Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:12:56 (5331)

1998-03-31 17:12:56# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hæstv. ráðherra ræðuna sem hann flutti áðan. Sú ræða er skýrsla fremur en stefnumörkun með framtíðarsýn. Þar er víða komið við og gefið greinargott yfirlit í stuttu máli um helstu dagleg viðfangsefni utanríkisþjónustunnar sem er vissulega fróðlegt á sína vísu en hins vegar fannst mér allt of fátt í ræðunni sem vísar veginn fram á við eða markar stefnu til framtíðar. Þó er slík atriði þar að finna og nefni ég þar fyrst og fremst þau áform sem hæstv. ráðherra hefur um eflingu utanríkisþjónustunnar þar sem hann ræðir um stofnun nýrra sendiráða í Kína og Japan, um aðstöðu fyrir fastanefnd á vegum ÖSE í Vín, sem jafnframt verði sendiráð í Austurríki, og um aukinn stuðning við kjörræðismenn. Hæstv. ráðherra áætlaði að kostnaður við þessar aðgerðir sé ekki undir 300 millj. kr. sem er 25% aukning á fjárveitingum eins og þær eru í dag til utanrrn. Með þessu boðar hæstv. ráðherra eflingu utanríkisþjónustunnar þar sem vissulega er horft til framtíðar og ég er honum sammála um það. Ég gagnrýni ekki þær fyrirætlanir hans og tel að þeim peningum sem þar um ræðir sé vel varið, einfaldlega vegna þess að það er rétt sem hæstv. ráðherra segir í lokaorðum sínum að fá ríki eru jafnháð alþjóðasamskiptum og Ísland og að ein mikilvægasta forsenda góðra lífskjara hér á landi sé að standa vel að utanríkisviðskiptum. Því gagnrýni ég ekki, eins og tíska er meðal Íslendinga, útgjöld á vegum utanríkisþjónustunnar. Ég er hæstv. ráðherra sammála um að þetta eru einhver nauðsynlegustu útgjöld sem ráðist er í af hálfu íslenska ríkisins.

Hins vegar samrýmist ekki þessari stefnu hæstv. ráðherra um eflingu utanríkisþjónustunnar hversu fáorður hæstv. ráðherra er um afstöðu Íslands til þeirra viðfangsefna sem einkenna helst stjórnmálaframvinduna í heimshluta okkar, þ.e. hversu fáorður hann er um samrunaferilinn í Evrópu og um Myntbandalagið. Um samrunaferilinn í Evrópu segir hæstv. ráðherra í ræðu sinni nánast aðeins eina setningu sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Við höfum beina hagsmuni af stækkun Evrópusambandsins þar sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir að ný aðildarríki verði aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.`` Annað hefur hæstv. ráðherra ekki að segja um þetta stóra og mikla mál þar sem 11 ný ríki í Austur- og Suður-Evrópu eru u.þ.b. að bætast við á næstu tíu árum í Evrópusambandið og fá þar beina aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði.

[17:15]

Hæstv. ráðherra hefur einnig fátt að segja um þróunina um sameiginlega mynt í Evrópu. Þar segir hann nánast aðeins, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók fram í ræðu sinni fyrr í dag, að nú heyrist raddir úr íslensku atvinnulífi sem telji brýnt að tengja íslensku krónuna sterkum böndum við hinn sameiginlega evrópska gjaldmiðil. Stefna af hálfu hæstv. ráðherra í málinu er hins vegar engin í ræðu hans.

Ég efast um að til sé nokkurt annað land í allri Evrópu, hvorki innan né utan Evrópusambandsins, þar sem utanríkisráðherra mundi flytja þjóðþingi boðskap um utanríkismál þar sem samrunaferlinu í Evrópu er jafnlítill gaumur gefinn og í orðum hæstv. utanrrh. Þarna tel ég að Ísland skeri sig alveg úr. Sú umræða sem er efst á baugi í allri Evrópu fer ekki fram hér. Í því eina ríki, á Íslandi, hafa stjórnvöld enga efnislega skoðun á málinu, því það er ekki efnisleg skoðun að segja að málið sé ekki á dagskrá, það eigi ekki að vera til umfjöllunar. Sú afstaða að málið sé ekki á dagskrá og eigi ekki að vera til umfjöllunar hefur valdið því að Íslendingar hafa gróflega vanrækt heimavinnu sína. Í tíð fyrri ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var hafin fyrir tilverknað ráðherra Alþfl. úttekt á kostum og göllum aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Auðvitað er það ljóst að slíkri aðild fylgja bæði kostir og gallar en forsendan fyrir því að skynsamleg umræða geti átt sér stað um það mál er að slík úttekt liggi fyrir. Að fólkið í landinu, sem vill taka þátt í slíkri umræðu, viti hverjir eru raunverulegir kostir og raunverulegir gallar við þá umræðu og geti því háð hana á skynsamlegum nótum.

En þessari vinnu var hætt strax við stjórnarskiptin. Þá var ákveðið að málið væri ekki á dagskrá og því hefur engin athugun á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar farið fram. Það er því ekki undarlegt þó að ríkisstjórn Íslands hafi engin skilgreind samningsmarkmið í sambandi við hugsanlega aðild Íslands að þessu ferli, hvaða kröfur t.d. þyrfti að uppfylla til að kostir aðildar teldust meiri en ókostirnir. Það hefur aðeins farið fram mjög lausleg umræða á Íslandi um þau málefni. En mér er nær að halda að Ísland sé eina ríkið í allri Evrópu þar sem stjórnvöld hafa engin skilgreind samningsmarkmið í þessari umræðu. Í tímaritinu Atlantica, af öllum tímaritum, birtist nýlega viðtal við forsrh. Íslands þar sem hann segist ekki einu sinni sjá aðild Íslands að Evrópusambandinu úti við sjóndeildarhringinn hvað þá meir. Þannig hefur hæstv. utanrrh. ekki talað. Þannig talaði hæstv. forsrh. í viðtali við þetta tímarit, eins undarlegt og það nú er.

Eftir því, virðulegi forseti, sem fleiri ríki verða aðilar að Evrópusambandinu þeim mun minni þýðingu mun EES-sáttmálinn hafa. Ríki Mið- og Austur-Evrópu hafa afskaplega takmarkaðan áhuga á því samstarfi. Sviss, eitt EFTA-landanna, hefur engan áhuga á að gerast aðili að EES heldur vill beinar tvíhliða samningaviðræður við Evrópusambandið. Þeir sem fylgjast með málum hljóta að verða varir við það að Norðmenn hafa mjög takmarkaðan áhuga á að leysa ýmis vandamál innan vébanda EES heldur sækjast miklu frekar eftir því að ná niðurstöðum í tvíhliða viðræðum við Evrópusambandið þannig að þegar horft er á öll þessi atriði, þá óttast ég að eftir því sem árin líða minnki stöðugt mikilvægi EES-sáttmálans sem var góður og þarfur á sinni tíð.

Íslendingar eiga enn sín tækifæri. Það er mín skoðun og ég trúi því að utanrrh. hafi fengið að heyra það líka að ef aðildarumsókn Íslendinga bærist áður en langt um líður, þá mundi það skilyrði ekki verða sett að sú umsókn yrði ekki tekin til meðferðar fyrr en núverandi viðræðuferli lýkur, þ.e. eftir tíu ár. Bærist slík umsókn eftir ekki allt of langan tíma þá hef ég þá trú að hún yrði tekin til afgreiðslu og umfjöllunar með sjálfstæðum og sérstökum hætti strax eða fljótlega eftir að hún bærist. Ísland hefur því vissulega tækifæri til að taka ákvörðun um þessi mál enn og þarf ekki að bíða eftir því að því viðræðuferli sé lokið sem nú stendur yfir.

Auðvitað geta menn verið þeirrar skoðunar að Ísland eigi hvorki nú né í framtíðinni að tengjast Evrópusambandinu frekar en orðið er. Þannig voru menn vissulega þeirrar skoðunar að Ísland ætti ekki að gerast aðili að EFTA undir neinum kringumstæðum og ekki að gerast aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði undir neinum kringumstæðum þótt hvort tveggja hafi orðið. Í augum þeirra sem eru þessarar skoðunar kemur auðvitað ekki til greina að huga að aðild, velta fyrir sér kostum hennar og göllum, skilgreina samningsmarkmið eða hefja viðræður hvorki nú né síðar. Ég virði vissulega þau sjónarmið. Þau eiga fullan rétt á sér og ég geri ekkert lítið úr þeim. En hvorugur ríkisstjórnarflokkanna hefur hins vegar tekið þessa afstöðu. Þeir hafa báðir sagt að aðild væri ekki á dagskrá á yfirstandandi kjörtímabili en hvorugur útilokað að til þess geti komið síðar.

Þeir sem þannig hugsa verða því að velta fyrir sér hvort hagstæðara sé fyrir Ísland að bíða eftir að hefja viðræður þar til núverandi viðræðulotu við ríkin í Mið-Evrópu, Mið- og Austur-Evrópu, er lokið, eða hvort ástæða sé til að óska eftir viðræðum fyrr og vinna áður þá heimavinnu sem þarf að vinna, þ.e. úttektina á kostum og göllum aðildar og skilgreina samningsmarkmið Íslendinga. Ég tel að það væri miklu hagstæðara fyrir Ísland, ef til greina kemur að Ísland verði einhvern tímann aðili að Evrópusambandinu, að það gerist áður en tíu ný ríki Mið-, Austur- og Suður-Evrópu hafa gengið til liðs við það en eftir að það hefur gerst. Ég tel að áhrif Íslendinga gætu orðið miklu sterkari með því móti, ekki síst á stefnumörkun í sjávarútvegsmálum, sem verður auðvitað hluti af þeim viðræðum sem munu eiga sér stað við hin nýju aðildarríki. Ég er sannfærður um að það er meira í samræmi við hagsmuni Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusamstarfinu áður en hin 11 nýju ríki eru tekin inn í Evrópusambandið en að bíða þangað til það hefur verið gert.

Þess vegna tel ég, herra forseti, og vil láta það koma fram að nauðsynlegt sé að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin beiti sér fyrir því, hvað sem endanlegum ákvörðunum líður, að Íslendingar fari nú að vinna sína heimavinnu. Að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að haldið verði áfram vinnu að úttekt á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar, sem hafin var í tíð síðustu ríkisstjórnar, og vinni að því að skilgreina hugsanleg samningsmarkmið Íslendinga, þannig að ef niðurstaða stjórnvalda væri sú að æskilegt væri að hefja samningaviðræður eða senda inn aðildarumsókn, þá væri hægt að leita til þjóðarinnar áður en það yrði gert og leggja fyrir hana þau samningsmarkmið sem hæstv. ríkisstjórn vildi ná fram og spyrja þjóðina þessarar einföldu spurningar á grundvelli slíkra skilgreindra samningsmarkmiða: Viljið þið að við leitum eftir viðræðum við Evrópusambandið um mögulega aðild? Þessa heimavinnu þurfa stjórnvöld að vinna og ég skora á hæstv. utanrrh. að hefja þá vinnu.

Á sama hátt tel ég nauðsynlegt, m.a. í ljósi þeirra miklu umræðna sem urðu á sínum tíma um kosti og galla aðildar Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði, að á næsta ári þegar fimm ár verða liðin frá því að samþykkt var á Alþingi að ganga til þess samstarfs, beiti hæstv. utanrrh. sér fyrir því í ríkisstjórninni að gerð verði úttekt á reynslu Íslendinga af samstarfinu í EES, hvað hefur áunnist og hvað hefur miður farið. Við vitum afskaplega vel að það sem margir fullyrtu úr þessum ræðustól fyrir bráðum fimm árum um mikið aðstreymi útlendinga ekki síst inn á hið íslenska félagslega kerfi hefur ekki ræst. Þær fullyrðingar hafa heldur ekki ræst að hingað mundi streyma inn fjármagn þar sem verðmætustu auðlindir Íslands yrðu keyptar upp af útlendingum. Margar hrakspárnar hafa ekki ræst. En það hefur kannski farið fram hjá okkur að mjög mikið af réttindamálum launafólks og neytenda hefur áunnist á Íslandi bókstaflega fyrir tilverknað þessa samnings. Í málefnum neytenda, frjálsrar samkeppni og réttinda verkafólks hefur upphefð okkar á undanförnum árum komið að utan. Og það er rétt að fá það staðfest með slíkri úttekt, sem ég tel að sé mjög tímabær, á næsta ári, fimm árum eftir að umrædd samþykkt um aðild Íslands að EES var gerð á hinu háa Alþingi.

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, varpa þeirri spurningu fram til hæstv. utanrrh. hvort hann teldi ekki rétt og væri ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir því að slík úttekt yrði unnin á næsta ári.

Herra forseti. Það eru fjölmörg önnur atriði í ræðu hæstv. utanrrh. sem ég vildi gjarnan geta komið að en get ekki tímans vegna og verð því að láta mér nægja þau orð sem ég hef hér látið falla.