Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 20:30:53 (5175)

1998-03-25 20:30:53# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[20:30]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það liggja mörg álitamál fyrir í þeirri umræðu sem hér á sér stað og fjallar um lausn deilu útgerðarmanna og sjómanna. Það er alveg ljóst að mínu mati að með þeim breytingum sem gerðar eru samkvæmt fyrirliggjandi frumvörpum skapast æðimargir óvissuþættir sem menn sjá ekki fyrir endann á. Það endurspeglar kannski fyrst og fremst þá stöðu sem er uppi og hefur verið um nokkurra ára skeið þar sem sívaxandi óvissu hefur gætt í öllu er lýtur að sanngirni í fiskveiðistjórn, þar sem totryggni hefur farið vaxandi, alið hefur verið á tortryggninni að sumu leyti og að öðru leyti hafa menn ekki borið saman bækur eins og skyldi að mínu mati. Það var löngu tímabært að taka þessa óöruggu umfjöllun fyrir úti í þjóðfélaginu, í sjávarplássunum og annars staðar í landinu, og reyna að komast til botns í þeirri stöðu sem mismunandi hagsmunir í útgerð, hjá sjómönnum, í byggðum og landsfjórðungum hafa valdið. Deilan hefur staðið um mismunandi hagsmuni. En nú hefur dampurinn sprungið og þó svo að reynt sé að leysa málin með þjóðarhagsmuni í huga er síður en svo friður um málið.

Það verður líka að segjast eins og er að gengið hefur verið ótrúlega langt að útgerðinni í landinu með þeim frumvörpum sem nú liggja hér fyrir. Það hefur verið gengið mjög langt til móts við kröfur forustumanna sjómanna. Ég segi forustumanna sjómanna vegna þess að í mörgum tilvikum eiga sjómenn ekki samleið í þessum efnum frekar en öðru er nefna mætti í sambandi við fiskveiðistjórnina. Þar eru slíkir mismunandi hagsmunir í húfi að ekki er hægt að ætlast til þess að menn tali um samleið heildarinnar.

Það hefur nánast verið gengið að útgerðinni á bjargbrúninni eða á borðstokknum og í mörgum tilvikum hangir útgerðin nú utan á borðstokknum í óvissu um frekara framhald í þeim rekstri sem hún hefur staðið í undanfarin ár og áratugi og er burðarás okkar samfélags. Að þessu leytinu til er það jafnt óhagur sjómanna sem útgerðarmanna að slíkir óvissuþættir skuli vera til staðar. Það getur ekki þjónað hagsmunum sjómanna að kippa grundvelli undan mörgum þáttum útgerðarinnar og kannski þeim þáttum sem hafa verið hvað mest til fyrirmyndar í útgerð á Íslandi, þ.e. einyrkjaútgerðinni, útgerð fjölskyldunnar sem hefur orðið að standa ábyrg fyrir sínu en ekki verið í neinum fléttum út og suður í einingum sem kunna að vera ágætar að vissu marki. Máttinn dregur fyrst og fremst úr best reknu útgerðum landsins sem eru einstaklingsútgerðirnar. Það eru útgerðirnar sem byggja á því að menn vita hvar þeir standa, vita hvað þeir hafa og vita hvað þeir mega og taka auðvitað eðlilega áhættu eins og fylgir allri veiðimennsku en fara sjaldnast yfir strikið í þeim efnum. Þetta er nú það sem hefur verið burðarásinn í íslenskri útgerð og því miður verður að segja það eins og er að þessi frv. sem hér liggja fyrir ganga á hlut þessa öryggis í þjóðarbúskapnum.

Það má nefna ákveðin dæmi. Til að mynda er eitt atriðið í frumvörpunum algjör frágangssök að mínu mati, þ.e. veiðiskyldan sem er óháð bilunum eða frátöfum sem hljóta að teljast eðlilegar. Þetta er eitt af því sem þarf að lagfæra í þeim frv. sem hér liggja fyrir því að auðvitað gengur ekki að bátur sem dettur út úr veiði í einhverja mánuði vegna vélarbilunar eða annarra óviðráðanlegra orsaka, tapi veiðirétti í allt að þrjú ár eins og reiknað er með við ákveðnar kringumstæður í uppsetningu málanna. Maður verður að ætla að þarna sé frekar um misskilning að ræða eða mistök heldur en uppsetningu sem er sett fram með fullri vissu um að hún sé sú eina rétta.

Ýmis áhyggjuefni tengjast Kvótaþinginu sem er eitt af því sem gengur til móts við kröfur forustumanna sjómanna. Við getum tekið dæmi af útgerð sem hefur á undanförnum árum lagt mikið upp úr humarvinnslu og hefur aflað sér nokkurs humarkvóta. Við skulum taka Borgey á Hornafirði sem dæmi. Nú þarf þetta fyrirtæki að láta ákveðinn hluta af sínum kvóta á kvótamarkað vegna þess að ekki er mögulegt fyrir fyrirtækið að veiða humarinn á þeim bátum sem það hefur til veiðanna. Þessi umframhumarafli hefur verið veiddur með því að fá aðra til að veiða hann en nú gengur það ekki upp lengur og fyrirtækið þarf að fara í samkeppni við sjálft sig, má segja, um að kaupa eigin kvóta á Kvótaþingi. Þetta eru auðvitað agnúar sem menn staldra við og eru vissulega áhyggjuefni vegna þess að í ýmsum tilvikum mun þetta væntanlega leiða til samdráttar í útgerðinni, þ.e. samdráttar í störfum og það er ekki síður áhyggjuefni fyrir sjómenn en aðra sem hlut eiga að máli.

Sjónarmið útgerðarmanna varðandi það þegar hlutaskiptunum er breytt eins og gert er ráð fyrir er líka skiljanlegt. Hlutur skipstjóra á tíu manna netabát er t.d. 200 þús. kr. en ef áhöfnin væri sjö menn þá færi hlutur skipstjórans í 250 þús. kr. Þá spyr maður auðvitað hvort skynsamlegt og eðlilegt sé að ætlast til þess að útgerðin greiði bæði hærra kaup og þróunarkostnaðinn við að skapa þær aðstæður að færri menn þurfi í skipshöfn. Þetta er eðlilegt og engin ástæða til að loka augunum fyrir því. Þetta skiptir mestu máli varðandi tekjur yfirmanna á flotanum en mun minna máli hjá undirmönnum. Það verður líka að segjast eins og er að það var alveg rétt hjá Kristjáni Ragnarssyni, formanni útvegsmanna, að furða sig á upphrópunum forustumanns sjómanna sem voru úr takti við allt sem heitir eðlilegt, meðan það mál gekk allt yfir í fjölmiðlum.

En það undirstrikar kannski líka þann vanda sem hefur verið um árabil í kjarasamningum sjómanna að samstaða sjómanna hefur verið mjög út og suður, þ.e. sjómanna og yfirmanna, hvort sem er skipstjórnarmanna eða vélstjóra. Allt ber þetta að sama brunni að það er ekki mikill hryggur í þeirri vinnu sem hefur verið lögð fram. Hún er frekar hrygglaus. (SJS: Hrygglaus? Ekki hryggileg?) Þetta er síður en svo gamanmál því það er ömurlegt til þess að vita og ömurlegt að horfa upp á það að ár eftir ár skuli sjómenn og útgerðarmenn ekki geta náð samningum um þau ágreiningsmál sem eru þar uppi.

Það ber að fagna þeim þáttum sem taka af allan vafa um mörg atriði sem hafa verið mjög umdeild í fiskveiðistjórninni. En höfuðvandinn og það sem er áhyggjuefni er einmitt það sem er andstætt einyrkjanum, þ.e. þegar ætlast er til þess að menn hópi sig saman og eru þvingaðir til þess að fara í eitthvert samflot sem er líka andstætt hefð og stíl íslenskrar útgerðar. (SJS: Til höfuðs einkaframtakinu?) Það er engin spurning að það er rétt ábending hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þessi aðferð er að hluta til andstæð einkaframtakinu og er því ekki skrýtið að hv. þm. skælbrosi í allar áttir því að hluta til er þetta miðstýring og forsjárhyggja sem hefur lengi staðið hjarta þingmannsins mjög nálægt. (SJS: Hver flytur frumvarpið?) Ég er hér að segja mína skoðun og stend við mína skoðun og þarf enga forsjárhyggju í þeim efnum. Það er verið að hvetja menn í einyrkjaútgerðinni til þess að draga saman seglin í sjálfstæði sínu og eins og ég sagði áðan í fyrirmyndarútgerðum landsins þar sem braskið hefur verið minnst og fyrirhyggja þeirra sem hafa reynsluna, þekkinguna og brjóstvitið hefur verið mest.

[20:45]

Herra forseti. Það er skammt hugsað hjá þeim forustumönnum sjómanna sem hafa krafist þeirra þátta sem nú stefnir í að verði lögfestir og þess mun ekki langt að bíða, að mínu mati, að marga þætti í þessari þróun verði að taka upp aftur og endurskoða mjög alvarlega. Þetta er kannski vegna þess stjórnleysis sem hefur átt sér stað á ákveðnum stigum samningagerðarinnar hjá samningsaðilum. Það er kannski hluti af uppsöfnuðum vanda, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, að menn eru orðnir langþreyttir á þessum mikla innri þrýstingi og óvinveitta vinnuumhverfi því auðvitað er það ekki spennandi vinnuumhverfi, hvorki fyrir útgerðarmenn né sjómenn, að eilífur ófriður ríki á þeirra vettvangi um kjaramál og um fyrirkomulag fiskveiða og stjórn. En því miður er enginn einn sannleikur til í þessum efnum vegna hinna mismunandi hagsmuna sem ríkja.

Ég tel það mjög sanngjarna kröfu til stjórnvalda að í framhaldi af þeirri lagaafgreiðslu sem hér stefnir í muni stjórnvöld landsins standa fyrir úttekt á stöðu einyrkjaútgerðarinnar. Það er grundvallaratriði að mínu mati ef nást á einhver sátt um þennan þátt, þennan veikasta hlekk í óformlegu samkomulagi ríkisstjórnar og forustumanna sjómanna sem liggur fyrir, að tekið sé á þeim þætti er lýtur að útgerð einstaklinganna. Það er alveg ljóst að sá hluti útgerðarinnar sem hefur haft takmarkaðan kvóta, hefur leigt kvóta eða veitt með aðferðinni tonn á móti tonni, mun mjög eiga undir högg að sækja og annaðhvort er það forustumanna útgerðar í samvinnu við stjórnvöld eða lánastofnana landsins ekkert síður að hafa frumkvæði að því að gera þessa úttekt og beita þá aðgerðum til að styrkja einstaklingsútgerðina á ný. Það er ekki bara að margir útgerðarmenn í einstaklingsútgerðinni muni glíma við mikinn vanda heldur er alveg ljóst að hluti þeirrar útgerðar mun leggjast af. Það er einn óvissuþátturinn sem er erfitt að horfa fram hjá og sjá ekki hvert stefnir í þeim efnum.

Það er auðvitað líka hluti af þessu óvinveitta umhverfi þeirra sem stunda útgerð á Íslandi og leggja grundvöllinn að öllum þeim búskap sem við erum að baksa við frá degi til dags í okkar landi, öllum þeim mönnum hvort sem það eru útgerðarmenn eða sjómenn, að það er óeðlilegt að vinnuumhverfi þeirra sé ekki í farsælli farvegi en nú er. Dæmi: Ef útgerðarmaður ætlar að taka kvóta á leigu og vill staðgreiða kvótann til að mynda, þá á að rannsaka hvort hann sé borgunarmaður fyrir kvótanum. Þetta er auðvitað nokkur einföldun en málið er engu að síður sett svona upp. Að sumu leyti væri miklu hreinlegra að ganga til enda í þessum efnum og þjóðnýta einfaldlega útgerðarmanninn ef hann á að vera eitthvert handbendi opinberrar fyrirhyggju. Ég held nefnilega að það sé alveg ljóst að opinber útgerð, t.d. sveitarfélaga, hefur reynst illa á Íslandi, alls staðar nema á einum stað. Þar hefur hún gengið vel og það er á Neskaupsstað. En þar hefur hún líka verið rekin á allt öðrum forsendum. Hún hefur verið rekin sem einkafyrirtæki. (Gripið fram í: Á Akureyri líka.) Á Akureyri var hlutdeild bæjarins allt upp í tveir og hálfur milljarður í Útgerðarfélagi Akureyrar. Nú hefur þessi hlutur lækkað um líklega 70% eða 80%. En hvað var Akureyri að gera á þessum tíma þegar hún átti svo stóran hlut í Útgerðarfélagi Akureyrar? Akureyri var að greiða niður af eigin tekjum vinnu fólksins á Akureyri nákvæmlega eins og Bæjarútgerð Reykjavíkur gerði á sínum tíma áður en það fyrirtæki var einkavætt. Þetta eru fordæmin sem við eigum að læra af og taka mið af ef við ætlum að skila árangri í eðlilegu umhverfi sjávarútvegs á Íslandi. Það getur ekki verið á neinn hátt hvetjandi fyrir menn að taka þátt í atvinnulífi ef gefið er út frjálst veiðileyfi á þá í raun og veru með persónuníði og illu umtali alla daga ársins. Það hlýtur að hrekja athafnamenn eins og aðra úr því umhverfi sem þeir hafa valið sér að vinna í. Og það getur ekki verið hagur sjómanna þegar til lengri tíma er litið að þetta umhverfi sé andstætt vinnuveitendum þeirra því það mun líka draga tennurnar úr sjómönnunum sjálfum. Þetta er vandinn við það að leysa slíkar deilur sem nú eru með lagakrókum. Í þessum lagakrókum hefur verið beitt með beitu sem forustumönnum sjómanna þóknast betur en útgerðinni og það er ekkert undarlegt þótt þungt sé í útgerðarmönnum í þeirri stöðu sem nú er.

Ég hef sagt og stend við það sem mína skoðun að heldur meira megi reyna á þolrifin í útgerðarmönnum en sjómönnum. Ég sný ekki í land með það. Engu að síður verður maður að gæta allrar sanngirni og þarna eru menn á ystu mörkum. Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því og vera ekkert að fela það heldur tala um það tæpitungulaust því hyggilegast er að lúra ekki á neinu í þeim efnum.

Uppi eru áform um endurmenntun sjómanna og það er af hinu góða. En eftir því sem ég best veit er hugmyndin að skapa eins konar endurmenntunarskóla í Reykjavík. Af hverju á hann að vera í Reykjavík? Af hverju getur endurmenntunin ekki farið fram með námskeiðum á landsbyggðinni? Það yrði ódýrara fyrir útgerðirnar, hentugra fyrir sjómennina og skynsamlegra fyrir allan framgang málsins að skipuleggja þann þátt þannig að hann verði sem næst þeim stað sem vinnan er.

Það á að vera hvetjandi fyrir útgerðarmenn að þróa skipin, vélvæða þau og skapa sem mestan arð og mesta möguleika í hverju skipi. Þess vegna hefur fækkað í áhöfnum t.d. með því að kaupa lagningarkarla í netabátana og ná þannig bæði hærri launum fyrir sjómennina og meiri nýtingu í fjárfestinguna sem er tækið sjálft, báturinn. Svo koma ýmsar lokur inn í. Ef til að mynda níundi maðurinn fer um borð í bát þá þarf aukaklósett þannig að margar eru nú girðingarnar sem þarf að stökkva yfir og reglugerðirnar. Auðvitað er því málið flókið og snúið. Þau eru ekkert mörg atriðin sem eru mjög athugunarverð í þessu en þau vega þungt.

Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. hvort ekki sé ætlun ríkisstjórnarinnar að í kjölfar þeirra lagafrv. sem til umræðu eru, miðað við að þau verði afgreidd, að gera ítarlega úttekt á þeirri breytingu sem verður á aðstöðu og möguleikum einyrkjanna, einstaklingsútgerðarinnar, með það fyrir augum að grípa til aðgerða sem geta styrkt útgerðirnar, einyrkjana, í gegnum þær breytingar sem nú er verið að leiða í lög. Þetta held ég sé lykilatriði í því að skapa frekari sátt um málið hjá þeim sem mest á hallar í þessum málatilbúnaði. Það er alveg ljóst að sumar útgerðir munu freista þess að kaupa aukinn kvóta, þ.e. þær sem hafa verið með leigukvóta eða veitt tonn á móti tonni. Aðrar geta það ekki nema þá með aðgerðum og skoðun mála. Þessi tvö atriði hljóta allir að vera sammála um. Tryggja í fyrsta lagi að eðlileg frávik í veiðum svo sem eins og vélarbilun eða annað sem kann að koma upp, muni ekki þýða veiðibann og hins vegar að menn horfi til þess að hér er ekki verið að leggja á borðið nein tíu boðorð sem eiga að duga um aldur og ævi. Hér er verið að leggja á borð mannanna verk sem eru lögð fram undir miklum þrýstingi, þrýstingi sem að sumu leyti er vanhugsaður, þrýstingi sem forustumenn sjómanna hafa sett fram, en sem tryggir ekki eðlilega þróun og stöðu sjómanna í náinni framtíð í mörgum þáttum veiðimennskunnar.

Að mínu mati þarf fyrst og fremst að leggja áherslu á þessa þætti í vinnslu frumvarpanna og ég ítreka fyrrgreindar spurningar til hæstvirtra ráðherra.