Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:59:57 (5470)

1998-04-14 16:59:57# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:59]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við lestur frv. velti ég því fyrst og fremst fyrir mér hvaða nauður rekur menn til þess að leggja fram frv. af þessu tagi. Hvers vegna er verið að leggja fram frv. sem felur í sér að útdeila eigi aflaheimildum eða aflaréttindum að þessu leytinu á einstök skip þó eingöngu sé til þriggja ára? Hver er ástæðan? Nú þekkjum við það úr umræðunni um veiðistjórnun að það hefur a.m.k. í orði kveðnu ávallt verið reynt að skýla sér á bak við það að um sé að ræða líffræðilega nauðsyn. Það þurfi að takmarka aðganginn að auðlindinni, við höfum svo mikinn og öflugan flota að það sé ljóst að einhvers konar veiðistjórnun þurfi að vera og þetta hefur alltaf og ævinlega verið rökstuðningurinn fyrir því að kvótasetja með einhverjum hætti aflaheimildirnar á Íslandsmiðum.

[17:00]

Ef við skoðum núna norsk-íslenska síldarstofninn og veltum því fyrir okkur hvort þetta sé ástæðan fyrir að það þurfi að skipta þessum aflaheimildum niður á einstök skip þá kemur á daginn að svo er alls ekki. Það er ekki þessi gríðarlega þörf á því að raða niður heimildum upp á grömm og kíló á einstök skip varðandi norsk-íslenska síldarstofninn. Þegar þessi mál voru rædd á síðasta ári kom fram hjá einstökum útgerðarmönnum að það fyrirkomulag við veiðistjórn sem gilti á síðasta ári væri hin mesta ósvinna. Það mundi leiða til sóunar, það mundi leiða til þess að ekki væri hægt að nýta aflann skynsamlega og þar fram eftir götunum.

Allt þetta reyndist tóm vitleysa vegna þess að þegar upp var staðið kom á daginn að við náðum ekki einu sinni að veiða þær heimildir sem við höfðum í norsk-íslenska síldarstofninum. Sumir útgerðarmenn sem unnu við síldveiðar og síldarvinnslu bentu á þetta strax á síðasta ári, þegar leið á árið, að ekki mundi takast að ná þessum aflaheimildum, þessum heimildum sem við hefðum til veiða. Þær upplýsingar sem ég hef eru þær að við höfðum heimildir til þess að veiða um 230 þúsund tonn af 1.500 þúsund tonna kvóta, en það veiddust um 220 þúsund tonn. Það er því alveg deginum ljósara að við erum ekki að fjalla um frv. sem kemur fram vegna þess að líffræðilegar ástæður hafi verið til þess að verja þennan síldarstofn sem geri það að verkum að við ætlum að taka upp þessa aðferð við veiðistjórn. Það eru með öðrum orðum allt aðrar ástæður.

Við þekkjum reyndar fleiri dæmi um að tekin hafi verið ákvörðun um að kvótabinda einstakar tegundir og síðan hefur kvótinn verið settur nánast nákvæmlega jafnmikill og veiddist á undanförnum árum. Dæmi um þetta er steinbíturinn sem nú er í kvóta. Kvótinn er svipaður og menn hafa verið að veiða árum saman þannig að hér er ekki um að ræða veiðistjórn. Hér er um að ræða efnahagsstjórn. Við heyrum reyndar strax í máli t.d. hv. 4. þm. Norðurl. e., formanns sjútvn., að hann fer strax að velta því fyrir sér hvort ekki sé um að ræða einhverjar tilfærslur á afla miðað við aflareynslu eða einhverjar aðrar úthlutunarreglur sem brúkaðar eru. Það er auðvitað alveg ljóst að þegar menn fara að skoða þetta þá er hér fyrst og fremst um að ræða frv. sem felur í sér ákveðna efnahagslega stjórn. Á bak við þetta liggur sú hugsun að óskynsamlegt sé að stjórna veiðunum með sóknartakmörkunum eða með því að setja heildarpott. Það kemur fram í athugasemdum við frv. þar sem því er haldið fram, því er slegið hér fram án þess að það sé út af fyrir sig rökstutt neitt sérstaklega, að flestir séu sammála um að sú leið sem farin var til stjórnar veiðanna á liðinni síldarvertíð sé mjög óhagkvæm.

Hvaða úttekt liggur fyrir um þetta? Hefur þetta einhvers staðar sannast? Alls ekki. Það liggur einfaldlega fyrir að við náðum ekki kvótanum. Og það var ekki vegna þess að menn hefðu ekki frelsi til sóknarinnar. Svo var ekki. Heldur einfaldlega vegna þess að síldin gaf sig ekki til og menn náðu ekki aflaheimildunum. Það er augljóst mál að miklu minni líkur eru á því ef við förum að skipta þessu síðan niður á skip, að við náum þessum heimildum. Þess vegna segi ég: Það eru miklu meiri líkur á því að sú óhagkvæmni, það óhagræði og sú sóun sem ævinlega virðist fylgja kvótakerfi í hvaða mynd sem það er sett upp, aukist.

Við getum að vísu velt því fyrir okkur hvort þetta sé tillaga um kvótakerfi. Eins og hér hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra og hv. formanns sjútvn., er verið að setja þessar reglur til þriggja ára. Gert er ráð fyrir því að þessu sé útdeilt á skipin. Þau eigi ekki að afla sér veiðireynslu, ef ég hef skilið þetta rétt. Þau eigi ekki að mynda stofn til varanlegra aflaheimilda. Þetta er gert á grundvelli stærðar en ekki aflareynslu.

Út af fyrir sig getum við ekki svarað því hér og nú með neinni vissu hvernig þessi mál munu þróast. En við skulum aðeins velta fyrir okkur hver staðan verður á Alþingi eftir árið 2000 þegar skip hafa verið að veiða þrjú ár í röð á grundvelli einhverrar úthlutunar sem þau hafa fengið. Það verður auðvitað lögð á það ofuráhersla af fulltrúum slíkra skipa og útgerðarinnar í heild spái ég, að verja þær heimildir sem hvert og eitt einstakt skip hefur fengið. Og með þessu frv. verður búið að loka pottinum. Það er ekkert flóknara en það.

Og menn munu strax, um leið og þessi úthlutun liggur fyrir, á árinu 1998, fara að meta réttinn til að veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum til fjár í mati á einstökum fyrirtækjum og verðmæti skipanna. Við fengum þessa reynslu varðandi úthafskarfaveiðarnar. Áður en búið var að kvótasetja þær veiðar lá fyrir að menn voru búnir að meta huglægt til fjár þessar veiðiheimildir eða þennan rétt til veiði.

Út af fyrir sig geri ég ekkert með það hvort menn útdeili þessum heimildum á grundvelli aflareynslu eða á einhverjum öðrum forsendum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að menn munu rífast um það daginn út og daginn inn, árið út og inn, hvor aðferðin sé heppilegri og skynsamlegri.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að upp á síðkastið og frá því að lögin um stjórn fiskveiða voru sett árið 1983 hefur oftast verið stuðst við grundvallarregluna um veiðireynslu. Það er þó alls ekkert einhlítt. Það hefur oft og tíðum verið brotið. Ég tek sem dæmi grálúðuna og fleiri tegundir. Auðvitað er nærtækast að nefna í þessu sambandi það sem gerðist áður en þau lög tóku gildi og þeim aflaheimildum var deilt út á grundvelli allt annarrar lagasetningar, en það er loðnukvótinn sjálfur. Honum var ekki úthlutað nema að mjög litlu leyti, mig minnir að einum fjórða, á grundvelli veiðireynslu. Hitt var á grundvelli stærðar skipanna og síðan jafnt, með öðrum orðum nokkuð svipað og lagt er til í þessu frv.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kaus að ræða þetta mál var sú að ég var ekki í þingflokki Sjálfstfl. þegar þetta mál var rætt. Ég vil hins vegar að það komi fram að þetta er mitt sjónarmið og hefur alltaf verið og ég hef sett það fram áður í opinberri umræðu að ég tel að það standi einfaldlega engin efni til þess að úthluta þessum aflaheimildum, hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma, á þessum tímapunkti niður á einstök skip. Það á einfaldlega að nýta þann sóknarmöguleika sem er í skipunum í dag til þess að ná þessum kvóta og ná þessum aflaheimildum sem við væntanlega höfum og það mun frekar styrkja okkar stöðu heldur en hitt. Ég óttast að sú staða gæti komið upp að við næðum enn þá minni hluta af okkar heimildum á síldinni og þar með væri staða okkar til frekari samningaviðræðna miklu veikari en ella.