Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 21:03:37 (5177)

1998-03-25 21:03:37# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[21:03]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Um endurmenntunarþáttinn í lagagerðinni er nákvæmlega þetta sagt : ,,Nánar verður getið um aðferð og staðsetningar.`` Það er sem sagt óljóst hvernig það verður.

Ég hef aldrei verið að abbast út í Reykjavík sem höfuðborg landsins og að ákveðinn búnaður sem er hagkvæmt að staðsetja í Reykjavík sé staðsettur þar. En það er mikill misskilningur að ástæða sé til þess að byggja upp aðstöðu endurmenntunar fyrir sjómenn í Reykjavík út á tækjabúnað. Þessar fullkomnu brýr í skipum eru úti um allt land og ef þessir hlutir eru skipulagðir má til að mynda ætlast til þess að enda þótt viðverutími þessara skipa í höfnum landsins sé stuttur sé ekkert á móti því að semja við viðkomandi aðila um að þar fari endurmenntunarkennslan fram sem þarf að gera í brúm skipa og með þeim tækjabúnaði. Það þarf ekki að setja það á skrifstofu, hvorki á Akureyri, Egilsstöðum eða Hornafirði eða hvar sem er. Endurmenntunarþátturinn er þess eðlis að hann getur allur farið fram úti á landsbyggðinni í sjávarplássunum, það segir sig sjálft. Þeir hermar sem eru til staðar til að mynda á Norðurlandi eystra, í Vestmannaeyjum og Reykjavík eru allt sambærileg tæki, tölvutæknin í þessum efnum er slík að sumir þeirra herma sem voru fullkomnir fyrir nokkrum árum eru úreltir í dag. Menn geta farið í tölvuna heima hjá sér og náð nákvæmlega sömu markmiðum og hermarnir gefa í dag. Við skulum bara horfast í augu við það eins og það er að möguleikarnir liggja í þessu hvar sem er á landinu.