Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 16:12:47 (5321)

1998-03-31 16:12:47# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[16:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að taka af öll tvímæli um að þá staðreynd að Eystrasaltsríkjanna þriggja er ekki getið í ræðu hans ber engan veginn að túlka þannig að eitthvað hafi dregið úr stuðningi hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnarinnar við þessi ríki. Ég rifja það hins vegar upp þegar ég var blautur á bak við eyrun einhvern tímann í umræðum að mig minnir að það hafi verið hæstv. utanrrh. sem einmitt sagði að ræður sem fjölluðu um samskipti Íslands við útlönd væru þaullesnar af sendimönnum erlendra ríkja og menn drægju síðan ályktun af því hvað í þeim stæði og líka af því hvað í þeim stæði ekki og það var þess vegna sem ég taldi nauðsynlegt að reifa þetta hér. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að auðvitað er æskilegast að hafa sem best samstarf við Rússa og reyna að draga úr tilfinningum þeirra um að það sé verið að magna einhvers konar seið á hendur þeim en á hinn bóginn þarf það að vera algerlega skýrt að þeir hafa alls ekki neitunarvald í þessum efnum. Þessi ríki þrjú upplifa margt í framferði rússneskra stjórnvalda sem ógn við sig og ef við skoðum t.d. hvað hefur verið að gerast í þessum ríkjum síðustu mánuði sjáum við auðvitað hvernig Rússar eru á vissan hátt að reyna að reka fleyg í hið ágæta samstarf þeirra með framferði sínu t.d. gagnvart Lettlandi og þetta var eitt af því sem hefur komið upp í samræðum okkar við sendimenn þessara ríkja. Ég tel að það sé mikilvægt að smáþjóð eins og við stöndum vaktina gagnvart hagsmunum annarra smáþjóða. Við höfum notið þess í fyrndinni og aðrir eiga að njóta þess af okkur líka og þess vegna fagna ég því að það er algerlega ljóst að íslenska ríkisstjórnin og stuðningur Íslendinga er óskoraður að baki óskum Eystrasaltsþjóðanna í þessu efni.