Störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:23:10 (5413)

1998-04-06 16:23:10# 122. lþ. 102.4 fundur 624. mál: #A störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:23]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dóms- og kirkjumrh. fyrir svörin og hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur einnig fyrir innlegg hennar. Það er ánægjulegt að nefndin skuli vera að komast á lokasprettinn í vinnu sinni og skili niðurstöðum á þessu ári, áfangaskýrslu fyrir 1. júní og lokaskýrslu og niðurstöðum sínum í haust eða á haustmissirinu. Þetta eru virkilega mikilvæg mál sem vanda þarf til löggjafar við eins og allt annað.

Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að nefndin hefur leitað upplýsinga í nágrannalöndum okkar. Mér er kunnugt um að í Danmörku er slíkum málum þannig háttað að foreldrar í skilnaðarmáli eiga kost á sérfræðiviðtölum eftir þörfum, bæði þá og síðar, hvenær sem þau þurfa á því að halda að eigin dómi. Norðmenn hafa hins vegar þann hátt á að þeir gera það að skilyrði áður en þeir heimila sameiginlega forsjá að foreldrar komi a.m.k. í þrjú viðtöl um þessi mál. (Gripið fram í: Jafnvel fyrir skilnaðinn.) Jafnvel líka fyrir skilnað.

Allar misfellur í þessum efnum, ósætti foreldra og uppgjöf gagnvart aðstæðum koma niður á börnunum, þeim sem síst skyldi og þeim sem foreldrarnir vilja auðvitað alls ekki að það komi niður á, en þau verða því miður oft og einatt fórnarlömb í þessum hryggilegu málum sem mörg hver sannarlega eru.