Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 18:25:12 (5170)

1998-03-25 18:25:12# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, TIO
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[18:25]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Þau þrjú frv. sem eru kennd við þríhöfðanefndina og hér eru lögð fram eru í heild sinni ekki þess eðlis að þau styrki í senn fiskveiðistjórnina, sjávarútveginn og þann afrakstur sem þjóðin hefur haft af nýtingu fiskimiðanna. Það þýðir að til lengri tíma munu þessu frumvörp heldur ekki styrkja stöðu fiskimanna, sjómanna, né heldur þeirra sem vinna hráefnið í landi.

Í fiskveiðistjórnarkerfinu, kvótakerfinu, hefur frjáls framsalsréttur verið grundvallarforsenda þess hve vel útgerðinni hefur tekist að laga sig að þeim erfiðu aðstæðum sem hér hafa ríkt undanfarin tíu ár, á tímabili sem árviss samdráttur hefur orðið í heildarþorskafla fram til ársins 1996. Þessi framsalsréttur hefur í raun verið ein af grundvallarforsendunum sem hafa leitt til þess að íslenskur sjávarútvegur hefur komið sterkari út úr erfiðleikatímabilinu og verður það að flokkast undir einstakan árangur í fiskveiðistjórn og í hagstjórn. Það þarf enginn að fara í grafgötur með það að þeir sem hafa fyrst og fremst notið góðs af þessu eru sjómenn. Þeir njóta góðs af því að útgerðin býr við eðlileg skilyrði til vaxtar. Engir eiga eins mikið undir því og þeir sem njóta launa hjá útgerðinni.

Þessi árangur í fiskveiðistjórn okkar, árangurinn í rekstri útgerðarinnar og í launakjörum sjómannanna hefur ekki farið fram hjá öðrum þjóðum. Það vekur athygli að hér á landi er deilt um hvernig eigi að skila arðinum af nýtingu sjávarauðlindarinnar á meðan um það er deilt meðal Evrópuþjóða hvernig byrðunum af rekstri sjávarútvegsins verði best skipt á herðar skattborgaranna.

Á meðan sjávarútvegurinn innan ESB-landanna svo dæmi sé tekið stendur ekki undir neinni rannsóknarstarfsemi og framlög til hafrannsókna fara minnkandi innan sambandsins þá tekur sjávarútvegurinn á Íslandi þátt í að fjármagna fjárfestingar í rannsóknum. Þannig er nú staðan sem endurspeglar styrkleika sjávarútvegsins á Íslandi miðað við það kerfi sem hefur ríkt og hefur að sjálfsögðu líka endurspeglað sterka stöðu launþega sjávarútvegsins, þ.e. sjómannanna.

Með þeim frv. sem hér liggja fyrir er verið að skerða það frelsi sem hefur verið í viðskiptum með aflaheimildir. Slíkar ráðstafanir er að sjálfsögðu eingöngu hægt að kalla neyðarráðstafanir sem gripið er til í því skyni að leysa kjaradeilu sem engin efni standa til að ætla að deiluaðilar geti sjálfir leyst. Það er nauðsynlegt að þingið gefi sér tíma til að skoða mjög nákvæmlega hvaða áhrif þær breytingar sem í frumvörpunum felast muni hafa á sjávarútveginn, á arðsemi hans og þar með á þau launakjör sem sjávarútvegurinn skapar sjómönnum og landverkafólki, þ.e. á þau verðmæti sem sjómenn og landverkafólk geta sótt í í kjarasamningum sínum.

Það er engan veginn hægt að líta svo á að þessi þrjú frv. sem hér liggja fyrir séu óbreytanleg. Það fer eftir vilja Alþingis hvort þau eru það eða ekki. Ef á þeim eru einhverjir meinbugir sem skapa vanda til skemmri eða lengri tíma, þá ber að lagfæra þá. Eins og ég segi þá liggur það í augum uppi fyrir mér að breytingarnar munu draga úr arðsemi fiskveiða og auka kostnað. Málið snýst því um að lágmarka það tjón sem af breytingunum getur hlotist.

[18:30]

Hugsanlegt er að í þessum frumvörpum séu atriði sem einkum og sér í lagi til lengri tíma muni reynast mjög dýrkeypt fyrir alla aðila. Fyrir útgerðina, fyrir sjómenn og fyrir þjóðina sem nýtur góðs af því með margvíslegum hætti hve sterkur sjávarútvegur er rekinn hér. Meðal þess sem ég sé sérstaka ástæðu til að gjalda varhug við eru ákvæði í frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Í 1. gr. frv. er veiðiskylda fiskiskipa aukin frá því að vera 50% aflamarks annað hvert fiskveiðiár eins og nú er, en í frv. er kveðið svo á um að veiðiskyldan skuli vera 50% á hverju fiskveiðiári. Viðurlög eru ærið ströng, því ef minna veiðist fellur veiðileyfi skipsins og aflahlutdeild niður og rennur til annarra skipa. Gerist slíkt er óheimilt að veita skipinu leyfi til að veiða í atvinnuskyni næstu þrjú fiskveiðiár. Þar með glatast rúmmetratala skipsins og verður þá útgerðaraðilinn að kaupa sér úreldingu fyrir nýju skipi. Hér eru á ferðinni ærið ströng viðurlög og verður ekki hjá því komist að benda á að viðurlög af þessu tagi eru hvorki réttlætanleg né í neinu samræmi við þær aðstæður sem útgerð býr við á Íslandi. Margs konar veiðar eru hér stundaðar með þeim hætti að vertíð stendur afar stutt. Á það t.d. við um loðnu og innfjarðarrækju. Skakkaföll sem útgerðir verða fyrir, svo sem bilanir á skipum eða aflaleysi, geta haft afgerandi áhrif á hve mikið tekst að veiða af úthlutuðum aflaheimildum.

Það er óhjákvæmilegt að skoða þetta ákvæði af mikilli nákvæmni. Hugsanlegt er að sú leið sem farin er í frv. sé óframkvæmanleg og óæskileg og hægt væri að finna aðrar æskilegri leiðir. Ég nefni það sérstaklega að veiðiskylda verði í raun óbreytt en að heimildir til framsals innan ársins verði þrengdar. Slík nálgun við þennan vanda hefði yfir sér allt annað yfirbragð og væntanlega ekki eins alvarlegar afleiðingar í för með sér né heldur tjón, eins og ákvæði frv. eru nú.

Um áhrif Kvótaþings á sjávarútveginn á Íslandi er erfitt að segja. En mér þykir þó ekki ólíklegt að samanlögð áhrif Kvótaþingsins og aukinnar veiðiskyldu á útgerðarmunstrið á Íslandi verði í þá veru að þær breytingar sem hér um ræðir leiði til þess að samþjöppun verði í útgerð og heimildir færist á færri hendur. Því þykir mér ekki ósennilegt að það sem við höfum verið að reyna að forðast með því að setja sérstök lög gegn samþjöppun aflaheimilda muni nú gerast og ýtt verði undir þá þróun með því sem hér er verið að leggja til.

Einnig er hætt við því að ef ekki tekst vel til með Kvótaþingið muni það leiða til þess að arðsemi í fiskveiðum minnki og að dregið verði úr sérhæfingu. Allt eru þetta atriði sem full ástæða er til að hafa þungar áhyggjur af.

Ég kem nú að lokum að því frv. sem hér hefur verið lagt fram um kjaramál fiskimanna. Að sjálfsögðu er ærið hastarlegt að þurfa að grípa inn í kjaradeilur með lagasetningu, eins og þó hefur oft orðið að gera á Íslandi. Þegar slíkt er gert er það hins vegar undirstöðuatriði að reyna að gæta jafnvægis í aðgerðum. Eitt af erfiðari deilumálum sem staðið hafa milli útgerðarinnar og sjómanna varðar það hvernig fara skuli með ef fækkað er í áhöfnum skipa, einkum og sér í lagi ef innleiddar eru nýjungar í tæknimálum sem leiða til þess að hægt er að komast af með færri í áhöfn. Þessi deila hefur staðið nokkuð lengi og ekki hefur tekist að leysa hana í viðræðum milli aðila. Þegar tekið er tillit til þess sem nú er verið að tala um, að þær breytingar sem gert er ráð fyrir í 2. gr. í frv. til laga um kjaramál fiskimanna nái einungis til rækjuflotans, er löggjafinn í raun að ákveða að deilumál, sem mjög brýnt er að aðilar leysi með samningum, verði ekki leyst næstu tvö árin. Það er tekið á málefnum rækjuflotans en ekki er tekið á málefnum annarra útgerða og þau mál verða þá væntanlega ekki til skoðunar meðan gildistími laganna er.

Ég held að rétt sé að menn velti því fyrir sér hvort hér er á ferðinni mál sem eingöngu varðar hagsmuni útgerðarinnar og hvort einsýnt sé að sjómenn hafi ekki hag af því að ná samningum við útgerðina sem byggjast á því að ekki verði kostnaðarauki fyrir útgerðina að innleiða nýjungar í fiskveiðitækni. Ég hef fulla samúð með því sjónarmiði útgerðarinnar að nýjungar í tækni í fiskiskipaflotanum eigi ekki að leiða til kostnaðarauka fyrir útgerðina. Ég hef fulla samúð með þessu sjónarmiði og leyfi mér að halda því fram að sjómenn eigi líka hagsmuna að gæta í því að það leiði ekki til kostnaðarauka fyrir útgerðina að innleiða tækninýjungar og framfarir í fiskiskipaflotanum. Ef menn halda sig stíft við það að útgerðin verði að greiða sérstaklega fyrir að innleiða tækninýjungar í flotanum er í raun verið að leggja stein í götu þess að flotinn verði endurnýjaður, að skipin og sú tækni sem notuð er við fiskveiðarnar verði endurnýjuð. Með öðrum orðum, verið er að leggja stein í götu þess að sjávarútvegurinn á Íslandi verði samkeppnishæfur við sjávarútveg annarra ríkja eins og hann er best tæknivæddur. Er þarna einungis um að ræða hagsmunamál útgerðarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Langtímahagsmunir sjómannanna liggja einnig í því að tækniframfarir í sjávarútveginum verði sem mestar og útgerðin hafi burði til að geta keypt sér þá tækni sem best er á hverjum tíma. Ég held þess vegna að með því að verða við kröfu sjómanna um að þetta mál verði ekki í þeim farvegi sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir, sé verið að draga stórlega úr líkunum á því að íslenskur sjávarútvegur verði tæknilega séð samkeppnisfær við sjávarútveg nágrannaríkjanna, en það þýðir að sjálfsögðu að almennt í samkeppninni við sjávarútveg nágrannalandanna munum við geta farið halloka. Þetta eru alvarleg tíðindi, ekki aðeins fyrir útgerðarmenn heldur einnig fyrir sjómannastéttina.

Ég held því að menn verði að huga að því hvort ekki hafi verið seilst helst til langt í þeim breytingum sem farið hefur verið fram á við hæstv. sjútvn. að gerðar verði á 2. gr. frv. Þetta vildi ég láta koma fram til að það færi ekkert á milli mála, að sá sem hér stendur hefur fullan skilning á þeirri kröfu útgerðarinnar að nýjungar í tæknimálum eigi ekki að leiða til kostnaðarauka fyrir útgerðina.

Ég vil að lokum taka það fram enn einu sinni að ég lít á framlagningu þessara frumvarpa sem algert neyðarúrræði og harma að ekki skuli hafa tekist að ná samkomulagi um þau deilumál sem staðið hafa milli útgerðarmanna og sjómanna.