Aðgangur að Grensáslaug

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:16:52 (5433)

1998-04-06 17:16:52# 122. lþ. 102.9 fundur 623. mál: #A aðgangur að Grensáslaug# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur fyrir að benda á þennan þátt í sambandi við opnunartímann sem er vissulega ástæða til að taka til athugunar.

Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að þeir sem liggja á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og nota sér Grensáslaugina eigi að hafa forgang og hafi þá forgangsröðun sem hæstv. ráðherra nefndi. Engu að síður segi ég og fer ekki ofan af því að ráðherra getur tekið ákvörðun um að þeir fötluðu einstaklingar sem ekki geta nýtt sér almennar laugar, þurfa ekki aðstoð og þurfa ekki að fá sjúkraþjálfun geti fengið sömu kjör þegar þeir koma í Grensáslaugina eins og aðrir lífeyrisþegar í almennum sundlaugum. Eins og hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir benti á er aðgangur fatlaðra og mikið hreyfihamlaðra, fjölfatlaðra og hjólastólabundinna ekki í nógu góðu lagi víðast hvar í almennum sundlaugum og þess vegna er það oft eina leiðin að nota þessar sérstöku þjálfunarlaugar. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka þessa ákvörðun þannig að ekki sé verið að mismuna þessum hópum bæði hvað varðar aðgangseyri, jafnvel opnunartíma eins og minnst var á, þannig að ókeypis aðgangur verði veittur fyrir þetta fólk svo það geti komið og notið þess sem sundlaugarnar veita þeim. Bæði er þetta stórt atriði hvað varðar andlegt og líkamlegt heilsufar þess og kostar ekki meira en eina til tvær utanlandsferðir með dagpeninguum fyrir einn eða tvo ráðuneytismenn eða þrjá til fjóra daga í laxveiði. Þetta eru ekki stærri upphæðir en þetta sem þarf til að leiðrétta kjör þessa hóps sem vissulega á undir högg að sækja.