Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 21:47:43 (5183)

1998-03-25 21:47:43# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[21:47]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Margt var skynsamlegt í máli hv. þm. eins og oft áður, sérstaklega þar sem hann benti réttilega á að verið væri í lausn málsins að búa til tvær ríkisstofnanir. Það hefur oft áður þótt nauðsynlegt að búa til nýja ríkisstofnun í sambandi við sjávarútveg og er skýrasta dæmið um það svonefnd Fiskistofa, sem var ekki stór í sniðum þegar hún var stofnuð og sagt að hún yrði aldrei mjög stór. En viti menn, á fáeinum árum hefur hún blásið út þannig að starfsmenn eru á annað hundrað. Hún er staðsett í Reykjavík.

Ég er eiginlega alveg viss um að ef Fiskistofa hefði verið staðsett utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. á Akureyri, þá væri hún ekki með á annað hundrað manns, hún væri kannski með 20--30 manns. Það er nefnilega mjög gott ráð fyrir þá sem vilja aðhald og sparnað í ríkisbúskapnum að staðsetja nýjar ríkisstofnanir úti á landi.

Ég vil beina fyrirspurn til hv. þm. Péturs Blöndals: Mun hann styðja tillögu mína um að þær tvær nýju ríkisstofnanir, ef Alþingi samþykkir að koma þeim á laggirnar, verði staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins? Ég hef að vísu ákveðinn stað í huga en ég ljóstra því ekki upp að sinni.