Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:42:22 (5357)

1998-03-31 19:42:22# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er einu sinni staðreynd í sambandi við þróunarhjálp að það skiptir afar miklu máli að í viðkomandi löndum sé vilji til þess að byggja upp lýðræði, viðurkenna markaðsbúskap sem er grundvallaratriði í heimsbúskapnum í dag. Ég trúi því ekki að hv. þm. Ögmundur Jónasson vilji hverfa frá markaðsbúskap hér á landi og vænti þess að hann aðhyllist blandað hagkerfi.

Ég vil taka það fram í sambandi við Sameinuðu þjóðirnar að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er verið að byggja upp ákveðið öryggiskerfi, öryggiskerfi sem kemur í veg fyrir að ákveðnar þjóðir og einræðisherrar þar geti ráðist á nágrannaþjóðir með gereyðingarvopnum og eiturvopnum. Út á það gengur starfið gagnvart Írak og aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna eru skuldbundnar til að taka þátt í þessu. Við Íslendingar höfum ekki fylgt Bandaríkjamönnum í blindni. Það er eitthvert hugarflug hv. þm. Fleiri en Bandaríkjamenn standa að öryggisráðinu, það veit hv. þm. Það eru ýmsar aðrar þjóðir eins og Kína, Rússland og margar aðrar þannig að það er ekki rétt að við höfum fylgt þeim í einu og öllu. Hins vegar er það rétt að ég taldi rétt að heimila þeim að lenda hér á landi vegna viðbúnaðar út af Írak en það var ekki á grundvelli þess að þeir væru búnir að biðja sérstaklega um það. En ég taldi það rétt og stend við það.