Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 21:50:12 (5185)

1998-03-25 21:50:12# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[21:50]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér hefur verið farið allítarlega yfir efnisatriði þessara frv. og er í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta þegar talsvert er liðið á umræðuna. Það er þó eitt atriði sérstaklega sem ég ætla að gera að umtalsefni í máli mínu og það er 3. gr. frv. um kjaramál fiskimanna. Ég hlýt í framhaldi af því beina nokkrum spurningum til hæstv. sjútvrh. um þetta mál.

Ég hef heyrt þingmenn velta því fyrir sér hvernig á því stendur að aldrei er hægt að ná kjarasamningum um kjör sjómanna. Aftur og aftur hefur það gerst á undanförnum missirum að menn hafa talið sig nauðbeygða til að leysa hlutina á annan hátt. En að sama skapi hafa menn kannski ekki velt því fyrir sér sem skyldi hver ástæðan er fyrir þessu. Að nokkru leyti kom ástæðan fram í máli hv. síðasta ræðumanns áðan, hv. þm. Péturs Blöndals. Ástæðan er að nokkru leyti sú að verðið á fiski hefur verið misjafnt til sjómanna eins og menn þekkja. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst sú að ríkjandi er ósætti um fiskveiðistjórnarkerfið í landinu. Það er vegna þess að menn eru að takast hart á um mjög mikil verðmæti sem ósætti er um hvernig á að skipta. Það er af þeim ástæðum sem ekki hafa náðst samningar um kaup og kjör.

Þetta hefur orðið til þess að sú deila, sem staðið hefur að undanförnu, hefur magnast upp svo að segja með hverjum einasta degi og satt að segja hefur maður heyrt í fjölmiðlum, aðallega af hálfu talsmanna útgerðarinnar, óvenjuleg fúkyrði um hinn samningsaðilann, sem ég ætla ekki að hafa eftir úr þessum virðulega ræðustól.

Fyrir nokkru ætlaði ríkisstjórnin að grípa inn í þessa deilu með því að setja lög um gerðardóm, sem átti að kveða upp úrskurð um kjarahluta deilunnar. Stjórnarandstðan stöðvaði það frv., sat undir alveg gífurlegri gagnrýni af hálfu stjórnarliðsins fyrir það, bæði úr Framsfl. og Sjálfstfl., einkum reyndar af hálfu hæstv. forsrh., sem veittist að stjórnarandstöðunni í sambandi við það mál. Og það er ástæða til að rifja það upp vegna þess að það hefur verið notað, af hálfu stjórnarflokkanna og aðallega hæstv. forsrh., til að tefja það að eðlilegar umbætur gætu náð fram að ganga á þingsköpum Alþingis. Það hefur í rauninni verið settur þverbiti fyrir það af hálfu stjórnarflokkanna, eftir þessa niðurstöðu, að hægt væri að vinna eðlilega að nauðsynlegum og óhjákvæmilegum endurbótum á þingsköpum Alþingis. Þetta sýnir auðvitað hvað þessi deila er hörð og hvað þetta mál er allt erfitt að hæstv. ríkisstjórn skuli, mér liggur við að segja, leyfa sér að haga sér með þeim hætti sem hæstv. forsrh. hefur gert í þessu sérstaka máli.

Stjórnarandstaðan stöðvaði þetta mál á sínum tíma og það varð til þess að menn héldu áfram viðræðum. Niðurstaðan var sú að menn fóru ótrúlega langt með viðræður. En herslumuninn vantaði alltaf á að menn næðu í land.

Niðurstaðan varð síðan sú að þessi frv. voru samin og voru þau kynnt stjórnarandstöðunni í Stjórnarráðinu í gærmorgun og þá var látið í veðri vaka af hæstv. ríkisstjórn að þetta væru fullkomin og í rauninni algóð frv. og alveg ástæðulaust að breyta þeim. Farið var fram á það við stjórnarandstöðuna í gær að málin yrðu tekin á dagskrá í gær. Því var hafnað af stjórnarandstöðunni vegna þess að menn vildu fá að ræða við hagsmunaaðila um málið. Og viti menn, sú töf sem aftur var kennd stjórnarandstöðunni varð til þess að laga málið og bæta það. Ég er alveg sannfærður um að ef menn hefðu gefið sér aðeins lengri tíma hefði verið hægt að þoka þessum málum jafnvel enn þá lengra áleiðis.

Í stuttu máli sagt verður auðvitað að viðurkenna það, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur haldið illa á þessu máli. Hún ber að miklu leyti ábyrgð á því hvernig deilan hefur þróast.

Það kemur líka fram í ummælum þingmanna stjórnarflokkanna, að hver á fætur öðrum sem talaði í dag t.d. hv. þm. Árni Johnsen, hv. þm. Tómas Ingi Olrich, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og Pétur Blöndal, hafa gagnrýnt þetta frv. mjög harðlega og þessi frv. öll sem hér eru til meðferðar og alla málsmeðferðina eins og hún leggur sig. Hv. þm. Pétur Blöndal heldur því fram að málið sé svo slæmt að það minni ekki á neitt annað en hin gömlu Sovétríki, en segir þó að það sé ill nauðsyn. Með öðrum orðum að sovétkerfið hafi verið ill nauðsyn, og það er nokkuð athyglisverð niðurstaða hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, 16. þm. Reykv.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að greinilega er enginn sáttur við málið, það er enginn sáttur við málið eins og það er. Við höfum í okkar þingflokki, Alþb. og óháðra, lýst því yfir af okkar hálfu að við munum eindregið greiða götu þessara þriggja mála vegna þess að þau eru hluti af niðurstöðu sem sjómenn felldu sig við þegar þeir studdu miðlunartillöguna. Þannig að okkar afstaða í þeim efnum liggur út af fyrir sig alveg fyrir.

En hitt er alveg ljóst að frv. um kjaramál fiskimanna er algerlega óalandi og óferjandi, það verður að segjast eins og er. Við munum greiða atkvæði á móti því. Það er ekki einu sinni hægt að sitja hjá um mál af þessu tagi. Það sem veldur þar mestu er 3. gr., 5. gr. og 2. gr. jafnvel þó að henni verði breytt. Það er því bersýnilegt að þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þessi mál hljóta okkar þingmenn að beita býsna mikilli ákveðni í afstöðu sinni.

Ég vil áður en ég kem að 3. gr. aðeins víkja nánar að 1. gr. frv. og benda á hvað hún er í rauninni sérkennileg, því að hér segir, með leyfi forseta: ,,Efnisákvæði miðlunartillagna þeirra sem ríkissáttasemjari lagði fram til lausnar kjaradeilum á fiskiskipaflotanum þann 16. mars 1998, og birt eru á fylgiskjölum I--IV sem eru hluti af lögum þessum, skulu frá gildistöku laga þessara ...`` o.s.frv.

Þetta þýðir í raun að öll þessi fskj. eru lög. Að öll þessi fskj. sem birtast sem fskj. með frv., fskj. I--IV, eru lög. Það verða þá lög í landinu á þessum tíma, fram til 15. febrúar árið 2000. Hvernig á að fara með hækkun kaupliða, hvernig á að fara með eingreiðslur dánarbóta, hvernig á að fara með örorkuþátt slysatryggingar sjómanna, hvernig á að fara með hafnarfrí á frystitogurum o.s.frv.? Það er auðvitað alveg ofboðslegur hlutur fyrir Alþingi að standa frammi fyrir því að þurfa að setja þessi fyrirkomulagsatriði í lög, eins og um vaktafrí á frystitogurum, svo ég nefni dæmi, fyrir utan hundruð annarra atriða sem eru í þessum fylgiskjölum.

Það hlýtur því að vera okkur dálítið umhugsunarefni af hverju þetta er svona. Og líka umhugsunarefni fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu. Með þessu er ég ekkert að sýkna einn eða neinn og síst útgerðarmenn í þessu dæmi. En ég spyr: Hvað er þá okkar starf orðið í sex hundruð sumur ef staðan er orðin þannig að jafnstór og þýðingarmikil stétt og sjómenn ná ekki kjarasamningum? Og verkalýðshreyfingin í landinu hefur í rauninni engin úrræði heldur til að hjálpa þeim til að ná kjarasamningum, sem er nokkurt umhugsunarefni.

Mér finnst einhvern veginn að sú spurning varðandi sjómennina hljóti að reyna dálítið á þolrifin gagnvart því sem einu sinni var kallað samstaða eða ,,solidaritet`` í verkalýðshreyfingunni, vegna þess að það skiptir dálítið miklu máli. Af því að þessi stétt er bundin á höndum og fótum til 15. febrúar árið 2000 og hún getur ekki byrjað á hinum góðu viðræðuáætlunum hinna fullkomnu laga Páls Péturssonar fyrr en 16. febrúar árið 2000. 16. febrúar árið 2000 er loksins hægt að byrja á að losa sig út úr þessu. Þetta er svakalegt. Það er í rauninni alveg ofboðslegt að standa svona að málum.

Hæstv. félmrh. hefur passað sig á að láta ekki ... ja, hann er hér laumulega í hliðarherbergi, loksins, það hefur ekki sést í hann, þann mikla mann í allan dag fyrr en núna og er boðinn hjartanlega velkominn á fundinn. Hæstv. félmrh. hefur haldið um það langar ræður að vinnulöggjöfin nýja sem hann beitti sér fyrir hafi algjörlega ráðið úrslitum og gjörbreytt kjaramálastöðu í landinu, þannig að verkalýðshreyfingin á Íslandi geti héðan í frá náð sæmilegum kjarasamningum. Hvaða áhrif hafði vinnulöggjöf hæstv. félmrh. Páls Péturssonar í sjómannadeilunni? Vill hæstv. ráðherra svara því? Ég hygg að það sé þvert á móti þannig að í ljós komi ef menn skoða málið nánar að vinnulöggjöf hæstv. félmrh. Páls Péturssonar í sjómannadeilunni, ef eitthvað er, hafi heldur verið til bölvunar. Veruleikinn er í rauninni sá að ríkisstjórnin er með þessu frv. að kveða upp dóm yfir vinnulöggjöf hæstv. félmrh.Páls Péturssonar og segja: Hún er ónýt þegar mikið liggur við. Nú vill svo til að hæstv. félmrh. er einn af flutningsmönnum þessa frv. Hann er að flytja frv. til laga um dóm yfir sjálfum sér og má segja að þar komi vel á vondan, eins og máltækið segir.

[22:00]

Herra forseti. Þetta lýtur alveg sérstaklega að 3. gr. frv. sem ég ætla nú að lesa, með leyfi forseta:

,,Vinnustöðvanir þeirra aðila sem um ræðir í fylgiskjölum I--V svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar. Þó er aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun.``

Síðan segir í 5. gr., með leyfi forseta:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 15. febrúar árið 2000.``

Hvað þýðir þetta hér? Þetta þýðir í fyrsta lagi að komið er á því sem kallað er friðarskylda deiluaðila á öllu tímabilinu. Á öllu því samningstímabili sem hér um ræðir, eða hvað? Ég spyr. Er það ekki rétt? Ég vil að hæstv. ráðherra svari því. Er ekki rétt að hér sé verið að kveða á um allsherjarfriðarskyldu beggja samningsaðilanna á tímabilinu til 15. febrúar árið 2000?

Í öðru lagi bannar ákvæðið allar vinnustöðvanir þessara aðila út af þeim samningi sem kveðið er á um í miðlunartillögunni. Er það ekki rétt?

Í þriðja lagi segir ákvæðið: Það má semja um aðra skipan kjaramála. Þá spyr ég: Geta deiluaðilar, geta aðilar málsins, þ.e. útvegsmenn og sjómenn, samið um að stytta samninginn? Geta þeir samið um að samningurinn renni út t.d. 31. desember 1998? Ég er ekki að segja að þeir geri það. En geta þeir það? Eins og þetta lítur út hér er alveg nauðsynlegt að fá svör ráðherranna við þessu efni málsins til þess að það auðveldi meðferð málsins í þingnefnd og af því líka að hv. félmn. mun fara yfir þessi mál sérstaklega held ég að þetta þurfi að skoðast.

Í fjórða lagi fylgir sá böggull skammrifi að þó að semja megi um aðra skipan kjaramála og þar með að stytta samninginn eða lengja eftir atvikum eða breyta honum að öðru leyti má ekki efna til vinnustöðvunar þess vegna. Það er því ekki aðeins verið að kveða á um svokallaða friðarskyldu aðila út af þeim samningi sem felst í miðlunartillögunni heldur er líka verið að banna verkföll út af hugsanlegum breytingum sem menn mundu vilja takast á um á þessum samningi. Ég hygg að það sé mjög langt síðan menn að hafi gengið svo langt í ákvæðum af þessu tagi að þeir hafi ekki einasta bannað verkföll vegna þess sem verið er að kveða á um á þeirri stundu heldur líka verkföll vegna hugsanlegra breytinga sem aðilar samningsins vilja takast á um. Ég segi þess vegna, herra forseti, burt séð frá því hvaða skoðun ég hef á málinu sem ég hef gert grein fyrir að ég tel að sé alveg fráleitt, að þetta sé algerlega út í hött. Hér eru menn að nota sleggju þegar hamar dygði og ég tel að þessi texti eins og hann lítur út sé algerlega fráleitur. Ég fer fram á það við hæstv. félmrh. og hæstv. sjútvrh. að þeir, burt séð frá efni málsins að öðru leyti, velti því fyrir sér hvort ekki er allt of langt gengið í að reyra sjómannastéttina algerlega fasta á þessum tíma fram að 15. febrúar 2000 þannig að þeir eru ekki frjálsir gerða sinna fyrr en 16. febrúar árið 2000.

Ekki er allt búið enn, herra forseti. Segjum nú að sjómennirnir og útvegsmennirnir verði að una niðurstöðunni til 15. febrúar árið 2000, þá er það þannig að á tímanum gildir miðlunartillaga og í 1. gr. hennar er þetta orðað svona:

,,Síðastgildandi kjarasamningur aðila framlengist með eftirfarandi breytingum frá samþykkt tillögu til og með 15. febrúar 2000 og fellur þá úr gildi án uppsagnar.``

Með öðrum orðum 15., eða 16. febrúar árið 2000 öllu heldur, tekur gildi hjá sjómönnum sá samningur sem við vorum með í gær eða er þeir unnu síðast áður en verkfall hófst. Með öðrum orðum þýðir þetta ákvæði að verið er að segja: Sjómenn fara 16. febrúar árið 2000 inn á samning sem var síðast í gildi snemma á árinu 1998. Það sjá allir að hvað sem efni málsins líður er þetta tæknilega fráleitt, algerlega fráleitt, og ég skora á hv. sjútvn. að fara í saumana á þessu uppsagnaratriði, þessu losunaratriði kjarasamningsins sem er með lögum verið að þvinga upp á sjómenn.

Staðreyndin er sú að eins og þetta er orðað og búið um málið geta sjómenn ekki farið í aðgerðir vegna nýs samnings fyrr en 16. febrúar árið 2000. Þeir eru því dæmdir til þess að taka við gömlu kjörunum frá því í ársbyrjun 1998 þegar liðnir eru tveir mánuðir inn á árið 2000. Þeir eru dæmdir til þess eins og staðan er núna. (Gripið fram í.) Jú, þeir eru samningslausir og samkvæmt hefð færu þeir inn á þann samning sem gilti síðast áður en þessi samningur er settur á þá. Hvað sem öllu öðru líður er málið illa undirbúið tæknilega. Ég skora hæstv. ráðherra, félmrh. og sjútvrh., að fara mjög vandlega yfir þessi mál vegna þess að ég tel að bæði umbúnaður málsins í 3. gr. og að öðru leyti sé með þeim hætti að það verði að gerast. Ekki þarf að taka fram að auðvitað verður það að gerast í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, þá aðila sem um er að ræða, vegna þess að þó að menn geti ekki talast við út af þessum frv., verða menn auðvitað að reyna að skoða tæknileg frágangsatriði. Annars væru þeir að bregðast umbjóðendum sínum og hlytu að vera tilbúnir til að gera það.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. sjútvrh. og hæstv. félmrh. að greina frá viðhorfum sínum í þessu efni og þess vegna kvaddi ég mér sérstaklega hljóðs út af 3. gr. frv. um kjaramál fiskimanna en vísa að öðru leyti til þess sem fram hefur komið í málflutningi talsmanna Alþb. og óháðra í umræðunum.