Áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 13:43:55 (5605)

1998-04-21 13:43:55# 122. lþ. 108.92 fundur 312#B áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[13:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem hvatning mín hefur fengið og árétta að þegar við tölum um auðlindir okkar erum við að tala um mannauðinn, við erum að tala um auðlindir til sjávar og auðlindir til landsins. Við vitum að hörð gagnrýni er uppi meðal þjóðarinnar um hvernig við höfum farið með umráð yfir auðlindum til sjávar. Látum það ekki endurtaka sig um auðlindir landsins. Ég tek undir orð Hjörleifs Guttormssonar að ástæða er til að gaumgæfa betur eignarráð yfir auðlindum og ég minni á þau orð sem féllu hjá Sighvati Björgvinssyni að ónýtt orkan er jafnverðmæt og fiskimiðin.

Virðulegi forseti. Það er samstaða um að afgreiða lög um þjóðlendur. Það er skoðun mín að við eigum að afgreiða þau lög fyrst. Um þau næst samstaða. Við eigum að byggja á þeim með hvernig við förum með hálendið og bíða um sinn með að afgreiða það mál en ekki að ljúka því nú í önnum í lok þessa þings.