv. sjútvrh. Það kom fram í upphafi umræðunnar að hann boðar breytingu á 2. gr. frv. til laga um kjaramál fiskimanna, vegna þess, eins og hann sagði, að menn hafa áttað sig á því að greinin, eins og hún stendur, hefði miklu víðtækari áhrif en menn vilja kannski eða meiningin var. Menn átta sig á því að þarna var of langt gengið. En ég spyr: Var það kannað í undirbúningi málsins hvort þessi íhlutun stenst þá alþjóðasáttmála og samþykktir sem við erum aðilar að? Þá er ég að tala um samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Það hafa margsinnis verið gerðar athugasemdir við framgöngu íslenskra stjórnvalda í málefnum vinnumarkaðarins. Komið hefur fram á alþjóðaþingum og hjá þeim nefndum Alþjóðavinnumálasambandsins sem fara með þessi mál, að íslensk stjórnvöld hafi gengið of langt, séu inni á gráu svæði og hafi gengið of langt. Ég vil meina að hér sé eitt dæmi um slíkt, verið sé að grípa inn í gang mála áður en menn hafa raunverulega verið píndir til að komast að niðurstöðu. Ég er mjög ósátt við að gripið skuli vera svona fljótt inn í, og auðvitað á helst aldrei að grípa inn í vinnudeilur með lögum. En við hljótum að viðurkenna að þegar sjávarútvegurinn á í hlut eru alveg gríðarlegir hagsmunir í húfi. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, bæði útgerðar, sjómanna og fiskvinnslunnar og verkafólks í landi. En hins vegar hefur það gerst trekk í trekk að gripið er inn í deilur sjómanna með lagasetningu og við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna þeir? Hvers vegna eru menn ekki látnir klára sitt verk? Það virðist vera hægt að panta lagasetningu hjá ríkisstjórninni. Þetta er óþolandi ástand á vinnumarkaðnum.

Til að rifja aðeins upp það sem gerst hefur á undanförnum árum í samskiptum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og samtaka launafólks þá minnumst við þess að fyrir tveimur árum voru sett ný lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þvert gegn vilja allra stéttarfélaga opinberra starfsmanna. Ný vinnumarkaðslöggjöf var sett sem kostaði miklar deilur og reyndar var það svo að þegar frv. kom fyrst fram stóð ekki steinn yfir steini. Það var brot á alþjóðasamþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og mannréttindasáttmála Evrópu að mati Lagastofnunar háskólans. Það stóð ekki steinn yfir steini og það varð að breyta nánast hverri einustu grein sem kom frá frumvarpssmiðunum.

Ég minni á Atvinnuleysistryggingasjóð sem menn eru smátt og smátt að átta sig á hversu slæmar breytingar voru gerðar þar. Eða lögin um vinnumarkaðsaðgerðir, sem reyndar hefur ekki mikið reynt á, en ég hef heyrt að verkalýðshreyfingin sé ekki mjög ánægð með framkvæmd þeirra mála. Og nú síðast eru það lög á sjómenn. Það stendur til að setja lög á sjómenn meðan nánast hvert einasta stéttarfélag í landinu hefur gert kjarasamning, frjálsan kjarasamning til tveggja ára, en þá ætlar ríkisstjórnin að sjá til þess að sjómenn búi nauðugir við kjarasamning í tvö ár. Þeir eiga nauðugir að hlýða því að samþykkja kjarasamning.

Það er þessi hlið málanna sem fær mesta athygli, þ.e. sjálf gjörðin. Verið er að svipta sjómenn verkfallsrétti. Það er reyndar líka verið að setja lög á Vinnuveitendasambandið hvað varðar verkbönn. En nú er verið að setja lög á sjómenn og útgerðarmenn meðan öllum öðrum stéttum hefur tekist að semja um kaup og kjör. Við hljótum að spyrja hvað búi þarna að baki.

Við vitum einnig að það eru ekki aðeins kjörin sem um er að ræða heldur allt umhverfi sjávarútvegsins, það fiskveiðakerfi sem hér hefur verið komið á af Alþingi en það ber ábyrgð á þróun þess. Ég ætla ekki að fara út í einstaka þætti þess en mér finnst hafa vantað mikið í umræðuna hvað felst í þessum kjarasamningi. Það er ekkert rætt um það hvað felst í þeim kjarasamningi sem hér á að lögbinda. Eru sjómenn sæmilega sáttir við það sem kveðið var á um í miðlunartillögu sáttasemjara? Það er sáralítið í umræðunni vegna þess að menn segja einfaldlega sem svo: Það eru frumvörpin þrjú sem skipta meginmáli. En við skulum ekki gleyma því að verið er að lögbinda kjör sjómanna til næstu tveggja ára. Eina stéttin sem mun búa við lögbundin kjör og getur ekki sagt upp samningum sínum. Það er hins vegar alveg ljóst að útgerðarmenn eru vægast sagt óánægðir.

Hvað ætla menn að gera? Hvað ætla menn að gera á þessum tveimur árum? Hvað á að gera þegar þessi lög renna út? Á þá að byrja þennan skollaleik upp á nýtt? Hvað ætlar hæstv. sjútvrh. að gera? Ætlar hæstv. sjútvrh. að beita sér eitthvað, nota þennan tíma til að reyna að finna varanlega lausn á þessum deilum? Ég ætla að leyfa mér að draga í efa að þau þrjú frumvörp, sem hér liggja fyrir og eru til umræðu, skapi endanlega lausn á þeim vanda sem sjávarútvegurinn á við að glíma og þeirri togstreitu sem þar er að finna. Ég held að menn verði að hugsa þetta dæmi til enda.

Af máli mínu er væntanlega ljóst að ég er algjörlega andvíg frv. um kjaramál fiskimanna. Eins og ég sagði áðan, tel ég að hér hafi verið gripið of fljótt inn í málin. Ég hef efasemdir um að þetta standist þá alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Það sem ég hef þó einna mestar áhyggjur af er að við skulum ekki vera komin lengra en þetta í okkar vinnumarkaðsmálum, að hér skuli ekki ríkja frjáls samningsréttur og menn verði einfaldlega að komast að niðurstöðu. Ríkisvaldið á ekki að grípa svona fljótt inn í eins og í þessu tilviki.

Frv. um kjaramál sjómanna er að mínum dómi vinnumarkaðsmál. Ég geri ekki athugasemd við að þau mál verði öll skoðuð í heild í sjútvn. En ég fer þess á leit sem formaður félmn. Alþingis að nefndin fái þetta mál til umsagnar. Við munum að sjálfsögðu bregðast skjótt við og það er fundur í nefndinni á morgun. Mér finnst það mjög eðlilegt að við fáum þetta mál til umsagnar sem vinnumarkaðsmál og skoðum það út frá vinnulöggjöfinni og því að hér er verið að setja lög á stéttarfélag. Sú umfjöllun mun ekki verða til þess að tefja gang þessara mála með neinum hætti, en ég held að það hljóti að vera til bóta að fleiri komi að skoðun þessara mála.

[17:00]

Ég ætla að vona að sæmileg sátt takist um hin frumvörpin þrjú sem hér eru til umræðu. Auðvitað er alls ekki fullkomin samstaða eða ánægja með inntak þeirra en þetta er hluti af þeirri lausn sem er verið að reyna að vinna að og eins og hefur komið fram mun stjórnarandstaðan leggja sitt af mörkum til að sjá til þess að þau nái fram að ganga. Ég ætla að gera það að lokaorðum mínum að vonast til þess að ekki komi til þessarar lagasetningar um kjaramál fiskimanna. Sjómenn eiga enn þá einn leik í stöðunni sem gæti komið í veg fyrir að þeir yrðu að búa við nauðungarsamninga næstu tvö árin en það er auðvitað þeirra að kveða upp úr með það hvað þeir gera.

Að endingu minni ég á að mikil reiði ríkir í röðum sjómanna og útvegsmanna eins og heyra má og lesa í fjölmiðlum, ekki síst hjá formanni Sjómannasambands Íslands, Sævari Gunnarssyni, sem kallar þetta valdníðslu, stríðsyfirlýsingu og gerræði og ég held að ekki sé hægt annað en taka undir það. Hér er verið að taka mannréttindi af fólki og koma í veg fyrir frjálsa kjarasamninga. Enn einu sinni í sögu íslenska vinnumarkaðarins er verið að taka verkfallsréttinn af stéttarfélögum og það er auðvitað óþolandi að ekki skuli vera hægt að innleiða betri vinnubrögð og menn verða einfaldlega að ganga í það mál að leysa þær deilur sem að baki búa. Eins og fram hefur komið hafa sjómenn í raun og veru farið margsinnis í verkföll út af sömu atriðunum, út af sömu deilunum og engin finnst lausnin þannig að hér er um stórmál að ræða sem ég held að stjórnvöld hljóti að verða að beita sér fyrir að endanleg lausn finnist á sem snýr auðvitað að fiskveiðistjórnuninni og því máli öllu. Fyrr en sú lausn finnst verða þessar deilur milli útgerðarmanna og sjómanna ekki leystar. Hins vegar eiga þeir auðvitað eftir að deila um kaup og kjör eins og aðrar stéttir í landinu en enn og aftur er ekki ásættanlegt að sjómenn einir stétta skuli eiga að búa við nauðungarsamninga næstu tvö árin.