Reglugerð um geðrannsóknir

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:49:14 (5400)

1998-04-06 15:49:14# 122. lþ. 102.1 fundur 526. mál: #A reglugerð um geðrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:49]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru var greinargerð skilað um starfsemi réttargeðdeildarinnar að Sogni í ljósi fimm ára reynslu. Í lokaorðum þeirrar greinargerðar kemur m.a. fram að við megum vænta þess á næstu árum og reyndar hafi þess þegar sést merki, að veruleg þörf sé fyrir aukna vistun vegna meðferðar þeirra einstaklinga sem eru af einhverjum orsökum dæmdir ósakhæfir eða sakhæfir geðsjúkir. Réttargeðdeildin hefur tekið við ósakhæfum geðsjúkum en það hefur vantað töluvert á að við gætum sinnt sakhæfum geðsjúkum með eðlilegu móti miðað við þær kröfur sem gerðar eru. Að undanförnu hafa þær spurningar vaknað hvort eðlilega sé staðið að mati á einstaklingi sem kemur til dóms vegna afbrota sem hann hefur framið hvað varðar geðrannsókn og hvort um það séu einhverjar sérstakar fastmótaðar reglur hvernig staðið skuli að geðrannsóknum hjá afbrotamönnum sem bíða dóms.

Eftir að hafa kynnt mér töluvert dóma og málsskjöl í einstaka tilvikum sýnist mér sem í raun séu engar fastar reglur um geðrannsóknir og það þurfi að taka upp í ljósi breyttra aðstæðna fastmótaðar reglur sem fjalli um sakhæfi eða ósakhæfi og geðsýki, hvort hún sé til staðar og þá í hve miklum mæli og hvort viðkomandi einstaklingur sé ósakhæfur eða sakhæfur. Síðan ætti meðferðin að vera út frá þeim niðurstöðum sem liggja fyrir eftir slíka rannsókn og meðferðarþarfir séu metnar út frá þeim rannsóknum sem fyrir liggja og þeim niðurstöðum sem hafa fengist. Í dag er það þannig að annaðhvort er einstaklingur sakhæfur eða ósakhæfur, annaðhvort vistast hann á réttargeðdeild eða í fangelsi. Millistig er ekkert. Við höfum ekki notað þau úrræði sem til staðar eru, t.d. hjá nágrannaþjóðum eða þá fyrirmynd sem við gætum fengið þaðan til vistunar og meðferðar fyrir geðsjúka afbrotamenn eins og við ættum að gera og þörf er fyrir.

Ég hef á þskj. 903 beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um reglugerð um geðrannsóknir:

Í fyrsta lagi. Hvernig er háttað fyrirkomulagi geðrannsókna á þeim einstaklingum sem ákærðir hafa verið fyrir afbrot?

Í öðru lagi. Eru í gildi reglur um þessar rannsóknir? Ef ekki, mun ráðherra þá beita sér fyrir því að þær verði settar?