Tilkostnaður við tannréttingar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:55:38 (5425)

1998-04-06 16:55:38# 122. lþ. 102.8 fundur 610. mál: #A tilkostnaður við tannréttingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ráðuneytið hefur þegar gripið til aðgerða sem hafa það að markmiði að allir þeir sem þurfa á tannréttingum að halda geti fengið þær á viðráðanlegu verði. Eins og ég kem að hér á eftir hafa þær aðgerðir þegar skilað árangri.

Til að skýra eðli málsins vil ég í stuttu máli víkja að forsögunni. Um árabil hefur Tannréttingafélag Íslands ekki viljað semja um tannréttingar við almannatryggingar. Á tímabili gaf ráðuneytið út gjaldskrá og tók þátt í greiðslum sjúklinga með hlutfalli af þeirri gjaldskrá. Gjaldskrá réttingatannlækna var hins vegar hærri og einstakir réttingatannlæknar með miklu hærra gjald. Reynt var að nota norskt flokkunarkerfi til viðmiðunar en ekki náðist samkomulag um það við félagið. Frá árinu 1994 til ársbyrjunar 1997 tóku almannatryggingar því eingöngu þátt í alvarlegustu tilvikum vegna m.a. meðfæddra galla, sjúkdóma og slysa en þær reglur sættu mikilli gagnrýni og mörk þess hverjir fengu greiðslur og hverjir ekki voru um margt óljós.

Frá ársbyrjun 1997 var tekin upp sú regla að greiða styrk til sjúklinga undir 20 ára aldri sem þurfa á almennum tannréttingum að halda og giltu þær allt að tveimur árum aftur í tímann. Styrkur þessi var upphaflega 70 þús. kr. en var hækkaður í nóvember sl. í 100 þús. kr. Styrkurinn greiðist út í þrennu lagi eftir framgangi meðferðarinnar. Samkvæmt könnun tryggingayfirtannlæknis sem gerð var í tengslum setningu reglna var meðalkostnaður hvers sjúklings árið 1996 frá tæpum 200 þús. kr. upp í 400 þús. kr. eftir sérfræðingum. Til mín hefur komið dæmi um tífaldan verðmun á tannréttingum eða frá 30 þús. kr. og upp í yfir 400 þús. kr. Vissulega var mikill munur á þeim aðferðum sem beita átti en viðkomandi foreldri og unglingur völdu ódýrari aðferðina sem jafnframt var sársaukaminni og eru sáttir við útkomuna.

Auk þess að veita fastan styrk hefur sjúklingum og forráðamönnum þeirra verið bent á að verð á þessari þjónustu er mjög mismunandi og því eðlilegt að leitað sé verðtilboða. Við höfum fengið viðbrögð frá fólki sem hefur þakkað okkur fyrir ábendingarnar þar sem það að leita tilboða í verð hafi sparað þeim hundruð þúsunda króna. Tannlæknadeild Tryggingastofnunar og ráðuneytið hafa bent sjúklingum á að þeir eiga rétt á að fá öll gögn úr sjúkraskrá afhent, þar með taldar myndir, afsteypur og greiningar og geta farið með þessi gögn milli sérfræðinga. Auk þess hefur tannlæknadeild Tryggingastofnunar leiðbeint og aðstoðað þá sem til hennar hafa leitað. Óhjákvæmilegt er að benda á að sérfræðingar í tannréttingum beita ekki allir nákvæmlega sömu aðferðum. Þannig kann að vera ástæða fyrir mismunandi verðlagningu þjónustunnar, en þeir 12 tannréttingalæknar sem eru starfandi hér á landi eru allir sérfræðingar í sínu fagi og faglegt eftirlit með störfum þeirra er á hendi heilbrigðisyfirvalda. Áfram taka almannatryggingar þátt í tannréttingum vegna alvarlegustu tilvikanna svo sem vegna klofins góms, slysa og afleiðinga alvarlegra sjúkdóma og er þar um að ræða allt að 100% greiðsluþátttöku eftir því hvað um er að ræða.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan af þessum aðgerðum ráðuneytisins og Tryggingastofnunar er sú að sjúklingar fá betri þjónustu á miklu lægra verði en áður og sjúklingar og foreldrar þeirra eru ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá. Um þetta kerfi virðist ríkja almenn sátt öfugt við það sem áður var.