Útgáfa reglugerðar um sölu áfengis

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:27:10 (5393)

1998-04-06 15:27:10# 122. lþ. 102.91 fundur 296#B útgáfa reglugerðar um sölu áfengis# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég er satt að segja yfir mig undrandi á því sem hér hefur verið sagt. Ég skil ekki að það geti verið fáheyrður yfirgangur að fara að tilmælum stofnunar sem sett er á laggirnar af hálfu Alþingis með sérstökum lögum. (ÖJ: Ráðherrann er ekki að gera það.) Virðulegi forseti. Fæ ég tækifæri til þess að tala?

(Forseti (RA): Hæstv. ráðherra hefur orðið.)

Ég þakka fyrir. (ÖJ: Við höfum fengið nóg af blekkingum í því.) Hann virðist halda að hann sé hæstv. ráðherra þessi maður sem situr þarna úti í sal.

(Forseti (RA): Hæstv. ráðherra hefur orðið.)

Síðastliðið haust kom álit Samkeppnisstofnunar. Þar var skýrt tekið fram að að þeirra áliti þyrfti að skilja innflutningsstarfsemina hjá ÁTVR frá annarri starfsemi og þar var sagt að samreksturinn stríddi gegn markmiðum samkeppnislaga. Samkeppnisráð mæltist til þess að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana.

Sambærilegar ráðstafanir og hér hafa verið gerðar með reglugerðarbreytingu hafa þegar átt sér stað bæði í Noregi og í Svíþjóð, þar reyndar með lagabreytingum. Í Finnlandi er ALKO hlutafélag í eigu ríkisins sem starfar í tveimur sjálfstæðum einingum.

Þetta mál er undirbúið af nefnd sem sett var á laggirnar í febrúar og hefur sú nefnd verðið til umræðu á hinu háa Alþingi. Í nefndinni sátu aðstoðarmaður minn, forstjóri ÁTVR og tveir úr stjórn ÁTVR. Lögfræðiálit lá fyrir þegar nefndin starfaði. Niðurstaðan þar var ótvíræð: Það er nauðsynlegt að skilja á milli söludeildar og aðfangadeildar og lagaákvæði skuldbinda ÁTVR ekki til að annast innflutning. Mér finnst sjálfsagt, virðulegi forseti, í framhaldi af þessari umræðu, að efh.- og viðskn. þingsins skoði reglugerðina þegar hún afgreiðir þau frv. sem þar eru til umræðu. Það finnst mér alveg sjálfsagt. Mér finnst sjálfsagt að þeir sem gerðu þessa reglugerð og sátu í nefndinni komi á fund nefndarinnar og skýri þetta mál. Mér finnst það sjálfsagt en tek skýrt fram að það eru afar eðlileg viðbrögð af hálfu ráðuneytisins og fjmrh. að fara að því sem Samkeppnisstofnun lagði til í áliti sínu á síðasta hausti. (ÖJ: Hún lagði þetta ekki til.)